Eftir að íslensku bankarnir hrundu var ákveðið að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um risastórt lán. Eins og venja er þegar sjóðurinn lánar landi í vandræðum peninga þá fylgdu því ýmis konar skilyrði – sem nánast taka stjórn efnahagsmála (og þar með í raun stjórn landsmála) að mestu leyti úr höndum Íslendinga.
Tilkynnt var um samstarfið þann 24. október 2008. Tæpum mánuði síðar var lánafyrirgreiðslan afgreidd og fyrsti hluti lánsins var gerður aðgengilegur fyrir íslensk stjórnvöld en samkvæmt tilkynningu áttu svo að fylgja ársfjórðungslegar greiðslur. Nú eru liðnir þrír ársfjórðungar og ekkert hefur verið greitt út meira af láninu og á því eru gefnar mismunandi skýringar, meðal annars að ekki sé búið að samþykkja Icesave samningana en því er einnig haldið fram víða að ýmislegt annað, svo sem fjármál hins opinbera, sé Þrándur í götu þess að næsta útgreiðsla verði samþykkt.
Í tilkynningu forsætisráðuneytisins á sínum tíma sagði að markmið með samstarfinu, og með efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar, væri „að koma á efnahagslegum stöðugleika að nýju.“ Hvernig lánið sjálft átti að hjálpa til við það var lítið rætt, en þó kom fram í tilkynningunni að: „[a]f þeim sökum [væri] mikilvægt fyrir íslenska ríkið að hafa til reiðu stóran sjóð í erlendri mynt til þess að mynda kjölfestu og trúverðugleika fyrir gengisstefnu stjórnvalda og bregðast við óhóflegum sveiflum á gengi krónunnar.“ Þá var ítrekað tekið fram að ekki stæði til að nota gjaldeyrisvarasjóðinn til þess að verja gengi krónunnar heldur virðist hugmyndin hafa verið að hafa hann einungis til reiðu til þess að tryggja að spákaupmenn myndi ekki leggja í þann leiðangur að ráðast á krónuna og fella hana með bolabrögðum.
Þessum rökum var víðast hvar tekið með þegjandi samþykki. En hversu gáfuleg er röksemdafærslan? Úr því ekki átti undir neinum kringumstæðum að nota varasjóðinn – til hvers þá að taka lánið? Og hversu mikil vörn felst í því að vera með varasjóð til reiðu en lýsa því jafnframt yfir að þú munir ekki nota hann? Er þetta ekki sambærilegt eins og að setja límmiða á landareign sína með orðunum „Varúð! Hundurinn bítur ekki“.
Þetta mundu sumir innbrotsþjófar líklega líta á sem egningu frekar en viðvörun. Eini munurinn er reyndar sá að í þessu tilviki er líklegra að hundurinn bíti eigandann frekar heldur en húsbrjótinn.
Hingað til hefur umræðan um lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins einkum snúist um það hvort við fáum þau eða ekki. Erfitt er að koma auga á þann mann sem hefur á reiðum höndum trúverðugar skýringar á því af hverju fleiri risavaxin erlend lán munu koma til með að bjarga. Þó virðist það vera nánast samhljóma söngur þeirra sem fjalla af mestu sjálfstrausti um efnahagsmál að lánið sé himnasending og forsenda þess að eðlilegt viðskiptalíf geti á ný komist á fót í landinu. Þetta segir til dæmis í Morgunkorni Greiningardeildar Íslandsbanka (sem virðist ekki hafa misst nokkra trú á eigin spágetu) þann 27. júlí sl.: „Verði ekki af afgreiðslu láns AGS nú mun hún tefjast a.m.k. um mánuð en öll töf í þessu er óhentug fyrir uppbyggingu á íslensku efnahagslífi.“ Hvernig lánið mun í raunveruleikanum hjálpa til við hið óljósa verkefni sem „uppbygging á íslensku efnahagslífi“ er ekki útskýrt nánar – en ætla má að virki svipað eins og þegar Ísland og íslenska krónan endurheimtu gríðarlega alþjóðlega tiltrú við það eitt að Ísland afhenti tvær aðildarumsóknir í Evrópusambandið.
Það hlýtur að vera skylda þeirra sem tala hvað mest um nauðsyn þess að fá öll þessi lán að útskýra fyrir þjóðinni nákvæmlega hvernig standi til að verja lánunum? Og ef engin áætlun er til staðar um hvernig eyða eigi láninu þá er lántakan sambærileg við að það kostaboð að fá nýtt debetkort með risastórri yfirdráttarheimild. Venjulega stendur ekki til að fullnýta heimildina – en freistingin er til staðar. Og hversu vel gengur stjórnmálamönnum að standast slíkar freistingar?
Þegar allt kemur til alls þá vitum við þetta um lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
1. Ef við tökum það ekki mun erlend skuldastaða ríkisins áfram vera mjög góð í samanburði við önnur lönd, þótt innlend skuldastaða verði verulega slæm.
2. Ef við tökum það þá stendur ekki til að nota það til þess að verja gengi krónunnar, þótt vafasamt sé að treysta stjórnmálamönnum til að standast þá freistingu.
3. Lánaloforðið hefur verið notað til þess að þrýsta á Íslendinga að gangast undir hrikalega ósanngjarna samninga um Icesave skuldbindingarnar og með því að fá ekki lánið ættum við að geta rétt úr bakinu í þeirri deilu.
4. Lánaloforðið hefur haft í för með sér að ekki hefur verið unnt að lækka vexti – og í ofanálag hafa verið sett hér gjaldeyrishöft sem virka eins og fótlóð á hina þreyttu fætur íslensks athafnalífs. Hvernig stuðlar það að „endurreisn íslensks efnahagslífs?“ má spyrja.
5. Niðurstaða þess að taka lánin munu líklega verða til þess að með einum eða öðrum hætti (til dæmis með innspýtingu fjár í bankana eða gervi-gengishækkunum) mun stærri hluta kostnaðar af gjaldþroti íslensku einkabankana verða velt af erlendum áhættufjárfestum og yfir á íslenska skattgreiðendur.
Ef Ísland getur staðið undir góðum lífskjörum með því sem framleitt er í landinu þá eru engin sérstök rök fyrir því að fara út í þessa gríðarlegu erlendu lántöku. Eðlilegra er að láta tapið af hinum föllnu íslensku bönkum falla á þá sem tóku vísvitandi áhættu með þeim – en tryggja umfram allt að hér á landi verði skilyrði til þess að fólk geti unnið í opnu og frjálsu umhverfi að því að búa til ný verðmæti og tækifæri. Óhóflegar skuldir, sem stofnað er til án sýnilegra markmiða, eru bragðvont og óhollt veganesti á þeirri leið – og hæpið má telja að nauðhyggjan sem einkennt hefur aðgerðir stjórnvalda sé líkleg til þess að endurheimta alþjóðlegt traust á íslenskt efnahagslíf. Það mun einungis gerast þegar umheimurinn skynjar að dugandi menn og konur ætli sér að skapa verðmæti og góð lífsgæði í landinu og nýta til þess bæði náttúruauðlindir og mannvit. Það er í höndum íslenskra fyrirtækja að endurvinna traust með frammistöðu sinni í alþjóðlegri samkeppni – og hlutverk stjórnvalda er að skapa þeim sem best skilyrði til þess.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021