Flestir eiga ekki í miklum samskiptum við fjölmiðla og þurfa sjaldan að veita þeim viðtöl eða upplýsingar. Það getur þó komið fyrir okkur öll, og þá getur verið gott að vita hvaða starfsháttum fjölmiðlar fylgja þegar meðferð á munnlegum heimildum er annars vegar – enda geta jafnvel vönustu menn flaskað á því hvernig eftir þeim er haft.
Í mjög grófum dráttum má skipta viðtölum fjölmiðla við viðmælendur sína í tvennt; on record og off record. Er þar átt við hversu langt fjölmiðillinn má ganga í að hafa ummæli eftir viðmælandanum. Stundum fer ekki á milli mála hvers kyns viðtalið er. Í beinni útsendingu í útvarpi eða sjónvarpi er til dæmis nokkuð ljóst að allt sem fer út úr munni viðmælandans er on record – hann getur ekki tekið neitt til baka sem hann segir.
Þegar viðtöl eru tekin upp á hljóð- eða myndband, til dæmis fyrir sjónvarpsfréttir, flækist hins vegar málið örlítið. Þá er það í höndum fjölmiðilsins hvernig haft er eftir viðmælandanum og hvernig ummæli hans eru notuð. Þá þarf að vera skýrt frá upphafi hvort viðtalið sé til birtingar eða ekki. Þegar viðmælandi samþykkir að láta taka upp viðtal við sig er reglan sú að viðtalið er í heild sinni on-record, allt sem sagt er má nota.
Það er ekki góður siður að venja sig á að flakka á milli on- og off-record í slíkum viðtölum, og enn verri að reyna að taka hluti til baka; „Þú mátt ekki hafa þetta sem ég var að segja eftir mér.“ Ef viðmælandinn vill veita fjölmiðlamanni upplýsingar sem ekki má hafa eftir honum þarf að vera ljóst að það er ætlun hans – hann má ekki missa út úr sér trúnaðarupplýsingar eða klúðra viðtalinu og reyna svo að banna fjölmiðlamanninum að nota það eftir á.
Því getur verið ágætt fyrir viðmælanda að taka af allan vafa áður en samtal við fjölmiðlamann hefst. Þegar um upptökuviðtöl er að ræða á samt bæði fjölmiðlamanninum og viðmælandanum að vera nokkuð ljóst hvort talað er on- eða off-record.
Mestur vafi leikur yfirleitt um blaðaviðtöl sem tekin eru í gegn um síma. Þá getur óreyndur viðmælandi talið sig vera að tala off-record þegar fjölmiðlamaðurinn lítur öðruvísi á vegna starfshátta sem viðmælandinn áttar sig ekki á.
Á flestum fjölmiðlum er litið svo á að þegar blaðamaðurinn hefur kynnt sig, sagt hvaðan hann hringir og borið upp erindi símtalsins er viðtalið hafið nema annað sé tekið fram. Þá ber að líta á samtalið sem á eftir fer sem beina útsendingu; viðmælandinn getur ekki tekið það sem hann segir til baka eða breytt því. Skilmálar viðtalsins þurfa þannig að vera skýrir frá upphafi.
Meira að segja á að forðast að flakka mikið á milli þess að vera on-record eða off-record í slíkum viðtölum, þó flestir blaðamenn leyfi viðmælandanum það til að fá upplýsingar sem geta reynst þeim gagnlegar. Það þarf þó að vera ljóst að það er ætlun viðmælandans að tala án þess að eftir honum sé haft („Ég skal segja þér nánar frá þessu, en þú verður þá að lofa að hafa það ekki eftir mér.“) Það gildir það sama og um upptökuviðtöl, viðmælandinn á ekki að geta tekið ummæli sín til baka eftir á. Flestir fjölmiðlamenn leyfa þó óreyndum viðmælendum að njóta vafans.
Mörgum finnst gott að biðja blaðamenn um að hringja í sig og lesa ummælin sem höfð eru eftir viðkomandi. Stundum er það meira að segja forsenda viðtalsins. Það er öllum blaðamönnum ljúft og skylt, en viðmælandinn þarf að átta sig á því hvaða tilgangi slíkt þjónar. Viðmælandi á skýlausa kröfu til að rétt sé eftir honum haft, og því getur hann gert athugasemdir ef honum finnst sem blaðamaður hafi rangt eftir, misskilið eða orðalag brenglast.
Viðmælandi á hins vegar ekki jafnskýra heimtingu á því að breyta ummælum sínum eftir á eða banna blaðamanninum að nota þau, ef honum finnst sem hann hafi gert mistök í viðtalinu sjálfu – það er fölsun. Hann á enga heimtingu á að hafa áhrif á framsetningu blaðamannsins, fyrirsögn fréttarinnar eða aðra þætti sem hafa ekki beinlínis með ummæli viðkomandi að gera. Hann á ekki einu sinni heimtingu á að heyra þá hluta fréttarinnar sem ekki vísa beint til viðkomandi.
Símaviðtöl blaðamanna þjóna mjög skýrum tilgangi sem brenglast þegar viðmælandinn er eitthvað annað en akkúrat það; viðmælandi. Viðtölunum er ætlað að láta lesendum fréttanna líða eins og þeir hafi sjálfir talað við viðmælandann og heyrt hvað hann hafði að segja þegar hann var spurður hreint út og krafinn svara. Hvort hann missti eitthvað út úr sér, hvort hann var skýr í svörum eða loðinn, hvort hann hikaði eða var ákveðinn, hneykslaður, reiður, glaður eða hnugginn. Allt er þetta hluti af frásögn viðmælandans.
Það er auðvitað gríðarleg ábyrgð sem hvílir á fjölmiðlum þegar kemur að meðferð munnlegra heimilda. Þá má aldrei gleymast að þó ofangreindar reglur eigi við, þá er hlutverk blaðamannsins í fyrsta, öðru og þriðja lagi að miðla því sem hann telur satt og rétt samkvæmt sinni bestu vitund. Þannig er fátt sem blaðamaður getur verra gert en að slíta orð viðmælanda síns úr samhengi eða fara út í svokallaðan „Gotcha“ stíl, sem gengur út á að koma aftan að viðmælendum sínum í því eina augnmiði að láta hann líta illa út, koma honum í vandræði eða fá safaríka fyrirsögn.
Ábyrgð blaðamannsins er nefnilega þegar upp er staðið gagnvart sannleikanum – ekki fréttinni.
Kennslubók Jónasar Kristjánssonar í blaðamennsku var höfð til hliðsjónar við ritun pistilsins.
- Borg án sýningarstjóra - 7. desember 2015
- Kombakk plötunnar - 25. ágúst 2015
- Hugleiðing um tjáningarfrelsi - 4. maí 2015