„Samkvæmt áreiðanlegum heimildum hefur Evrópusambandið í samstarfi við Icesave samninganefndina stefnt að því leynt og ljóst að knésetja íslenska þjóð og hafa hafið markvissa útbreiðslu á svínaflensu hér á landi. Það er því deginum ljósara að innan skamms verðum við öll dauð.”
Hér að ofan var örlítil dómsdagsspá í boði pistlahöfundar en dómsdagsspár hafa verið ofarlega í huga höfundar síðustu daga. Síðustu daga hefur Alþingi fjallað um mikilvæg mál sem munu skipta þjóðina miklu til framtíðar, mál á borð við Icesave reikningana og aðild að ESB. Einnig er svínaflensan farin að valda talsverðum titringi meðal landsmanna. Dómsdagsspár á borð við þá sem er að finna í inngangi má heyra víða, þó vissulega sé dæmið hér að ofan eingöngu hugarburður höfundar.
Þegar tekist er á um mikilvæg mál eiga menn það til að skipa sér í tvær fylkingar og segja hinu liðinu statt og stöðugt hvernig allt muni fara til fjandans ef þeirra sjónarmið munu ekki ná fram að ganga. Á báða bóga heyrum við spár um þjóðargjaldþrot, útskúfun úr alþjóðasamfélaginu, afsal á fullveldi, landflótta ungs fólks og hreinlega hungur og volæði íslensku þjóðarinnar um ókomna tíð.
Þeir sem kasta fram svona stórum fullyrðingum og dómsdagsspám vilja oft vera þeir sem geta sagt eftir á: „Ég varaði við þessu“, „Það hefði verið betra að hlusta á mig“ en það veitir sumum einhverja ánægju að vera alltaf “ told you so“ týpan. Dómsdagsspár eru oftar en ekki settar fram til þess að hræða fólk inn á ákveðnar skoðanir og afla málstað sínum fylgis. Þær eiga það þó helst til að draga frekar mátt úr fólki og fá það til að missa trúna á framtíðina, og eitt af því sem við Íslendingar megum alls ekki við núna er að missa vonina.
Eins og staðan er í dag er stuðlað að vonleysi. Fréttaflutningur gengur fyrst og fremst út á að segja okkur hversu slæmir hlutirnir eru og fá sérfræðinga héðan og þaðan til að útlista nákvæmlega hversu miklu verri hlutirnir geti hugsanlega orðið ef A gerist eða B gerist ekki. Því jú vissulega getur vont lengi versnað. Hvað græðum við annars á þessu vonleysistali? Hafa hlutirnir einhvern tímann skánað við það eitt að röfla sig í hel yfir þeim? Er kannski líklegra að það verði til þess að gefumst endanlega upp og tosum sængina upp fyrir höfuð í stað þess að fara framúr?
Raunveruleikinn er sá að fólk kýs frekar að vera á atvinnuleysisbótum en að stunda nám, þar sem það er einfaldlega betri kostur fjárhagslega séð. Það hljóta allir að sjá hversu hættuleg slík þróun er: þegar best er fyrir fólk að vera á bótum, þegar þjóðfélag festist í viðjum hafta og tolla, þegar ungt og óskuldsett fólk vill flytja úr landi því það sér ekki framtíð hér og þegar enginn sér tækifæri í því að stofna ný fyrirtæki þá er ekkert framundan nema volæði. Þar með hafa dómsdagsspárnar ræst.
Hættan við dómsdagsspár er einmitt sú að þær veki upp svo mikið vonleysi hjá fólki að þær rætast á endanum. Við þurfum að gera upp við okkur hvort við viljum búa í samfélagi þar sem ríkir andrúmsloft fyrir jákvæða uppbyggingu eða þar sem neikvæðni og vonleysi ráða ferðinni.
Hvort sem Icesvave verður samþykkt eða ekki og hvort sem Ísland gengur á endanum í ESB eða ekki má teljast nokkuð öruggt að við höldum öll áfram að vera til. Við eigum ennþá hvert annað að, við eigum landið okkar og við eigum dugnaðinn og hugmyndirnar sem búa innra með okkur. Látum ekki vonleysið slá okkur út af laginu. Sköpum okkur ekki samfélag þar sem vonleysi og úrræðaleysi eru allsráðandi. Sköpum okkur samfélag þar sem nýjar hugmyndir fá að blómsta með íslenska bjartsýni að leiðarljósi. Því eins og Nýdönsk syngur: „Komandi tíð verður hörð en bærileg”.
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021