Þann 6. júlí sl. var Cristiano Ronaldo kynntur til sögunnar sem leikmaður Real Madrid en hann var, eins og frægt er orðið, keyptur fyrir metfé fyrr í sumar frá Manchester United. Síðan Ronaldo steig fyrst fæti inn á Old Trafford hefur hann hægt en örugglega skotist upp á stjörnuhimin knattspyrnunnar og upplifað það sem svo gjarnan fylgir frægð og frama: að vera jafnhataður og hann er dáður.
Frumraun kappans var gegn Bolton í ágúst 2003 og verður lengi í minnum höfð hjá áhangendum Manchester United. Nokkrum dögum áður hafði hann skrifað undir samning við félagið og fengið úthlutað treyju númer sjö. Það var ljóst að miklar væntingar voru gerðar til 18 ára unglingsins. Í leiknum fiskaði hann m.a. vítaspyrnu, tók nokkur skæri og átti gullsendingar. Nýr kóngur var mættur á Old Trafford til að trylla lýðinn.
Fljótlega fóru þó að heyrast gagnrýnisraddir, ekki aðeins frá andstæðingum Manchester United, heldur einnig frá stuðningsmönnum félagsins. Þeim þótti mörgum Ronaldo klappa boltanum helst til of mikið og eyða of mörgum mínútum af venjulegum leiktíma í grasinu. Væru veitt verðlaun í knattspyrnu fyrir bestu leikrænu tilburðina hefði hann án efa hlotið tilnefningu á einhverjum tímapunkti, ef ekki hreppt sjálf verðlaunin. Í hörðum heimi ensku knattspyrnunnar er leikaraskapur ekki líklegur til vinsælda en þó áttu leiklistarhæfileikar Ronaldos ekki mestan þátt í þeim óvinsældum sem hann skapaði sér á Englandi. Atvik sem átti sér stað á HM 2006 í leik Englands og Portúgals hafði þar ekki lítil áhrif.
Í leiknum mættust samherjarnir hjá Manchester United, Wayne Rooney og Cristiano Ronaldo, og lenti þeim líka svona illa saman þegar Rooney var rekinn af velli með rautt spjald. Varla var búið að flauta þegar kom Ronaldo á vettvang brotsins í loftköstum, sagði nokkur vel valin orð við dómarann og þegar spjaldinu hafði verið lyft blikkaði hann hróðugur í átt að varamannabekk Portúgals. Í kjölfarið fékk hann gælunafnið „Winker“ og á næsta tímabili var baulað á hann af áhangendum annarra enskra liða en United. Á Old Trafford var sungið:
„He plays on the left, he plays on the right, that boy Ronaldo makes England look shite!“
Næstseinasta tímabil Cristianos Ronaldos hjá United var hans besta. Hann skoraði 42 mörk í alls 49 leikjum og liðið hans vann bæði ensku úrvalsdeildina og Meistaradeildina. Um sumarið náði frægð hans síðan áður óþekktum hæðum þegar fréttir þess efnis að hann væri á leið til Real Madrid tröllriðu öllum fjölmiðlum á meðan slúðurblöðin kepptust við að birta nýjustu myndirnar sem náðust af honum í sumarfríi.
Ári síðar gekk hann svo loks til liðs við þá hvítklæddu, fagnaði félagaskiptunum með því að hössla Paris Hilton og klæða sig upp í bleikt. Strákurinn sem sex árum áður hafði mætt til Manchester með núðlur í hárinu og skakkt bit tók ekki aðeins stakkaskiptum knattspyrnulega séð undir stjórn Sir Alex Fergusons heldur stökkbreyttist hann einnig í útliti. Real Madrid keypti ekki aðeins besta knattspyrnumann heims heldur einnig þann sem taka mun við kyndlinum af David Beckham sem næsta kyntákn knattspyrnunnar.
Hans verður eflaust sárt saknað á Old Trafford og þrátt fyrir að það komi alltaf maður í manns stað trúi ég tæplega þeim stuðningsmönnum United sem segjast fegnir því að losna loksins við Ronaldo. Að minnsta kosti þyrfti hann að vera álíka góður og Michael Owen til þess að ég léti hafa slíkt eftir mér.
- Án takmarkana - 15. júlí 2021
- Besta fjárfestingin og forréttindin - 21. júní 2021
- Ein þeirra heppnu - 17. maí 2021