Íslenzka krónan er dauð! Á síðustu 18 mánuðum hefur gjaldmiðill Íslendinga tapað 80% af verðgildi sínu og er leitun að gjaldmiðli vestræns ríkis sem hefur orðið svo illa úti. Skýringa á því hvers vegna svo illa er komið fyrir krónunni má leita víða en í kosningabaráttu Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar mátti skilja sem svo að orsakirnar mætti finna í þáverandi seðlabankastjóra og stefnu ríkisins í peningamálum. Allt kapp skyldi lagt á að skipta um manninn í brúnni og þá færi vorið að breiðast yfir peningamarkaðinn. Síðan yrði skipuð nefnd peningasérfræðinga til að búa til nýja peningastefnu, gengið í Evrópusambandið og að síðustu yrði tekin upp evra. Við inngönguna í ESB myndum við tengja íslenzku krónuna strax við evruna þangað til við gætum tekið hana upp, sem gæti tekið eitthvað örlítið lengri tíma. Þetta var held ég í stuttu máli leikjafræðin. Kíkjum á árangurinn og hvernig næstu skref gætu þróast:
Búið er að skipta um seðlabankastjóra en því miður hefur krónan haldið áfram niðurleið sinni af miklum krafti. Mætti jafnvel halda því fram að við hefðum betur heima setið en af stað farið. Nú er búið að ráða enn einn seðlabankastjórann, reyndar sem er, eins ótrúlegt og það kann að hljóma, einn aðalhöfundur hinnar gömlu peningamálastefnu. Hefur hann nú birtzt í fjölmiðlum og ljáð skoðun sína á því að peningastefnan hafi ekkert haft með hrunið að gera og alls ekki brugðizt. Virðast því tvær fyrstu remedíur Samfylkingarinnar ekki virka sem skyldi.
Höldum áfram að tékka við listann á húsráðunum. Næsta skref var að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það eitt á að hafa í för með sér aukna tiltrú á krónunni. Ætli það standist líka ef ríkisstjórnin stendur ekki samhuga á bak við aðildarumsóknina? Meira að segja forystumenn annars ríkisstjórnarflokksins segja að þeir vilji ekkert fara í þetta Evrópusamband þó þeir ætli að prófa að sækja um. Fullvíst er að tiltrú erlendra fjárfesta mun stóraukast bara við það að við föxum aðildarumsóknina til Brussel. Faxið yrði að vísu með fyrirvörum um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu, um breytingu á stjórnarskrá (og þá kosningum á milli), um óljósar kröfur um miklar undanþágur frá regluverki ESB og ósamstíga ríkisstjórnarflokka og þá ráðuneyta sem þurfa að semja við ESB um sína málaflokka. En það er bara borðleggjandi að krónan mun taka á mikla rás upp á við.
Nú næsta skref er að um leið og við erum komin inn í Evrópusambandið að tengja krónuna strax við evruna. Þetta hlýtur að vera enn ein undanþágan, sem við ætlum okkur að fá, á regluverkinu. Því auðvitað ætlum við ekkert að bíða þangað til við uppfyllum þær kröfur sem settar eru fyrir því að ganga inn í ERM II (tengingin við evruna). Já, þó að Ungverjaland sé búið að bíða síðan 2004 eftir því að fá að tengja forintuna sína við evruna og allt útlit sé fyrir því að þeir fáið það ekki fyrr en 2011, að þá hefur reynslan sýnt að Íslendingar eru mjög slyngir samningamenn og því standa allar líkur til þess að við fáum þetta strax.
Nú þegar allt þetta hefur gengið eftir, hratt og vel eins og smurð vél, að þá ætlum við auðvitað að taka upp evru. Bjartsýnustu menn segja það hægt einhvern tíma í framtíðinni en við vitum auðvitað betur. Evra í nánustu framtíð segi ég og skrifa, og sjálfsagt nær en okkur grunar! Ég meina, við bara hljótum að geta tekið upp evruna á undan Eystrasaltslöndunum, Rúmeníu, Búlgaríu og hvað þá Ungverjalandi, sem því miður (fyrir þá) er ekkert að fara að fá evruna í bráð.
Mikið vildi ég að Samfylkingin kæmi með fleiri svona lausnir. Maður gæti séð fyrir sér að þeirra lausn á því hvernig við getum bjargað landinu og reist það úr rústunum yrði mikilvægt innlegg. En auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess. Ætli Samfylkingin sé ekki eins og karlmaður – getur bara gert einn hlut í einu. Nú er hún að einbeita sér að rústabjörgun krónunnnar.
- Evrópulaun - 18. janúar 2010
- Bókadómur: Frá Evróvision til evru – allt um Evrópusambandið - 14. október 2009
- Sannleikurinn um sáttmálann - 22. september 2009