Í nóvember síðastliðnum var ég stödd í New York á leiðinni til Ohio ásamt nokkrum laganemum frá Háskóla Íslands til að heimsækja samstarfsskóla. Gengi íslensku krónunnar var óhagstætt en ferðin löngu ákveðin. Ég ákvað því að gista eina nótt hjá kambódískri vinkonu minni sem er í háskóla í Connecticut og sneiða þannig hjá háu verðlagi í New York borg.
Þegar komið var til Connecticut fengum við okkur kaffi og settumst í garð á háskólasvæðinu þennan fallega hausteftirmiðdag. Eftir fagnaðarstund og stutta upprifjun á lífshlaupi okkar undanfarna mánuði var ég fljót að tengja allt sem hafði gerst hjá mér við kreppuna á Íslandi. Ekki leið á löngu þar til ég var farin að tala um mótmælin, skuldirnar, gengið, ákvarðanir stjórnvalda og reiðina. Ég lýsti yfir áhyggjum mínum um framtíð landsins míns. Framtíð landsins sem ég hafði lofsamað öll þau ár sem við höfum þekkst. Ég lýsti yfir áhyggjum mínum að ekki væri hægt að halda uppi heilbrigðiskerfi, menntakerfi né velferðarkerfi. Efnahagurinn væri í rúst, viðskiptalífinu yrði aldrei borgið, enginn stöðugleiki væri í augsýn fyrir þjóðina.
Kambódíska vinkona mín sýndi mér ótrúlegan skilning og eftir á að hyggja hef ég hljómað eins og dekrað barn sem ekki skilur hvers vegna það fær ekki leikfangið sem það langar í. Fjölskylda hennar hefur lent í slíkum hremmingum fyrir það eitt að vilja koma á lýðræði í heimalandi sínu að engin orð fá því lýst.
Vinkona mín tók til máls. Hún byrjaði á því að spyrja hvort Íslendingar hefðu aðgang að lækni væru þeir veikir. Ég svaraði því játandi. Hún spurði mig hvort börn gætu ennþá lært að lesa og reikna. Ég svaraði því játandi. Hún spurði mig hvort margir myndu þurfa að svelta. Ég svaraði því neitandi. Hún spurði hvort þingmenn yrðu sviptir þinghelgi til þess að hægt væri að drepa þá. Hvort margir þyrftu að flýja land vegna ofsókna. Hvort fólk þyrfti að lifa á minna en dollara á dag. Hvort börn þyrftu að leita á ruslahaugum að tómum kókdósum, sem væru orðin verðmæti. Ég svaraði öllum þessum spurningum neitandi. Þá sagði hún mér að hafa ekki áhyggjur því þjóð sem hefur undirstöður samfélagsins í lagi getur vel þolað hremmingar í efnahagslífi. Meðan börn fengju að borða, læra og lifa heilbrigðu lífi væri ekkert að óttast, allt annað væri hægt að laga. Á íslensku hefði skýringin verið ,,þetta reddast“.
Kambódíska vinkona mín var send 14 ára til að búa ein í Frakklandi, vegna ofsókna og morðhótana í hennar garð vegna stjórnmálaskoðana foreldra hennar. Hún horfir upp á þjóð sína í rústum mörgum árum eftir að ríkisstjórn Rauðu Khmeranna féll. Þessi orð hennar fengu mig til endurhugsa aðstæðurnar hér heima. Þrátt fyrir svart útlit í efnahag þjóðarinnar og yfirvofandi niðurskurð í ríkisrekstri, þá eru undirstöður samfélagsins enn þá til staðar og aðgengilegar almenningi.
Í niðurskurðinum sem nú stendur yfir sitja allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar og hinir 53 þingmennirnir frammi fyrir því að þurfa að bregðast kjósendum sínum og hugsjón. Jóhanna þarf að skera niður í velferðarkerfinu, Ögmundur í heilbrigðiskerfinu og Katrín í menntakerfinu. Þau hefðu væntanlega aldrei átt von á því að samþykkja að skera niður á öllum þessum sviðum. Það skiptir hinsvegar höfuðmáli að viðhalda öllum grunnstoðum samfélagsins sem hafa einkennt Ísland síðustu árin sem velferðarsamfélag. Það má ekki skera svo niður að veikt barn fái ekki læknisaðstoð, það má ekki skera svo niður að fólk fái ekki að læra og það má ekki skera svo niður að foreldrar geti ekki fætt börnin sín.
Framundan er niðurskurðurinn eins og grátt ský og við bíðum eftir rigningunni. Nú reynir svo sannarlega á ráðamenn þjóðarinnar og hvar þeir skera niður. Það er undir ráðamönnum Íslands í dag komið hvort börn kambódísku vinkonu minnar munu geta setið með börnum mínum og sagt þeim að undirstöður íslensks samfélags séu enn stöðugar og traustar og þar með geti landið þolað áföll og hremmingar.
- Hvað verður um Evrópusambandið? - 10. desember 2011
- 540 daga stjórnarkreppa á enda – bara efnahagskreppan eftir - 3. desember 2011
- Vald án ábyrgðar - 20. apríl 2011