Tryggingarsjóður innistæðueigenda oftúlkaði að því er virðist íslensk lög á enskri útgáfu heimasíðu sinnar. Í þýðingunni var gengið miklu lengra í að sannfæra fólk um að lán yrði tekið til að greiða út innistæðutryggingar heldur en gert er í íslensku útgáfunni og raunar mun lengra en íslensk lög gefa tilefni til. Það er skítalykt af þessu.
Á íslensku útgáfu síðunnar stendur um útgreiðslur úr sjóðnum:
„Tryggingarsjóður á eignir til útgreiðslu ef þörf krefur. Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til getur stjórn hans tekið lán til að greiða kröfuhöfum.“
Þetta orðalag byggir á 10. gr. laga um Tryggingarsjóð en þar segir meðal annars:
„Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum.“
Umrædd lög eru til í enskri þýðingu þar sem umræddar málsgreinar hljóma svo:
„Should the total assets of the Fund prove insufficient, the Board of Directors may, if it sees compelling reasons to do so, take out a loan in order to compensate losses suffered by claimants.“
Þetta er bæði rétt og nákvæm þýðing af íslensku lögunum. Það vekur því óneitanlega mikla furðu að á enskri útgáfu heimasíðu Tryggingarsjóðsins stóð eftirfarandi þegar bankarnir hrundu, og stendur raunar enn:
„The Fund in Iceland is pre-funded and post-funded if needed, as is the general setup across Europe. If the total assets of the Fund prove insufficient, the Fund will borrow funds in order to compensate losses suffered by claimants.“
Hér er sem sagt sagt að Tryggingarsjóðurinn muni taka lán fyrir útgreiðslum. Ekki að hann geti gert það, heldur að hann muni gera það. Punktur.
Á orðalaginu er raunar ljóst að ensk þýðing laganna var höfð til hliðsjónar við gerð heimasíðunnar en að einhver hafi kosið á hagræða orðum á þann hátt að útlendingar væru ekki í nokkrum vafa um að innistæður þeirra væru tryggðar.
Hver ákvað að hagræða þýðingunni með þessum hætti? Voru menn hjá sjóðnum of ákafir í að láta hlutina hljóma betur en þeir voru, var þetta gert vegna fyrirspurna erlendis frá, eða ábendinga frá innlendum bankastofnunum? Við þessum spurningum væri gaman að fá svör.
Það er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að Tryggingasjóður hafi, líkt og raunar aðrar stofnanir og ráðuneyti, tekið þátt í markaðssetningu íslenskra fjármálafyrirtækja á erlendri grundu og að til þess hafi hann fegrað allsvakalega sannleikann um íslenska löggjöf. Siðferðislega er erfitt fyrir Ríkið að þvo hendur sínar af slíkum skít.
Tilvísanir: Heimasíða TIF um útgreiðslur, íslenska, Heimasíða TIF um útgreiðslur, enska, Lög um Tryggingarsjóð, íslenska, Lög um Tryggingarsjóð, enska
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021