Sagt hefur verið að leiðin til heljar sé vörðuð góðum fyrirætlunum. Fá svið mannlífsins falla betur að því máltæki en stjórnmálin. Algengast er að fólk sem starfar á stjórnmálasviðinu taki ákvarðanir með góðum hug með þveröfugum afleiðingum.
Samstaða ríkir meðal landsmanna um að mikilvægt sé að hjól atvinnulífsins snúist á ný. Sama hvort þeir tilheyri stjórnmálaflokki eða ekki, eða styðji einhvern þeirra sem nú reyna að ráða fram úr efnahagsvandanum, innan eða utan ríkisstjórnar. Helstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum, málaflokki sem hún telur sennilega alfarið innan síns verkahrings, hafa þó valdið vonbrigðum. Eitt af nýlegri aðgerðum ríkisstjórnarinnar er að hækka tryggingargjald í því augamiði að fjármagna greiðslu atvinnuleysisbóta. Þessi aðgerð – fjármögnun áframhaldandi atvinnuleysis – lýsir ekki bara vantrú á fólki og fyrirtækjum landsins heldur einnig grundvallarmisskilningi á eðli hins frjálsa atvinnumarkaðar.
Hækkun launatengdra gjalda kann að skila auknum tekjum í ríkiskassann. Slík hækkun getur hins vegar haft slæmar afleiðingar. Hærri skattar, sem vissulega er um að ræða í þessu tilfelli, sníður fyrirtækjum enn þrengri stakk en þau þurfa að láta sér lynda í dag. Minna svigrúm gefst til nýráðninga starfsfólks eða aukinnar starfsemi. Fyrirtæki geta einnig þurft að hækka verð á þeim vörum eða þjónustu sem þau sýsla með til að mæta auknum álögum ríkisins. Í raun virðist efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar virka á þennan veg: Skattar og gjöld hækka, með tilheyrandi auknum rekstrarerfiðleikum fyrirtækja og hækkandi verðlagi. Auknar tekjur ríkisins, ef einhverjar, síðan notaðar í að viðhalda ofeyðslu hins opinbera og atvinnuleysinu sem hlýst af illri meðferð á einkageiranum.
Til að takast á við atvinnuleysi þarf að skapa aðstæður til sjálfsprottinnar atvinnusköpunar. Lausnin við atvinnuleysi er ekki atvinnuleysisbætur, þó slíkt kerfi geti verið gagnlegt til að mæta skammtímaáföllum einstaklinga. Besta leiðin til að útrýma atvinnuleysi er að skapa heilbrigðar efnahagsaðstæður, þar sem heilbrigð ríkisfjármál og skilvirkt bankakerfi er til staðar. Lengi hefur mismunandi viðhorf vinstrimanna og þeirra sem aðhyllast aukið frjálsræði endurspeglast í viðhorfi til atvinnulífsins. Vinstrimönnum hættir til að líta á atvinnulíf og fyrirtækjaflóru sem stjórnborð eða stórt mælaborð, þar sem breyta má stillingum lítillega til eða frá til að auka tekjur ríksins á einum stað eða minnka þær á öðrum. Vænlegra til árangurs í sköpun hagfellds atvinnuumhverfis er að líta á atvinnulífið sem gróður sem mun festa öflugar rætur ef umhverfið er með besta móti.
Hver einasta króna sem hið opinbera tekur til sín með gjaldtöku og skattheimtu verður til í einkageiranum. Það eru sannarlega takmörk fyrir því hversu mikil verðmæti ríkisvaldið getur kreist úr einkageiranum – þeim hluta hagkerfisins sem skapar verðmæti – til að halda lífinu í þeim hluta sem skapar lítil ný verðmæti, opinbera geiranum.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021