Mörg fyrirtæki bæði innanlands og utan hafa farið þá leið að banna samskiptavefi eins og Twitter og Facebook. Yfirleitt eru áhyggjur fyrirtækja af tvennum toga, annars vegar eru þær að starfsmönnum er ekki treyst að þegja yfir leyndarmálum fyrirtækisins og að þeir muni deila þeim á leiftur hraða í gegnum þessar síður. Hin megin rökin hafa verið að síðurnar séu einfaldlega tímaþjófur og starfsmönnum sé ekki treystandi að verja eðlilegum tíma á þessum síðum.
Í raun halda hvorug rökin mjög vel, eins og sést hefur best í Íran getur reynst mjög erfitt að koma algjörlega í veg fyrir að þeir sem vilji nota þessar síður geri það. Sé vilji fyrir hendi er yfirleitt fær leið. Hafi fyrirtæki áhyggjur af því að starfsmenn deili með umheiminum viðkvæmum upplýsingum, er einnig mjög erfitt að koma í veg fyrir það. Í dag eru það margar leiðir til að koma upplýsingum á framfæri að það er óvinnanlegt verk að stoppa í alla leka, auk þess sem starfsmenn sem hafa vilja til geta t.d. mætt með eigið 3G netkort, tekið gögn á usb kubb eða á annan máta komið upplýsingum áfram. Varðandi tímaþjófnaðinn eru ýmsir þættir sem hafa meiri áhrif, t.d. lestur fréttamiðla, sendingar á einkatölvupóstum, ýmsar truflanir, skortur á skipulagningu og óþarfir fundir, svo eitthvað sé nefnt.
Í nútíma samskiptum eru samskiptasíður orðinn mikilvægur þáttur í samskiptum manna á milli, líklega eru fá lönd sem státa t.d. af jafnmikilli þátttöku á Facebook eins og við Íslendingar. Ótti fyrirtækja við síðurnar er óþarfur, hvort sem er þegar kemur að því að koma í veg fyrir að starfsmenn eyði tíma eða deili upplýsingum. Almenn skynsemi hlýtur að ráða för, þegar einstaklingur er að vinna vinnuna sína.
Í stað þess að loka á þessar síður eða banna þær er nóg að setja reglur, til eru fjöldi samtaka sem hafa tekið saman reglur um hvernig er eðlilegt að starfsmenn hagi sér í netheimum á meðan þeir eru í vinnunni hérna er dæmi um síðu með yfir 40 síðum með reglum fyrir starfsmenn.
Um leið og mörg fyrirtæki hafa verið að tileinka sér samskiptasíður til eigin markaðssetningar þá treysta þau ekki starfsmönnum sínum til þess að nýta sér síðurnar. Samskiptasíður hafa í raun reynst mjög gott markaðstæki, bæði vegna þess að starfsmenn fyrirtækja hafa verið í betri samskiptum við viðskiptavini og þekkja þannig betur inn á þá og einnig hafa fyrirtæki nýtt sér síðurnar beint til að koma vörum sínum á framfæri. Dell kynnti t.d. fyrir nokkru að hafa aukið sölu á tölvum um milljónir dala eingöngu í gegnum samskiptasíðuna Twitter (Sjá hér)
Það skítur því nokkuð skökku við þegar fyrirtæki treysta ekki eigin starfsmönnum til að fara inn á þessar síður en eru sjálf á fullu í að reyna að nýta sér þessar síður til markaðssetningar. Í raun væri betra að leyfa eigin starfsmönnum að vera verðugum fulltrúum fyrirtæksins á síðunum og taka þátt í því samfélagi sem þar eru.
Lausnin er því ekki að banna síðurnar, heldur að setja reglur um notkun.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020