Eina albestu dæmisögu sem ég hef heyrt er að finna í bókinni Alkemistanum eftir Paulo Coelho. Þar segir frá ungum kaupmannssyni sem dreymdi um að nema leyndardóm hamingjunnar af vitringi einum og lagði á sig langt ferðalag til að finna höll hans í eyðimörkinni.
Drengurinn gekk í marga daga í brennandi hita eyðimerkurinnar í leit að höllinni. Þegar hann loksins fann hana og hitti vitringinn hafði vitringurinn hins vegar ekki tíma til að sinna honum. Hann bauð drengnum þess í stað að skoða sig um í höllinni, en bað hann um þann greiða að geyma fyrir sig tvo dropa af olíu í skeið í leiðinni.
Ungi kaupmanssonurinn gekk herbergi úr herbergi í höllinni og gætti þess allan tímann að glutra ekki niður olíudropunum sem honum hafði verið treyst fyrir. Þegar hann hitti vitringinn aftur spurði vitringurinn hvernig honum hefði litist á lystisemdir hallarinnar. Drengurinn játaði skömmustulegur að hann hefði verið of upptekinn af því að gæta að olíudropunum til að skoða sig um.
Svo vitringurinn sendi hann af stað aftur og sagði honum að njóta hinnar fögru hallar og líta fegurð hennar augum. Þegar drengurinn sneri aftur úr seinni skoðunarferðinni gat hann lýst fegurð hallarinnar í smáatriðum – en tók síðan eftir að hann hefði farið of geyst og misst báða olíudropana.
„Þá er þetta eina ráðið sem ég hef að gefa þér,“ sagði vitringurinn við hann. „Leyndardómur hamingjunnar felst í að sjá öll undur veraldar og gleyma aldrei olíudropunum tveim í teskeiðinni.“
Boðskapur sögunnar er sá að leyfa ekki veraldlegum áhyggjum að bera lífsgleðina ofurliði, en týna sér heldur aldrei svo í lystisemdum að ábyrgðin gleymist. Ég held að við hefðum öll gott af því að hugleiða hvoru tveggja annað slagið – ekki síst núna.
- Borg án sýningarstjóra - 7. desember 2015
- Kombakk plötunnar - 25. ágúst 2015
- Hugleiðing um tjáningarfrelsi - 4. maí 2015