Nafnlausi kröfuhafinn

Í allri umræðunni um efnahagsmál á Íslandi eru ákveðin orð eða heiti notuð reglulega. Sem dæmi má nefna: „erlendir fjárfestar“, „kröfuhafar bankanna“ og „eigendur jöklabréfa“. Hvernig stendur eiginlega á þessu endalausa nafnleysi?

Í allri umræðunni um efnahagsmál á Íslandi eru ákveðin orð eða heiti notuð reglulega. Sem dæmi má nefna: „erlendir fjárfestar“, „kröfuhafar bankanna“ og „eigendur jöklabréfa“. Hvernig stendur eiginlega á þessu endalausa nafnleysi?

Upplýsingar um eignarhald
Það eru ekki vélmenni á bak við orðin „fjárfestir“, „eigandi“ eða „kröfuhafi“. Heldur einstaklingar eða fyrirtæki/sjóðir í eigu ákveðinna einstaklinga. Stundum finnst mér upplýsingar um eignarhald vera flokkaðar sem „top secret“ eða þær séu hreinlega ófáanlegar. Hvernig stendur á því að svona erfitt reynist að birta lista yfir t.d. kröfuhafa íslensku bankanna eða eigendur jöklabréfa? Einhver hlýtur að vera með yfirlit yfir eigendur þessara „þjóðhagslega mikilvægu“ eininga á fjármálamarkaðnum hérlendis sem njóta m.a. ríkisábyrgðar. Eða sér Fjármálaeftirlitið (FME) um eftirlit með kerfi sem það veit afskaplega lítið um?

Hver er ábyrgð erlendra fjárfesta?
Ég heyri oft stjórnmálamenn og aðra tala um að vernda erlenda fjárfesta/kröfuhafa svo þeir muni þora að fjárfesta hér á ný í framtíðinni. Voru það ekki einmitt erlendir fjárfestar sem tóku ákvörðun um að lána íslenskum bönkum í einkaeigu yfir 15 þúsund milljarða? Þarf ekki að gera athugasemd við það að einhver tók ákvörðum um að lána íslenskum bönkum slíkar fjárhæðir? Ég vil gjarnan fá að aðgreina hvaða erlendu fjárfesta ég tek þátt í að vernda sem skattgreiðandi. Það er ljóst að þeir sem tóku áhættuna á því að fjárfesta svona gríðarlega hér á landi verða einnig að axla ábyrgð.

Íslenska ríkið og þar með íslenskir skattgreiðendur sáu fyrir tryggingu allra innistæðna í íslenskum bönkum. Fjárfestar, eða kröfuhafar bankanna, treystu á ríkisábyrgðina og tryggðu ekki krónu sjálfir. Ég á rétt á að vita hvaða kröfuhafar hafa notið íslensku ríkisábyrgðarinnar. Að mínu mati verður hið víðfræga „gegnsæi“ að vera í lykilhlutverki þegar kemur að endurreisn íslenska efnahagslífsins sem og þess alþjóðlega. Almenningi eða að minnsta kosti yfirvöldum ber að eiga allar upplýsingar um eignarhald svo hægt sé að veita kerfinu almennilegt aðhald og öflugt eftirlit.

rej1@hi.is'
Latest posts by Reynir Jóhannesson (see all)