Núverandi ríkisstjórn á Íslandi virðist, ef marka má fréttir síðustu daga, veðja á að aðild Íslands að ESB muni leysa flest okkar vandamál og því sé bæði eðlilegt og nauðsynlegt að fórna því sem til þarf til að svo megi verða. Enginn hefur útskýrt á skýran og greinargóðan hátt hvernig aðild muni koma Íslandi til bjargar en í stað þess er boðið upp á óljóst tal um lækkun matvöruverðs, aukna tiltrú erlendis og styrkingu krónunnar. Spunameistarar ríkisstjórnarinnar keppast við að selja landsmönnum þessa hugmynd og jafnframt að aðildarviðræður fari þannig fram að Ísland móti fyrst samningsmarkmið sín, sendi þau svo til Brussel og svo setjist báðir aðilar að samningaborðinu og reyni að komast að niðurstöðu og helzt þá þannig að það sé Íslandi í vil.
Því miður gæti þessi veruleiki ekki verið fjarri sannleikanum. Í fyrsta lagi ber að nefna að Evrópusambandið hefur nú þegar mótað sér reglur um lágmarksviðmið ríkja til að ganga inn í sambandið (Kaupmannahafnarviðmiðin), en það sem mikilvægara er þó, er að eins og mál hafa þróast innan ESB á seinni árum að þá sezt sambandið yfirleitt ekki að samningaborðinu fyrr en óformlega er búið að ná niðurstöðu við umsóknarríkið, þ.e. þegar Evrópusambandið hefur fullvissað sig um að skilyrði sín fyrir inngöngu verði uppfyllt.
Í öðru lagi að þá er ekki mikill vilji innan ESB fyrir frekari stækkunum eins og málum er nú háttað. Þjóðverjar eru tregir í taumi og hefur Angela Merkel látið hafa eftir sér að ekki verði um frekari stækkanir á ESB í bráð fyrir utan hugsanlega Króatíu. Nú er aðild Króatíu í uppnámi sökum landamæradeilu við Slóveníu og hefur Evrópusambandið frestað frekari stækkunarviðræðum um óákveðinn tíma! Er þetta auðvitað mjög slæmt fyrir hugsanlega aðild Íslands því Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, hefur sagt að það sé útilokað fyrir Ísland að ganga inn í ESB á undan Króatíu. Einnig er ljóst að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi um Lissabonnsáttmálann muni hafa mikil áhrif. Verði sáttmálinn felldur er fullljóst að ekki verður um frekari stækkun á ESB í bráð, í hið minnsta ef Frakkar hafa eitthvað um málin að segja.
Í þriðja lagi að þá hefur í seinni tíð gefist illa að óska eftir mikið af varanlegum undanþágum frá regluverki ESB. Viðmiðunarregla gæti verið að 10-20% af óskum um undanþágur náist fram en á móti kemur lengja allar slíkar óskir mjög í umsóknarferlinu. Reyndar er líklegt að slíkar óskir gætu komið í veg fyrir aðild eigi einhverjar þjóðir erfitt með að sætta sig við þær kröfur um undanþágur sem settar eru fram. Óskir Íslands um eigið fiskveiðistjórnunarkerfi eru einmitt slíkar kröfur, enda erfitt að sjá fyrir sér að Spánverjar og Bretar láti Íslendingum það eftir möglunarlaust. Fyrir utan að þeirri staðreynd er aldrei haldið á lofti að einungis fjögur ríki innan ESB hafa fengið varanlegar undanþágur frá hluta af ESB samstarfinu! En rætt er um þessi mál eins og flest ríki njóti slíkra undanþága, þegar það gæti ekki verið fjarri sannleikanum.
Í fjórða lagi og kannski það sem er mikilvægast, er að Íslensk stjórnvöld hafa haldið því fram að með því að ganga í Evrópusambandið myndum við skjóta styrkari stoðum undir íslenzku krónuna og aðild sé grundvallaratriði til að hún styrkist á ný. Þetta yrði gert með samstarfi við ESB og samningum um að Ísland fái að ganga inn í European Exchange Rate Mechanism (ERM II). Allt slíkt tal er algjörlega óábyrgt og í raun fáranlegt að mönnum hafi leyfst að halda slíku fram. Fyrst ber að nefna að fjölmörg lönd ESB eru ekki enn komin inn í ERM II þrátt fyrir mikinn vilja og er Ungverjaland kannski bezta dæmið þar um. Hví skyldu ungversk stjórnvöld, sem eygja hugsanlega möguleika á inngöngu í ERM II árið 2010 eða 2011 (þá búin að vera aðilar að ESB síðan 2004) veita Íslandi undanþágu frá reglunum og aðild að einhverju sem þau sjálf fá ekki? Hvert og eitt land hefur neitunarvald þegar kemur að aðild nýrra ríkja og það yrði auðvitað sjálfsmorð fyrir stjórnvöld í ESB landi ef þau veittu nýju landi aðild að regluverki sem þau sjálf hafa ekki fengið aðild að!
Þegar allt er tekið saman að þá er óskiljanlegt að núverandi stjórnvöld á Íslandi leggi allt kapp á umsókn og aðild að ESB til lausnar á núverandi vanda Íslands. Er það ábyrgt af stjórnvöldum og stjórnmálaöflum landsins að leita ekki annarra lausna og hafa í hið minnsta „plan B“ ef allt gengur eins og líklegast er?
- Evrópulaun - 18. janúar 2010
- Bókadómur: Frá Evróvision til evru – allt um Evrópusambandið - 14. október 2009
- Sannleikurinn um sáttmálann - 22. september 2009