Sú ákvörðun Evrópusambandsins að hætta aðildarviðræðum við Króata er allrar athygli verð, ekki síst vegna þeirrar fyrirætlunar ríkisstjórnar Íslands að sækja um aðild að sambandinu eigi síðar en í haust.
Þannig háttar til að Króatar og Slóvenar hafa átt í landamæradeilum sem eiga rætur að rekja til stríðsátakana á Balkansskaga í upphafi 10. áratugarins. Slóvenar, sem gengu í ESB árið 2004, eru innlyksa ríki og landamæradeilan snýst um aðgengi þeirra að strönd Adríahafsins. Sú ákvörðun ESB að hætta aðildarviðræðum um óákveðinn tíma er diplómatískt bylmingshögg fyrir Króata og þeim hefur í raun verið stillt upp við vegg. Hljómar það kunnuglega?
Þessar vikurnar hefur Alþingi tvö mál til umfjöllunar, hvort tveggja mál sem ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að verði samþykkt. Annars vegar er það frumvarp sem felur í sér samþykki þingsins fyrir Icesave-samningi ríkisstjórnarinnar, þar sem íslenska þjóðin tekur á sig meiri fjárhagslega ábyrgð gagnvart erlendu ríki en dæmi eru um í sögunni, og hins vegar þingsályktun þar sem ríkisstjórnin fær víðtækt umboð Alþingis til að semja við Evrópusambandið um aðild Íslands að sambandinu.
Þeir eru allmargir hér á landi sem telja að umsókn um aðild að ESB feli í sér viðræður jafnsettra aðila um undanþágur og aðlögun að lögum og reglum sambandsins. Eins og nú sannast í umsóknarferli Króatíu þá er við ofurefli að etja í slíkum samningum, einkum og sér í lagi þegar núverandi aðildarríki telja sig eiga óuppgerðar sakir við umsóknarríki. Ferlið er þannig líkara nauðasamningi við lánadrottin en samningi tveggja fullvalda þjóðréttaraðila.
Skyldi ofurkapp ríkisstjórnar Íslands, sem sett hefur stefnuna á aðild að ESB, á að gangast undir afarkosti ESB, Breta og Hollendinga vegna innstæðutrygginga, tengjast því að menn vilja ekki hafa slíkar óuppgerðar sakir þegar umsóknarferlið hefst? Ef svo er, þá hefur engin þjóð þurft að greiða aðild að ESB jafn dýru verði og Íslendingar.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021