Ævisögur og þá sérstaklega sjálfsævisögur hafa verið vinsælar á undanförnum árum á bókamarkaðnum. Ævisögurnar eru mismerkilegar en saga Íslendingsins Leifs Muller er bók sem enginn á að skilja ósnerta.
“Býr Íslendingur hér” er saga Leifs Muller, en hann var einn af fáum Íslendingum sem lenti í fangabúðum Nasista í seinni heimsstyrjöldinni og lifði þá dvöl af. Saga hans er vægast sagt ótrúleg og þrátt fyrir að sá sem skrifar þennan pistil hafi lesið ófáar bækur og horft á fjöldan allan af kvikmyndum sem gerast á tímum seinni heimsstyrjaldar, þá er mjög sérstakt við það að lesa frásögn Íslendings.
Leifur Muller var aðeins tvítugur þegar Gestapo og SS-sveitir Hitlers sviptu hans frelsinu, án dóms og laga. Honum var haldið í fangelsi við Möllergaten, þaðan var hann fluttur til Grini og á endanum til Sachsenhausen í Þýskalandi, þar sem hann dvaldi lengst af sem fangi.
Í Sachsenhausen varð líf Leifs helvíti á jörð, aðbúnaður fanganna og framkoma SS-sveitanna var með ólíkindum, en á einhvern hátt náðu fangarnir að aðlagast umhverfi sínu. Þeir náðu að lifa af erfiða vinnudaga, sjúkdóma, ótrúlega kulda og barsmíðar þrátt fyrir litla sem enga næringu, lítinn fatnað, lítinn svefn og lélegan aðbúnað. Enn merkilegra er þó eflaust að Leifur og samfangar hans náðu að umbera alla þá mannvonsku og það ofbeldi sem átti sér stað í fangabúðunum. Aldrei voru nöfn þeirra notuð heldur aðeins fanganúmer, þeir voru pyntaðir, sumir voru notaðir í læknisfræðilegar rannsóknir, fangar voru látnir hengja félaga sína. Svokölluð hegninardeild var látin ganga 40 km á dag og margt verra, eftir allar pyntingarnar voru lang flestir þeirra á endanum drepnir.
Sem fangi varð Leifur á vegi margra áhugaverðra manna, manna sem sögubækurnar hafa ritað um en ekki síst manna sem áttu sér merkilega sögu en hlutu ekki lukku til lífs í fangabúðunum. Einn af þeim er Óskar Vilhjálmsson, sem lést í fangabúðum nasista en því hefur verið haldið fram að hann hafi starfað sem íslensku þulur hjá þýska útvarpinu. Sagan segir að hann hafi verið færður í fangabúðir nasista eftir að hafa sagt eftirfarandi setningu í lok einnar útsendingar: ,,Svo kem ég aftur á morgun og held áfram að lesa sömu lygina”.
Leifur glímdi við svefntruflanir, taugaveiklun, önuglyndi, óróleika, lélegt minni, einbeitingarerfiðleika, tilfinningalegt ójafnvægi, dapurleika, sálræna vanlíðan og fleiri einkenni. Dvöl hans í fangabúðum nasista hafði því áhrif á það sem hann átti eftir ólifað.
- Hið pólitíska hlutleysi íþrótta - 11. júlí 2021
- Umræðan innan stafbila - 14. júní 2021
- Uppgjörið sem bíður enn… - 13. maí 2021