Eftir að hafa borðað milljarða í morgunamat í nokkur ár nærist alþýðan nú á gjaldþrotum, svikum og prettum eins og þau birtast okkur í fyrirsögnum morgunblaðanna. Leikendur eru mikið til þeir sömu og áður en leikmunirnir aðrir – milljarðar í gær, undaskot í dag, Kvíabryggja á morgun. Það er merkilegt til þess að hugsa að í áraráðir skuli heil þjóð hafa komið út sem hvítþegið bleyjubarn í alþjóðlegum spillingarkönnunum en virðist nú vera samansafn gerspilltra fjárglæframanna (og vitleysingja).
„Við vorum svo óheppin að ná ekki að koma neinu undan,” sagði kona eins íslenska Grosskapítalistans við vinkonur sínar yfir ódýru hvítvínsglasi.
Nú kemur smátt og smátt í ljós að í öllu peningabrjálæðinu virðist sem margur Íslendingurinn, sem aðstöðu hafði til, hafi teygt sig aðeins of langt í viðleitni sinni til þess að verða ríkari en nágranni sinn. Hinir svokölluðu útrásaravíkingar virðast þar einungis vera lítill hópur í stærra mengi bankamanna, stjórnmálamanna og almennra Groβkapítalista: Afnám lánsábyrgða, lán án veða, lán með ónýtum veðum, undanskot til aflandseyja, leppuð hlutafjárkaup, vafasöm stjórnarkjör og almennt siðleysi og brask á hinu mjög svo stóra „gráa svæði” sem engin lög ná yfir.
En það eru ekki bara stórforstjórar og milljónamenn með mastersgráður sem hafa farið yfir strikið:
„Það er nóg að gera en ég vinn bara svarta vinnu og er jafnframt á bótum með, það er mín leið til að mótmæla þessu ástandi,” sagði við mig iðnaðarmaður nýlega og er ekki einn um þá aðferð innan sinna raða.
Skilaboðin eru þau að þeir sem ekki taka þátt í að maka krókinn verða útundan, það verði allir að reyna að svindla til að bjarga sér og sínum. Þetta eru skelfileg skilaboð og ömurlegt veganesti fyrir komandi kynslóðir.
Ungur maður sagði mér nýlega frá einhverju tryggingasvindli sínu og er hann varð var við hneykslan mína var svarið:
„Segir þú sem átt fyrirtæki, hvernig er tekjuskatturinn?”
og var með því að spyrja mig hvort ekki væri öll mín neysla og greiðslubyrði færð í gegnum fyrirtækið. Eins og það væri alvanalegt!
Hvernig eigum við að fara að því að byggja upp nýtt samfélag á grunni sem hefur ekki verið traustur fyrir? Getum við undrast á þessum undanskotum útrásarvíkinganna ef það er greypt í þjóðarsálina að það sé í lagi að „redda“ hinu og þessu og haga sér með þessum hætti? Upp úr þessu er ólíklegt að spretti betra samfélag en er í dag.
Samhliða nauðsynlegum nornaveiðum, fangelsunum og almennum húðstrýkingum þeirra sem brotið hafa af sér er nauðsynlegt að herða löggjöf varðandi skattsvik og auðgunarbrot. Á krepputímum og með komandi skattahækkunum mun svört vinna aukast, rýra skatttekjur ríkissjóðs og rýra siðferðisleg gildi. Mögulega væri vænlegt til árangurs að setja/herða viðurlög mótaðila í slíkum iðnaði. T.d. að refsa ekki einungis þeim sem vinnur svarta vinnu heldur sem og þeim sem kaupir hana. Jafnframt að refsa þeim sem koma að eða hafa aðstoðað við undanskot eða auðgunarbrot, hvort sem það eru endurskoðendur, lögfræðingar eða aðrir.
Ef okkur tekst ekki að ná þjóðarsátt um siðferðileg gildi jafnframt viðreisn efnahagslífsins munu lögmál Baron Rotschild gilda hér áfram:
„Hér inni eru engin klósett, hér skíta menn hver á annan.“
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009