Í fréttum í gærkvöldi var fjallað um umdeilda heimasíðu, ringulreid.org, sem vefþjónn Vodafone lokaði 10. júní. Þetta var gert þar sem talið var að á síðunni hafi farið fram rafrænt einelt og ærumeiðandi ummæli. Í þættinum Ísland í dag var svo bætt um betur og talið að á síðunni birtist barnaklám. Ásakanirnar eru því af ýmsum toga og athyglisvert að skoða málið nánar.
Taka skal fram að höfundur hefur ekki farið inn á umrædda síðu og getur ekki sagt til um það efni sem þar er. Ef marka má þær myndir og þá umfjöllun sem fram kom í Íslandi í dag þá mætti halda að ásakanir um birtingu barnakláms væru á rökum reistar. Athygli vekur þó að birting barnakláms er alvarlegt lögbrot og úrræði við slíkum brotum mörg, bæði í almennum hegningarlögum og í gegnum alþjóðlega sáttmála gegn barnaklámi sem Ísland er aðili að. Ef um barnaklám er að ræða ætti saksóknari að setja fullan þunga í rannsókn málsins og finna út hver er ábyrgðarmaður síðunnar, sem er víst skráð í Bandaríkjunum.
Miðað við viðbrögð saksóknarans virðist málið þó ekki vera litið svo alvarlegum augum. Í Íslandi í dag kom fram að saksóknara hafi borist fjölmargar kærur vegna umræddri síðu en lítið virðst hafa verið gert fyrr en saksóknari, ásamt Vodafone og Barnaheill ofl., tóku höndum saman og lokuðu aðgangi að síðunni. Myndirnar sem birtust á síðunni voru oftar en ekki teknar af stúlkunum sjálfum og þær sendar í gegnum netspjall eða GSM síma. Ef til vill þykir saksóknara það draga að einhverju leyti úr alvarleika málsins eða metur hann málið sem svo að skilyrði barnaklámsákvæðis hegningarlaganna sé því ekki uppfyllt.
Sjónarmið um rétt manna til eigin myndar eiga hér einnig við. Um það var fjallað í pistli hér á deiglunni, http://deiglan.com/index.php?itemid=32, og talið að í því tilviki sem þar var til umfjöllunar væri myndbirting af pari í samförum fyrst og fremst meiðandi og því brot á friðhelgi einkalífs. Það mál og málið sem hér er til umfjöllunar eru ekki að öllu leyti sambærileg, en sjónarmiðin eru þau sömu.
Ásakanir um rafrænt einelti og ærumeiðandi ummæli eru erfið viðureignar. Engin lagaákvæði eru til um rafrænt einelti og ærumeiðingar á netinu eru vaxandi vandamál sem dómstólar eru þó byrjaðir að taka á. Að loka síðunni á þeim grundvelli er því vafasamt þó afstaða brotaþola sé mjög skiljanleg og hljóti að hafa vegið þungt við aðgerð þessa.
Ljóst er þó að lokun á aðgangi að síðunni er ódýr lausn á erfiðu vandamáli. Fyrir það fyrsta er ábyrgðarmönnum síðunnar ekki refsað fyrir athæfi sitt, sé málið metið sem svo að um barnaklám sé að ræða. Þar að auki hefst nú hinn endalausi eltingaleikur, þar sem lögreglan reynir að hundelta ábyrgðarmenn síðunnar sem geta stofnað nýja samskonar síðu með lítilli fyrirhöfn. Heimild Vodafone til að loka síðunni styðst við lög nr. 30/2002 og færa má rök fyrir því að með þessu sé verið að ráðast að rótum vandans. Það útskýrir hins vegar ekki aðgerðarleysi lögreglunnar, sem virðist ekki hafa lagaheimildir til að stöðva slíka háttsemi.
Betri lausn á vandamálinu væri því að uppfæra lagasafn Íslands til móts við nýja tíma. Erfitt getur verið að láta lögin haldast í hendur við hina stöðugu tækniþróun, en þó hlýtur að vera lágmark að reyna að skapa ákvæði sem gera ýmsa ósæmilega háttsemi á netinu ólöglega. Lögjöfnun við ákvæði almennra hegningarlaga og prentlaga eru ekki heppileg til þessara nota. Þegar upp er staðið er það því löggjafans, lögreglu og ákæruvaldsins að halda uppi lögum í landinu. Það er hins vegar ekki í verkahring símafyrirtækja. Ef úrræðin til að stöðva ósæmilega háttsemi eru ekki til staðar er lagasetning lausnin.
- Sæmdarréttur – réttur til höfundaheiðurs - 3. maí 2011
- Sæmdarréttur – nafngreiningarréttur - 2. maí 2011
- Gull og grænir skógar - 5. júlí 2009