Sagt hefur verið að penninn sé sterkari en sverðið, og má það til sanns vegar færa í tengslum við þá atburði sem gerðust í Evrópu og Asíu fyrir rétt um 30.000 árum. Um þetta leyti voru fyrstu hellamálverkin í Evrópu teiknuð og að öllum líkindum voru forfeður okkar á svipuðum tíma að stíga sín fyrstu skref á sviði tungumála. Samhliða því fóru þeir að velta fyrir sér trúarlegum málefnum og samfélagslegum hefðum, svo sem greftrun með viðhöfn og fleiri athöfnun. Sú menningarbylting sem átti sér stað á þessum tíma átti sér enga hliðstæðu. Prenttæknin, og síðar netið, voru mikilvægar framfarir í miðlun upplýsinga, en blikna í samanburði við tungumálið sjálft.
Það er því athyglisvert að ýmsar vísbendingar eru um að eitt af fyrstu verkum mannkyns, eftir þessar stórkostlegu framfarir, hafi verið að skipuleggja umfangsmestu þjóðernishreinsun í sögunni. Í hátt í 100.000 ár höfðu tvær tegundir manna, homo sapiens og homo neanderthalensis, deilt meginlandi Evrópu og Asíu. Lifnaðarhættir þessara tegunda voru svipaðir, og þótt eflaust hafi skorist í brýnu milli ættbálka öðru hverju, er líklegt að í flestum tilfellum hafi flokkarnir helgað sér afmörkuð svæði og lifað að mestu innan þeirra.
Þetta breyttist afturámóti á örskotsstundu þegar cro-magnon menn, sem voru af tegundinni homo sapiens, náðu valdi á talmáli. Á örfáum þúsundum ára hurfu neanderdalsmenn af yfirborði jarðar. Það er engu líkara en að á fyrsta kvöldspjallinu við varðeldinn hafi einhver bent á hversu heimskulegt það væri að deila landinu með ómálga neanderdalsmönnum, og hvort ekki væri best að losa sig við þá í eitt skipti fyrir öll.
Sú var þó að sjálfsögðu ekki raunin. Hins vegar bendir ýmislegt til þess að hið nýfengna tól, talmálið, hafi verið nýtt óspart til að herja á neanderdalsmenn, sem ekki virðast hafa átt neitt svar við þessu nýja afli, ættbálkum manna sem gátu tjáð sig og skipulagt, hugsað fram í tímann og ákveðið hernaðartaktík.
Þegar þessi kafli í sögu okkar er skoðaður hvarflar að manni hvort þetta sé í raun það sem bindur mannkynið saman. Það, að fyrir löngu tókum við höndum saman og nýttum okkur þau sérkenni sem við höfum sem tegund, tungumál, rituð samskipti og afstæða hugsun, til að þurrka út þá tegund sem komst næst okkur í þeim efnum. Er þá ekki skiljanlegt að víða um heim geisi stríð milli þjóða, ættflokka eða trúarhópa? Er þetta ekki í eðli okkar?
Svo blæbrigði tungumálsins séu notuð við greiningu á ofangreindri fullyrðingu, heldur pistlahöfundur því fram að þetta sé skiljanlegt, en ekki afsakanlegt. Með tilkomu tungumálsins öðluðumst við getu til að ræða eigin eðli og auka skilning okkar á því. Þennan skilning getum við notað til að breyta okkar hegðun og gera slíka hegðun óaðlaðandi og óþarfa.
Í einstökum samfélögum hafa menn leyst þetta með því að afsala sér hluta af eigin sjálfsforræði til ríkisins. Lögregluvald hefur komið í stað hinna eðlilegu viðbragða að krefjast auga fyrir auga. Alþjóðasamningar og stofnanir gegna svipuðu hlutverki í milliríkjadeilum. En þrátt fyrir slíkar stofnanir gegnir einstaklingurinn enn lykilhlutverki. Á honum hvílir sú skylda að grandskoða eigin hvatir áður en undan þeim er látið, og beita tungumálinu þegar aðrir freistast til að láta frumeðlið stjórna gjörðum sínum.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020