Í haust hyggst Háskóli Íslands leggja á gjaldskyldu við ~100 bílastæði á lóð sinni. Um 5% af öllum stæðum. Eftir bestu heimildum er um að ræða þau bílastæði sem eru hvað mest ásetin við aðalbyggingu og aðrar skrifstofur skólans þar sem gestagangur er mikill.
Nóg hefur verið skrifað um skipulags- og samgöngumál hér á Deiglunni og hefur sá sem þetta skrifað ekki lagt minnstu lóðin á þær vogaskálar. Þau skrif virðast þó illu heilli ekki náð eyrum þeirra sem um taumana halda í Stúdentaráði, ef marka má þá umfjöllun sem um málið hefur verið t.a.m. í Fréttablaðinu.
Þótt eðlilegt sé að Stúdentaráð berjist fyrir hagsmunum nemenda skólans er þetta röng stefna, ef rétt er sem skrifað hefur verið.
Það er bæði eðlilegt og sjálfsagt að Háskóli Íslands stjórni nýtingu þeirra bílastæða þannig að hámarka megi gagnsemi þeirra fyrir skólann í heild sinni. Mjög margir eiga erindi í skamman tíma í þær fjöldamörgu skrifstofur og deildir skólans sem dreifðar eru vítt og breitt um háskólasvæðið. Það er því bæði óhentugt að þau bílastæði sem næst þeim eru séu upptekin af bílum sem erindi eiga í lengri tíma. Með því að hvetja þá til að leggja lengra í burtu og tryggja framboð skammtímastæða nærri skrifstofu er tryggt að þeir sem eiga stutt erindi geti sótt það hratt og örugglega og án þess að skapa óþarfa umferð með hringsóli sem annars yrði.
Þetta er í raun alger non-brainer og vonbrigði að samfélag ungs fólks í langskólanámi kjósi að horfa framhjá einhverju sem er svo augljóst.
Það má líka spyrja hagsmuni hvaða stúdenta er meirihluti Stúdentaráðs að berjast fyrir? Nú er það svo að enn kýs ákveðinn hópur nemenda við Háskólann að koma þangað með öðrum hætti en á eigin bíl. Varla er Stúdentaráð að berjast fyrir hagsmunum þeirra með viðhorfi sínu? Hvort er málastað þeirra, fyrir bættum almenningssamgöngum og réttlátri gjaldtöku af samgöngukerfinu, unninn meiri eða minni skaði með þessu viðhorfi? Svarið er augljóslega hið síðarnefnda. Þau 2000 bílastæði eða svo sem eru á Háskólalóðinni kosta skólann fúlgur fjár ár hvert í formi sokkins kostnaðar vegna byggingar- og rekstrarkostnaðar*. Þeir njóta hans sem í dag koma á bíl í skólann. Dulinn skólastyrkur. En allir nemendur, hvort sem þeir mæta á bíl eður ei, þurfa að gjalda þess í formi hærri gjalda (og skatta seinna meir).
Það er því svo að Stúdentaráð er með þessu einungis að berjast fyrir hagsmunum ákveðins hóps nemenda, þess hóps sem í dag – strangt talað – níðist í raun á samnemendum þeirra með því að þiggja styrk sem felst í gjaldfrjálsum stæðum við skólann. Hið sama gildir um öll skólasamfélög á höfuðborgarsvæðinu, og í raun meira og minna allt fyrirtækja- og stofnanalandslag þess.
Er skrítið að fólk flykkist umvörpum yfir í hóp styrkþeganna þegar fram í sækir, meðan ástandið og viðhorfið er svona, ekki bara í Háskólanum heldur samfélaginu öllu?
Stúdentaráð getur, þvert á móti, sýnt hinum hópnum meiri skilning og virðingu í viðhorfi sínu til gjaldtöku af bílastæðum við Háskólann. Með því bættist þeim litla, en þó vaxandi hópi, sem berjast fyrir hagsmunum þeirra sem ekki koma á bíl, góður liðsstyrkur. Það kallast sjálfbær þróun.
*Samkvæmt verkfræðistofunni Mannviti er sokkinn kostnaður við hvert malbikað yfirborðsbílastæði um 5000 krónur á mánuði. Ef einungis er miðað er við að 1000 bílastæði við Háskólann séu malbikuð og haldið við er mánaðarlegur heildarkostnaður 5 milljónir króna. Á ársgrundvelli gera þetta 60 milljónir króna, sem er varlegt mat m.v. verðlagsþróun í dag. Er þá ekki tekinn með fórnarkostnaður af því að geta ekki aflað tekna af skólalóðinni með öðrum hætti, t.a.m. með stúdentagörðum eða annarri tekjuskapandi starfsemi.
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021