Dagur 114 í Alþýðulýðveldinu er runninn upp og í dag ætlar forsætisráðherra að segja okkur hvað er að gerast í efnahagsmálum. Á þessum 114 dögum hefur byltingarstjórnin komið mörgu til leiðar.
Útvöldum ríkislistamönnum hefur verið tryggð framfærsla, líffæragjafar hafa einnig fengið fjárhagsaðstoð, bann hefur verið lagt við kaupum á vændi og bannað hefur verið að flengja börn. Frá því að Alþýðulýðveldið var sett á stofn 1. febrúar 2009 hefur íslenska krónan fallið um 20% og stýrivextir lækkað mun hægar en fyrirséð var um áramót. Þá hafa hugmyndir um hækkun skatta og þjóðnýtingu einstakra atvinnugreina og náttúruauðlinda verið ofarlega á blaði.
Þess er því beðið með talsverðri eftirvæntingu að forsætisráðherra byltingarstjórnarinnar skýri stöðu efnahagsmála í dag og hvaða aðgerða ríkisstjórnin hyggst grípa til, til viðbótar þeim þjóðþrifamálum sem að ofan eru nefnd. Líklegt má telja að forsætisráðherrann lýsi því yfir að ekkert annað en tafarlaus og undanbragðalaus aðild að Evrópusambandinu sé lausnin.
Það er svosem gott og gilt sjónarmið en heppilegt væri fyrir byltingarstjórnina að ná samstöðu innan eigin raða um málið áður en leitað verður til stjórnarandstöðunnar. Stjórnvöld víða um heim hafa á undanförnum mánuðum tíðkað það sem kallast á ensku ‘bail-out’ og með því komið fjármálafyrirtækjum sínum til aðstoðar. Hér á landi ætla stjórnvöld að biðja stjórnarandstöðuna um ‘bail-out’ í því sem er yfirlýst meginstefnumál ríkisstjórnarinnar, eða forystuflokksins í það minnsta.
Athygli fjölmiðla að stjórnarathöfnum er mun minni í Alþýðulýðveldinu en áður tíðkaðist. Varla leið sá dagur að forystumenn væru ekki inntir svara eftir því hvernig þeir hyggðust redda málum og hvort ekki ætti að grípa til aðgerða. Sú breyting sem orðið hefur á umfjöllun fjölmiðla er að mínu mati af hinu góða. Hún kannski bendir til þess að mönnum er að skiljast að lausnirnar er ekki að finna á Austurvelli, hvorki innandyra í Alþingishúsinu né á blettinum þar fyrir framan.
Vonin er því sú að Íslendingar nái að rétta úr kútnum sem fyrst, ekki fyrir tilstilli stjórnvalda í Alþýðulýðveldinu heldur þvert á móti; þrátt fyrir afskipti þeirra.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021