Við endurreisnina er þörf á hugrökku fólki sem þorir að taka ákvarðanir og ég vona svo sannarlega að ríkisstjórninni takist vel að sinna þeim stóru verkefnum sem framundan eru. Óneitanlega vakna ýmsar spurningar um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þegar þau mál sem hún setur helst á oddinn eru skoðuð.
Stærsta kosningamál Samfylkingarinnar var umsókn um aðild að ESB sem síðan rataði beina leið inn í stjórnarsáttmálann þrátt fyrir harða afstöðu VG gegn aðild í kosningabaráttunni. Samkvæmt málflutningi ESB sinna virðist aðild eiga að laga flest okkar vandamál. En það er einn galli á gjöf Njarðar, við uppfyllum ekki skilyrði til að fá inngöngu í ESB vegna stöðu efnahagsmála. Aðild er því ekki sú töfrallausn sem menn vilja halda fram og því skýtur skökku við að eyða tíma Alþingis nú á sumarþingi til að ræða þetta málefni. Engu að síður telur forsætisráðherra koma til greina að fresta störfum Alþingis meðan málið er rætt í nefnd.
Annað stórt mál ríkisstjórnarinnar er fyrning aflaheimilda í nafni réttlætis og sáttar. Hugmyndin hefur vægast sagt hlotið dræmar undirtektir í sjávarbyggðum landsins og þegar er ljóst að sátt er hvergi í augsýn. Sú óvissa og óróleiki sem leiðin skapar í starfsumhverfi aðalútflutningsgreinar þjóðarinnar er síst til þess fallin að stuðla að endurreisn íslensks efnahagslífs.
Barátta okkar Íslendinga næstu mánuði felst í því að skapa fleiri störf í landinu og skapa meiri gjaldeyristekjur. Þá er nauðsynlegt að takast á við ríkisfjármálin af festu. Niðurskurður ríkisútgjalda er framundan, hann verður sársaukafullur og við eigum öll eftir að finna fyrir honum en ef vel er á málum haldið tekur efnahagslægðin enda fyrr en ella. Hver dagur án aðgerða fyrir fyrirtækin og heimilin í landinu er dýr og því rétt að eyða kröftunum í að vinna að raunverulegum lausnum. Skyndilausnir eru ekki til, það er ekki endilega langt þar til betri tíð gengur í garð, málið er bara að leggja af stað.
- Framtíðin sem við skuldum - 30. nóvember 2020
- Alþingi í gíslingu - 11. júlí 2009
- Tækifæri til að efna fögur fyrirheit - 16. júní 2009