Það eru fjölmargar vísbendingar sem benda til þess að markaður með sykurafurðir sé óskilvirkur. Framleiðendur framleiða meira af matvælum sem innihalda sykur en þeir ættu að gera ef markaðslögmálin væru virt og neytendur kaupa að sama skapi meira. Þetta gerist vegna þess að verðið á sykurafurðunum er lægra en sem nemur kostnaði þeirra. En hvernig má það vera?
Fyrsta skýringin er sú að sykurframleiðsla í Evrópu er niðurgreidd með landbúnaðarstyrkjum. Það veldur því að framleiðendur gosdrykkja og sætinda fá sykur á miklu lægra verði en þegar markaðslögmálin ráða. Afurðirnar verða því mun ódýrari en eðlilegt er.†
Önnur skýring er sú að verð á sætindum endurspeglar ekki þann samfélagslega kostnað sem neyslan veldur, svokölluð neikvæð ytri áhrif. Þeir sem neyta sykurs í óhóflegu magni eru líklegri til að glíma við hjarta- og æðasjúkdóma og fá tannskemmdir. Hvort tveggja veldur auknum kostnaði í heilbrigðiskerfinu sem er að stórum hluta greiddur af skattgreiðendum – sem gerir það í raun með öllu óskiljanlegt að Evrópuríki kjósi að niðurgreiða sætindi.
Ef Íslenska ríkið ákveður að leggja á sykurskatt eru slegnar tvær flugur í einu höggi. Landbúnaðarstyrkir Evrópuríkja yrðu færðir í vasa skattgreiðenda og verð sykurafurða myndi færast nær því að endurspegla kostnað þeirra. Þannig tryggjum við að markaðurinn sé skilvirkur og skili samfélaginu ákjósanlega niðurstöðu í raun.
Það er einmitt þess vegna sem frjálshyggjumenn styðja frjálsan markað – því þeir trúa því að hann sé heppilegasta leiðin til að skapa gæði í samfélaginu. Það er því undarlegt að heyra frjálshyggjusinna standa vörð um markaðsbresti sem valda því að „frjáls“ markaður þjónar ekki tilgangi sínum. Þótt skattur sé að öllu jöfnu sem blótsyrði í eyrum frjálshyggjusinna, þá er engin ástæða til að formæla sykurskatti.
†Önnur afleiðing niðurgreiðslanna er sú að tugþúsundir starfa færast frá fátækustu ríkjum heims, sem gætu framleitt sykur við kjörskilyrði með ódýru vinnuafli, til ríkustu ríkja heims. Sykurskattur á Íslandi myndi því miður ekki breyta neinu þar um.
- Borg án sýningarstjóra - 7. desember 2015
- Kombakk plötunnar - 25. ágúst 2015
- Hugleiðing um tjáningarfrelsi - 4. maí 2015