Nú virðist ljóst að leggja eigi fram þingsályktunartillögu um umsókn um aðild að Evrópusambandinu á næstu vikum. Þingsályktunardrögin eru vægast sagt rýr, en í þeim er gert ráð fyrir að Alþingi veiti ríkisstjórninni svo til opið umboð til viðræðna við Evrópusambandið og útkoman verði svo lögð í dóm kjósenda. Spyrja má hvort ekki væri eðlilegra að hin nýja ríkisstjórn, sem talaði mikið um það fyrir kosningar að styrkja þyrfti Alþingi, sýndi hinum kjörnu fulltrúum meira traust og fengi Alþingi í hendur að móta samningsmarkmið og skilyrði sem ríkisstjórninni yrði svo falið að ganga á eftir.
Mikilvægt er að átta sig á því, áður en lengra er haldið, að mörg ljón eru enn í veginum fyrir aðild að ESB. Því þarf að halda til haga að stjórnarskráin heimilar ekki aðild að Evrópusambandinu eins og sakir nú standa. Það er ljóst að ríkisstjórnin ætlar sér að fara í viðræður, sem eru óheimilar á grundvelli stjórnskipunarinnar, og þarf hún því að setja fyrirvara bæði um breytingu á stjórnarskrá og um útkomu þjóðaratkvæðagreiðslu. Telur fólk virkilega að það sé ávísun á góðan árangur?
Einnig er mikilvægt að átta sig á því að núverandi stofnsáttmálar ESB heimila ekki frekari stækkun á Evrópusambandinu. Það er því útilokað að ræða um aðild að ESB á grundvelli Rómarsáttmálans eins og gert hefur verið að undanförnu. Nice sáttmálinn heimilar ekki fleiri aðildarríki og þarf því að bíða eftir Lissabonnsáttmálanum til þess að aðild sé raunhæf. En þá eru tvö atriði sem huga þarf að. Í fyrsta lagi er ekki útséð með að Lissabonnsáttmálinn verði að veruleika. Írar hafa fellt hann einu sinni í þjóðaratkvæðagreiðslu og boðað hefur verið að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin á Írlandi um hann eigi síðar en 31. október í ár. Ekki þarf að búast við öðru en að allir „nei“ sinnar í Evrópusambandinu flykkist til Írlands til að stunda mjög grimma „nei“ baráttu. Það gerðu þeir síðast og höfðu sigur. Það eru engar sérstakar vísbendingar um að samningurinn verði samþykktur örugglega í næstu þjóðaratkvæðagreiðslu, en fari svo að hann verði felldur aftur má telja víst að ekki verði um neinar stækkanir ESB í bráð, þar sem Sambandið færi í algjört uppnám.
Í öðru lagi, ef Lissabonnsáttmálinn verður samþykktur, mun Evrópusambandið taka slíkum stakkaskiptum, að í raun væri algjört rangnefni að tala um ríkjasamband lengur þegar vísað væri til þess. Með tilkomu Lissabonnsáttmálans verður Evrópusambandið gert að lögpersónu og völd Evrópusambandsins sjálfs til að ráða ráðum sínum og framtíð styrkt mjög á kostnað áhrifa hvers einstaks aðildarríkis. Þessar miklu breytingar þarf að kynna og ræða ofan í kjölinn! Ekki dugir lengur að ræða einungis um hagsmuni Íslands og fiskveiðistefnu ESB. Breytingarnar með tilkomu Lissabonnsáttmálans eru slíkar að nauðsynlegt er skoða aðildina mun nánar og þá helzt út frá því hvernig líklegt er að þróun Evrópusambandsins verði næstu ár og áratugi, því Lissabonnsáttmálinn auðveldar mjög frekari samruna og dýpkun samvinnunar.
Síðast en ekki sízt hafa ýmsir forystumenn Evrópusambandsins látið hafa eftir sér að ekki sé vilji til frekari stækkunar á Sambandinu í bráð. Angela Merkel, kanslari Þýzkalands, sagði fyrir skömmu að fengju Þjóðverjar að ráða yrðu engar stækkanir á ESB á næstu árum, með hugsanlega einni undantekningu, Króatíu. Vísast er ekki útilokað að fella Ísland í sama hóp og Króatíu og halda því fram að möguleikar okkar á aðild séu jafnmiklir og hennar og að Merkel hafi frekar verið að vísa til annarra landa með ummælum sínum. Þau sýna þó tregleikann sem ríkir meðal margra aðildarríkja til frekari stækkunar Sambandsins. Þetta allt verður að taka alvarlega til skoðunar sé gengið til samninga um aðild, eigi þær viðræður að snúast um eitthvað annað en sýndarmennsku og bera árangur. Eins og málið er kynnt af ríkisstjórninni virðist lagt upp í umsóknarvegferðina með tómt nestisbox, slitna skó og langa lista af kröfum um varanlegar undanþágur og sérmeðferðir og einfalda barnstrúna um að það beri árangur.
- Evrópulaun - 18. janúar 2010
- Bókadómur: Frá Evróvision til evru – allt um Evrópusambandið - 14. október 2009
- Sannleikurinn um sáttmálann - 22. september 2009