Þessa dagana stendur upp úr hverjum einasta stjórnmálamanni hve mikla áherlsu hann leggi á nýsköpun og hagsmuni lítilla og meðalstórra fyrirtækja, eins og það er kallað. Þetta er vitaskuld gott og blessað og þessi fyrirtæki munu leika lykilhlutverk í hagkerfinu til framtíðar.
Alls konar hindranir í kerfinu
Þrátt fyrir þetta leggja stjórnmálin með lagaákvæðum og ýmis konar földum kostnaði og umstangi steina í götu þessarar starfsemi. Hér er átt við lagaákvæði sem stjórnmálamennirnir sjálfir hafa sett inn og er í þeirra verkahring að breyta. Gjaldeyishöft og háir vextir skapa vitaskuld mikil vandræði fyrir fyrirtækin en þann vanda er ekki því miður ekki hægt að leysa með einfaldri lagasetningu frá Alþingi. Litlu atriðin skipta ekki síður máli og það er letjandi fyrir þá sem leggja hart að sér við að koma fyrirtækjum og rekstri á koppinn að þurfa sífellt að reka sig á veggi í kerfinu. Fyrir stærri fyrirtæki með fleira starfsfólk og meira fé umleikis er þetta ekki stórt vandamál en fyrir minni fyrirtæki sem eru að koma undir sig fótunum skiptir þetta máli og skapar bæði kostnað og vinnu.
Tekur mikinn tíma
Þannig þekkir Deiglan til dæma um ung fyrirtæki með aðeins örfáa starfsmenn sem fór af stað en áður en langt var um liðið voru umsvifin í kringum hin ýmsustu skriffinnskuverkefni orðin slík að einn starfsmaður eyddi að jafnaði um hálfum deginum í slíka vinnu.
Ríkið hagnast á stofnun félaga
Ýmislegt má tína til sem skapar kostnað og aukavinnu. Það eitt að stofna félag um rekstur er fyrir það fyrsta óþarflega dýrt. Til að stofna einkahlutafélag, (ehf.), sem er algengt form utan um rekstur smærri fyrirtækja og félaga, þarf að leita til Fyrirtækjaskrár. Kostnaður við að stofna slíkt félag er 88.500 krónur. Þessi kostnaður endurspeglar ekki raunverulega vinnu eða kostnað við að stofna félagið, enda ætti það ekki að þurfa meira en nokkrar skipanir í tölvu og formlegt samþykki.
Það sætir furðu að svo hátt gjald sé tekið fyrir stofnun slíkra félaga. Nú eru margir án atvinnu og hluti þeirra vill reyna fyrir sér með því að starfa á eigin vegum. Í slíkri einyrkja- og frumkvöðlastarfsemi er fólgin mikil nýsköpun fyrir atvinnulífið. Þar að auki er mikil hagræði í því falið vegna þess að þeir sem eru nýir á markaðnum bjóða nýjar lausnir og hagstæðara verð en þeir sem eru stærri og rótgrónari.
Óhagstætt félagaform
Ýmislegt við einkahlutafélagaformið veldur vanda. Í reglum er kveðið á um að einkahlutafélag skuli greiða svokallað „reiknað endurgjald“ til starfsmanna sinna. Tilgangur þessara reglna er góður og gildur þar sem þær eru hugsaðar til þess að félögin séu ekki stofnuð utan um starfsemi sem ætti að greiða fullan tekjuskatt af. Ef t.d. iðnaðarmaður stofnar einkahlutafélag um sinn rekstur og tekur rekstrarafganginn út sem arð þarf hann aðeins að greiða 10% fjármagnstekjuskatt. Reglum um reiknað endurgjald er ætlað að mæta þessu og tryggja að greiddur sé tekjuskattur. Vandinn er hins vegar sá að einkafélög verða, óháð því hversu vel starfsemin gengur, að greiða þetta reiknaða endurgjald. Ef tveir tölvunarfræðingar ákveða til dæmis að stofna einkahlutafélag til að þróa ákveðna starfsemi og byggja upp fyrirtæki, verður einkafélagið að greiða þeim laun í samræmi við taxta tölvunarfræðinga, eins og fram kemur á vef Ríkisskattstjóra. Þannig er til dæmis ekki hægt að láta vinnu manna renna til fyrirtækisins eða vinna á lágum launum á meðan fyrirtækið er að hasla sér völl, eins og margir myndu kjósa.
Annað atriði í regluverkinu í kringum einkahlutafélögin er ekki eins og best verður á kosið. Einstaklingum sem fjárfesta í einkahlutafélögum og tapa á slíkum fjárfestingum er ekki heimilt að draga tapið frá skatti en það er öðrum einkahlutafélögum hins vegar heimilt að gera. Þannig er búinn til hvati fyrir einkahlutafélög til að fjárfesta hvert í öðru en hvati einstaklinganna til þess er minni þar sem þeir fá tap sitt ekki bætt með sama hætti.
Nýtt félagaform
Því má velta upp hvort ekki komi til greina, þar sem einkahlutafélagsformið er þessum annmörkum háð, að taka upp nýtt félagaform fyrir sprotafyrirtæki þar sem unnt væri að sníða þessa agnúa af. Gjöld fyrir að stofna slík félög gætu verið lægri, reglur einfaldari og aukinn hvati fyrir einstaklinga til að fjárfesta í slíkum félögum. Ennfremur mætti slaka á reglum um reiknað endurgjald í þessum félögum.
Dýrt að hluta á útvarpið
Það er margt fleira sem er til vandræða fyrir lítil fyrirtæki og einyrkja. Eitt af því sem skýtur fljótlega upp kollinum í rekstri veitingastaða og verslana er innheimtubréf frá STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar) sem taka að sér að innheimta fyrir hönd höfundarrétthafa. Það er í sjálfu sér eðlilegasti hlutur að t.d. tónlistarmenn fái greitt fyrir sín verk og sína vinnu en upphæðirnar sem STEF rukkar eru í mörgum tilfellum svo háar að nokkurri furðu sætir. Þannig getur t.d. eigandi veitinga- eða skemmtistaðar fyrir 150-200 gesti, sem hefur geisladisk eða play-lista í iPod-inum í bakgrunni á meðan fólk situr inni og fær sér mat og drykk, átt von á rukkun fyrir allt að 300 þúsund krónur á ári frá STEF. Þetta gildir óháð því hve mikið er lagt upp úr tónlistinni, hvort hún sé hávær eða lágvær, hvort hún sé eingöngu í bakgrunni eða sé beinlínis notuð til að laða gesti að. Deiglan þekkir dæmi um rekstraraðila að slíkum stað sem klórar sér nokkuð í kollinum yfir þessari upphæð og telur að það myndi létta á rekstrinum ef hún væri lægri.
Sama gildir um verslanir. Þeir sem opna verslun og vilja hafa Bylgjuna í gangi til að viðskiptavinum mætti ekki þögnin ein þegar þeir koma til að skoða sig um, fá rukkun frá STEF. Allsstaðar þar sem útvarp er í gangi rukkar STEF. Eins og áður sagði þá er ekki deilt um rétt tónlistarmanna til að fá greitt fyrir sín verk en á móti má velta því fyrir sér hvort svona kerfisbundnar rukkanir séu ekki fullíþyngjandi fyrir rekstur lítilla verslana og veitingastaða.
Neytendastofa á kreiki
Fleira má nefna. Neytendastofa sendir reglulega starfsmenn út af örkinni til þess að „kíkja í heimsókn“ í verslanir og fyrirtæki og kanna hvort farið sé að reglum um verðmerkingar. Deiglan þekkir dæmi af verslun sem hóf nýlega göngu sína og fékk slíka heimsókn fljótlega í kjölfarið. Gerðar voru athugasemdir við að verðmerkingu vantaði á eina tiltekna vöru inn í búðinni og þurfti verslunareigandinn að standa í bréfaskriftum af þessum sökum og leita sér aðstoðar lögfræðings.
Jafnréttisiðnaðurinn
Jafnréttisstofa er annað dæmi um ríkisstofnun sem er í stöðugum eltingarleik við atvinnurekendur út af smáatriðum. Samkvæmt jafnréttislögum, sem voru sett á þingi með hefðbundnum jafnréttisyfirboðum stjórnmálaflokkanna, var til að mynda kveðið á um að öll fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri verði að skila inn skýrslu um framgang jafnréttismála og framkvæmdaráætlun. Slík fyrirtæki skulu setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Fyrirtæki sem verða ekki við tilmælum Jafnréttisstofu geta búist við dagsektum upp á allt að 50 þúsund krónum á dag.
Brettið upp ermar
Eftirlitsstofnanir byggja allajafna á góðum hug og viljanum til þess að bæta og breyta samfélaginu. Aftur á móti gerir sífellt áreiti frá slíkum stofnunum, oft með tilheyrandi umstangi og kostnaði fyrir lítil fyrirtæki það að verkum að þessi þáttur fer að vinna gegn markmiðum sínum. Stjórnvöld verða að leita lausna á þessu vaxandi vandamáli, t.d. auka aðstoð við lítil fyrirtæki við að sinna þessum málum. Augljóst er að gera má mun betur fyrir lítil og ný fyrirtæki og það eru mikil tækifæri fyrir stjórnmálamenn til að fylgja eftir loforðunum.
- Einyrkjar undir eftirliti - 11. maí 2009
- Hún fyrnir hann… hún fyrnir hann ekki… hún fyrnir hann… - 7. maí 2009
- Frábærar NBA-nætur - 5. maí 2009