Nætursvefn körfuboltaáhugamanna er með minnsta móti um þessar mundir. Ástæðan er einföld; úrslitakeppnin í bestu körfuknattleiksdeild heims, NBA, er komin á fullt. Deildin blómstrar um þessar mundir. Frábærir leikir eru á boðstólum kvöld eftir kvöld, stórstjörnur deildarinnar leika listir sínar og spennustigið nánast óbærilegt.
Nýtt körfuboltafár
Stemningin fyrir deildinni og körfuboltanum almennt er mikil núna og er farin að minna á körfuboltafárið sem var fyrir um 15-20 árum þegar Michael Jordan, Magic Johnsson og Larry Bird héldu kyndli deildarinnar á lofti auk annarra frábæra leikmanna s.s. Isiah Thomas, Joe Dumars, Patrick Ewing, Charles Barkley, Kevin McHale og Karl Malone svo einhverjir séu nefndir.
Deildin hefur rétt mikið úr kútnum frá því sem var fyrir nokkrum árum. Veturinn 1998-9 varð t.a.m. langt verkfall í deildinni sem olli því að aðeins var spilað hálfan veturinn það ár sem varð áfall fyrir deildina og árin á eftir var oft fátt um fína drætti. Í dag skartar deildin hins vegar miklum stórstjörnum og fara þar fremstir í flokki þeir LeBron James, Kobie Bryant og Dwayne Wade, sem eru allt saman leikmenn sem geta tekið leikinn í sínar hendur og klárað þá eins síns liðs.
Þá hefur leikmannaflóran í deildinni aldrei verið fjölbreyttari. Fjöldi erlendra leikmanna, einkum evrópskra, hefur komið inn í deildina á undanförnum árum og aukið áhugann á henni. Ekki eru mörg ár síðan að slíkir leikmenn voru sjaldséðir og skemmst að minnast þess að Pétur Guðmundsson var fyrsti Evrópumaðurinn til að spila í NBA-deildinni þegar hann lék þar árin 1981-1989.
Erlendir leikmenn sækja í sig veðrið og njóta í þokkabótkvenhylli
Í dag eru tugir erlendra leikmanna og margir þeirra í fremstu röð. Þjóðverjinn Dirk Nowitski hjá Dallas var til að mynda valinn besti leikmaður deildarinnar fyrir tveimur árum og Kandamaðurinn Steve Nash hjá Pheonix Suns hlaut þann titil tvívegis í röð á undan. Kínverjinn Yao Ming hjá Houston Rockets er ein af stjörnum deildarinnar og hefur vakið mikinn áhuga á íþrótinni í Kína. Yao kæmi reyndar einnig til greina sem eitt af undrum veraldrar þar sem hann er 2,29 cm á hæð og 141 kíló. Manu Ginobili frá Argentínu, Spánverjinn Pau Gasol og Frakkinn Tony Parker eru meðal annarra þekktra erlendra leikmanna. Tony Parker er raunar einna best giftur allra NBA-leikmanna en kona hans er Eva Longoria úr þáttunum Aðþrengdar eiginkonur.
Kvennakarfan á siglingu
Kvennakörfuboltinn hefur einnig eflst mikið með tilkomu kvennadeildar sem nefnist WNBA og var stofnuð árið 1996. Cynthia Cooper var besti leikmaður deildarinnar fyrstu árin og leiddi Houston Comets til sigurs. Lisa Leslie er önnur stjarna sem tryggði LA Sparks titilinn 2001 og 2002. Leslie þessi er nærri tveir metrar á hæð og vann sér það m.a. til frægðar á sínum yngri árum að skora 101 stig í einum hálfleik en ekki kom til þess að síðari hálfleikurinn var leikinn þar sem andstæðingarnir ákváðu að gefa leikinn. Pólverjinn Margo Dydek hjá LA Sparks er hávaxnasti leikmaður deildarinnar um þessar mundir, en hún er 218 cm á hæð. Deildin hefur eflst mikið og var meðal annars nýlega að gera margra ára sjónvarpssamning við ESPN. Í byrjun júní fer deildin að rúlla aftur og er spilað fram í september.
Frábær vetur í íslensku körfunni
Það hefur heldur ekki skemmt fyrir körfuboltanum hér heima hve sterk IcelandExpress-deildin var í ár. Fyrir tímabilið í vetur komu heim nokkrir af okkar bestu leikmönnum sem höfðu leikið erlendis, s.s. Jón Arnór Stefánsson, Jakob Örn Sigurðsson og Logi Gunnarsson og sýndu takta sína í deildinni í vetur. Fyrir voru svo margir frábærir íslenskir leikmenn, s.s. Páll Axel Vilbergsson, Hlynur Bæringsson, Helgi Magnússon og Hreggviður Magnússon þannig að deildin var afar sterk í ár. Mörg liðanna voru í þeirri stöðu að vegna efnahagsþrenginganna gátu þau ekki ráðið sér erlendan leikmann fyrr en komið var í úrslitakeppnina en það kom ekki niður á gæðum deildarinnar. Í úrslitakeppninni voru svo margir frábærir leikir, t.d. fór þriðji leikur KR og Keflavíkur í undanúrslitum deildarinnar í fjórar framlengingar. Jón Arnór Stefánsson tryggði KR inn í þriðju framlenginuna með ævintýralegri þriggja stiga körfu þar sem þrír leikmenn Keflavíkurliðsins voru ofan í honum og hann nánast kominn út af vellinum, en hitti samt! Sjálf úrslitaviðureignin var ekki af verri endanum, þegar Grindavík og KR mættust og fór einvígið í fimm leiki. Úrslitin réðust í síðustu sókn Grindavíkur í síðasta leiknum þegar Fannar Ólafsson, miðherji KR, stal boltanum og tryggði sigurinn, 84-83 fyrir KR.
Mikil spenna í NBA: LeBron til alls líklegur
Öll augu beinast nú að NBA-deildinni. LeBron James, Cleveland, var valinn besti leikmaður deildarinnar í ár og leiddi lið sitt til besta árangursins í deildinni. Liðið er nú komið í undanúrslit Austurdeildarinnar þar sem þeir keppa við Atlanta Hawks og ekki er ólíklegt að hann fari alla leið í úrslitin með lið sitt.
Önnur sterk lið í Austurdeildinni eru Boston Celtics, núverandi meistarar og Orlando Magic, sem eigast einmitt við í hinni undanúrslitarimmunni í Austurdeildarinni. Boston eru með frábært lið en líða fyrir það að einn þeirra besti maður, Kevin Garnett, er meiddur og spilar ekki með. Garnett var valinn besti leikmaður NBA-deildarinnar árið 2003 þegar hann lék með Minnesota en kom til Boston árið 2007 ásamt stórskyttunni Ray Allen frá Seattle, sem kvikmyndaáhugamenn muna eftir úr stórmynd Spike Lee, He got game. Fyrir hjá Boston var Paul Pierce og saman mynduðu þessar þrjár stórstjörnur óhugnanlega sterkt lið sem fór alla leið og vann meistaratitillinn í fyrra.
Boston á alltaf Brian Scalabrine
Meiðsli Garnetts setja strik í reikninginn en það má aldrei vanmeta Boston og aðrir leikmenn, s.s. leikstjórnandinn Rajon Rondo og Glen “Big Baby” Davis hafa stigið upp í fjarveru Garnetts. Ekki er hægt að fjalla um Boston liðið án þess að minnast á hinn óborganlega Brian Scalabrine, sem hefur vakið nýja lífsvon meðal rauðhærðra karlmanna. Scalabrine minnir helst á Will Ferrell í Semi-Pro en þegar fylgst er með leik hans kemur í ljós að heilmikið býr í honum og hvetur Deiglan áhorfendur til þess að fylgjast með þessum manni.
Náttúruundrið Dwight Howard
Hjá Orlando er mikið mannaval þótt liðið hafi ekki mikla reynslu í úrslitakeppninni. Ofurmiðherjinn Dwight Howard er stjarna liðsins en hann er allt að því óhugnanlegur að líkamlegum burðum. Axlir Howards eru á stærð við Keflavíkurflugvöll og stökkkrafturinn er slíkur að unnt væri að koma öllum þingræðum Jóns Bjarnasonar fyrir á gólfinu undir honum. Aðrir sterkir leikmenn eru þeir Rashard Lewis og Tyrkinn Hedo Turkoglu.
Pressan á Lakers í Vesturdeildinni
Í Vesturdeildinni eru LA Lakers, með Kobie Bryant fremstan í flokki, sigurstranglegastir en þeir keppa nú við Yao Ming og félaga í Houston Rockets í undanúrslitum en Houston vann óvænt fyrsta leikinn. Fyrirfram er búist við því að Lakers fari alla leið í úrslitin án mikilla vandkvæða en það gæti verið að pressan verði of mikil fyrir liðið. Þrátt fyrir frábæra leikmenn hefur stundum skort á leikgleði í liðinu og ýmsir hafa sett fram efasemdir um leiðtogahæfileika Kobie Bryants, þótt hann sé óumdeilanlega frábær leikmaður.
Billups breytti leik Denver
Í hinni viðureigninni keppa Denver Nuggets gegn Dirk Nowitski og félögum í Dallas Mavericks og eru þeir fyrrnefndu sigurstranglegri, með gömlu kempuna Chauncy Billups fremstan í flokki. Billups gerði Detroit að meisturum árið 2004 og er einn besti leikstjórnandi deildarinnar. Hann kom til Denver í vetur og hefur breytt leik leiðsins til hins betra. Aðrir sterkir leikmenn í Denver eru þeir Carmelo Anthony, miðherjinn Nene og hinn skrautlegi Chris “Birdman” Andersen sem hirðir fráköst og ver skot eins og óður maður.
Spá Deiglunnar fyrir 8-liða úrslit
Körfuboltasérfræðingar Deiglunnar hafa spáð nokkuð í spilin að undanförnu, m.a. með því að liggja yfir leikjum langt fram eftir nóttu ásamt því að leita álits hjá Einari Mar Þórðarsyni stjórnmálafræðing. Einar telur að Samfylkingin eigi alla möguleika á að vinna titilinn í ár.
Boston vs. Orlando
Við spáum því að serían fari í sjö leiki og Boston landi sigri 4-3. Hvorki er útilokað að eitthvað af leikjunum fari í framlengingu, né að úrslitin ráðist með flautukörfum frá Ray Allen eða Paul Pierce. Þá mun leynivopnið Scalabrine setja mark sitt á seríuna.
Cleveland vs. Atlanta
Þessi viðureign ætti að vera nokkuð þægileg fyrir Cleveland, sem við spáum að vinni 4-1. LeBron James mun hafa mikla yfirburði á vellinum og fara amk. tvisvar yfir 40 stiga múrinn.
Denver vs. Dallas
Lið Denver er feikisterkt um þessar mundir og ætti að fara í gegnum þessa seríu nokkuð örugglega. Þó býr heilmikið í Dallas-liðinu, sem fór alla leið í úrslitin árið 2006 þar sem þeir töpuðu fyrir Miami Heat. Dirk Nowitski er meðal sterkstu leikmanna deildarinnar og reynsluboltinn Jason Kidd er einn besti leikstjórnandinn í NBA. Hér verður því spáð að Denver vinni í 6 leikjum, 4-2.
Lakers vs. Houston
Kobie Bryant, Pau Gasol og Andrew Bynum eiga að fara nokkuð örugglega í gegnum þessa seríu, þótt Houston liðið sé með marga öfluga leikmenn. Auk Yao Ming má þar nefna Argentínumanninn Scola og skaphundinn Ron Artest sem gerði sér eitt sinn lítið fyrir og hljóp upp í 10. röð í áhorfendastúkunni til þess að berja áhorfanda sem fór í taugarnar á honum. Artest þurfti reyndar í kjölfarið að fylgjast með úr áhorfendastúkunni þar sem hann fór í bann út veturinn fyrir þetta tiltæki. Shane Battier og Aaron Brooks hjá Houston eru einnig skemmtilegir leikmenn. Hér verður engu að síður spáð sigri Lakers, 4-2.
Deiglan mun birta nánari og uppfærðari spár eftir því sem líður á úrslitakeppnina.
- Einyrkjar undir eftirliti - 11. maí 2009
- Hún fyrnir hann… hún fyrnir hann ekki… hún fyrnir hann… - 7. maí 2009
- Frábærar NBA-nætur - 5. maí 2009