Það er ótrúlegt að á tímum mikillar verðbólgu hafi ekki komið til tals að afnema tollun á innfluttar neysluvörur. Sú aðgerð myndi draga hratt úr verðbólgu, auka kaupmátt heimilanna, auka tekjur og einfalda rekstur fyrirtækja í landinu og efla útflutning – vonandi allt í senn.
Tollar eru tiltölulega lítill hluti af skatttekjum ríkisins, eða um fimm prósent. Það myndi því hafa lítil áhrif á tekjustofna hins opinbera að afnema tolla. Það myndi hins vegar hafa miklar og jákvæðar afleiðingar fyrir bæði heimili og atvinnulíf.
Fyrst má nefna þá augljósu staðreynd að vöruverð myndi lækka. Algengur tollur sem leggst á almennar neysluvörur til heimilishalds á borð við fatnað, matvöru og skemmtiefni er á bilinu 10 til 55 prósent. Ofan á upphæð tollaðrar vöru leggst síðan virðisaukaskattur. Með því að afnema tolla væri þannig hægt að lækka vöruverð á fjölmörgum neysluvörum um marga tugi prósenta með einu pennastriki. Líklegast er engin ein aðgerð sem myndi draga jafnhratt úr verðbólgu.
Ávinningur fyrirtækja er ekki síðri. Viðskipti bæði innflutningsfyrirtækja og smásöluverslana myndu glæðast með lækkandi vöruverði. Hugsanlega myndu einhver fyrirtæki ákveða að auka tekjur sínar í stað þess að lækka vöruverðið og gætu þá t.d. ráðið til sín fleira starfsfólk eða ráðist í framkvæmdir, sem draga myndi úr atvinnuleysi.
Fyrirtækin myndu jafnframt hagnast á þeirri einföldun rekstrarumhverfis þeirra sem afnám tolla felur í sér. Tollahandbókin 2009, ef handbók má kalla, er 1062 síður. Tollskráin er 518 síður. Samtals eru þessi lykilrit innflutnings á landinu lengri en Biblían. Það getur hver maður ímyndað sér vinnutapið sem innflutningsfyrirtæki þurfa að þola við það eitt að glöggva sig á tollareglufrumskóginum, fylla út tollaskýrslur og leysa út vörur. Þeir sem hafa lært bókfærslu þekkja toppinn á þeim ísjaka. Þessi vandamál verða úr sögunni um leið og tollar verða afnumdir.
Það er kannski ekki augljóst en útflutningsfyrirtæki myndu jafnframt græða á afnámi tolla ef marka má kennisetningu Lerners. Hún felur í sér að þegar vöruskiptajöfnuður við útlönd leitast við að halda jafnvægi, þá jafngildir veginn meðaltollur á innflutning jafnháum tolli á útflutning. Með því að halda tollastiginu háu er þar með vegið að útflutningi ekki síður en innflutningi.
Hér hefur ekkert verið minnst á vörugjöld, enda eru þau í flestum tilfellum leið hins opinbera til að rukka fyrir markaðsbresti, þ.e. neikvæð ytri áhrif vörunotkunar á þriðja aðila. Því leggjast vörugjöld á t.d. bensín, áfengi, tóbak og bíla. Þó vörugjöld verði ekki afnumin með öllu mætti hæglega endurskoða þau og lækka tímabundið til að vinna gegn verðbólgu með sama hætti og lýst er að ofan.
Eitt það besta sem ný ríkisstjórn gæti gert fyrir heimili og atvinnulíf er því að afnema tolla og endurskoða vörugjöld. Það er afar einföld aðgerð og er fljót að virka. Það eru auðvitað engar töfralausnir til, en sú sem hér er nefnd kemst ansi nærri því.
- Borg án sýningarstjóra - 7. desember 2015
- Kombakk plötunnar - 25. ágúst 2015
- Hugleiðing um tjáningarfrelsi - 4. maí 2015