Það kom ekki mörgum á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn skyldi fá slæma niðurstöðu í kosningunum um síðustu helgi þar sem margir kjósendur sáu ástæðu til að gera upp fortíðina og refsa flokknum fyrir að sofa á verðinum í aðdraganda bankahrunsins. Sjálfstæðismenn geta tekið þessu áfalli eins og öðrum og munu eflaust vinna sig út úr þessu hratt og örugglega á næstu misserum og árum. Það er líka ljóst að flokkurinn mun þurfa að heyja öfluga baráttu í stjórnarandstöðu á kjörtímabilinu þar sem allar líkur eru til þess að vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna verði mynduð um svipað leyti og verkalýðurinn heldur sinn baráttudag.
En það eru ýmis teikn á lofti um það að verkalýðurinn þurfi nú að hafa verulegar áhyggur af hvernig nýja ríkisstjórnin munu taka á málunum. Það er áhyggjuefni að hugsa til þess að allar vinstri stjórnir sem starfað hafa á Íslandi hafa hækkað skatta en einnig sorglegt ef horft er til þeirra stjórnarhátta sem vinstri stjórnir standa fyrir þar sem ríkinu er betur treyst en fólkinu sjálfu til þess að taka ákvarðanir um hvað er þjóðinni fyrir bestu.
Launþegar hafa nú þegar tekið á sig skattahækkun í kjölfar hrunsins sem var í haust. Að auki hafa þeir tekið á sig verulega kjaraskerðinu í formi launalækkana, veikri krónu og yfirgengilegrar verðbólgu undanfarið ár. Skattstofnar ríkisins hafa minnkað og það er ávísun á hörmungar að þyngja fjárhagslegar byrgðar fólks enn frekar. Þrengingar í buddum landsmanna munu bitna á atvinnulífinu þar sem minna verður úr að spila til neyslunnar. Skynsamlegra væri að leyfa fólki að halda sem mestu eftir að laununum sínum svo það geti haldið áfram að stunda verslun og greiða fyrir þjónustu. Frekari skattheimta á fjölskyldur landsins mun kæfa heimilin og atvinnulífið.
Þjóðin hefur orðið fyrir miklu áfalli og það mun taka tíma að vinna okkur upp úr þessu en það mun takast. Við munum þurfa að skera niður ríkisútgjöld á þeim skala sem vart áður þekkist. Þetta mun verða erfið aðgerð og mikilvægt að ríkisútgjöldum verði forgangsraðað til þess að þeir sem minnst mega sín verði síst fyrir barðinu á þeim niðurskurði.
Það er því alveg ástæða til að hafa vaxandi áhyggjur af því að Samfylking og Vinstri gænir hafi ekki burði í þessar nauðsynlegu aðgerðir þegar litið er til þeirra fjárútláta sem ríkisstjórnarflokkarnir stóðu fyrir síðustu sekúndum fyrir kosningar. Loforð og vilyrði um útgjöld til málaflokka sem tæplega geta talist lífsnauðsynlegar framkvæmdir á næstu 2-3 árum gefa vísbendingar um hvernig haldið verður á málunum. Hundruð milljóna til menningarmiðstöðvar í Skagafirði sem nú þegar var komin verulega fram úr áætlun, aukin útgjöld vegna listamannalauna og afturhvarf frá hagræðingaraðgerðum í heilbrigðisþjónustunni – er þetta forgangsröðin sem við munum eiga von á frá nýrri ríkisstjórn?
Yfirlýsingar um sameiningu ráðuneyta og hagræðingu í stjórnsýslunni án uppsagna starfsfólks eru líka ótrúverðugar. Það er síður en svo eftirsóknarvert að þurfa að segja upp fólki í kreppu en launakostnaður er stór liður í ríkisútgjöldunum sem ekki verður hægt að horfa framhjá þegar að niðurskurði kemur. Mikil aukning þeirra sem þiggja atvinnuleysisbætur er síður en svo æskileg þróun og það er alveg ljóst að það eina sem getur spornað við því er að störfum fjölgi í einkageiranum. Með ráðherra í ríkisstjórn sem hafa endalaust talað gegn einkaframtaki er erfitt að hafa trú á að þetta sé líkleg þróun í bráð.
- (Háskóla)menntun sem nýtist í starfi - 28. janúar 2021
- Spurðu lögmanninn - 29. september 2020
- Blómaskeið netverslunar loksins runnið upp? - 2. apríl 2020