Deiglan spáir því að einungis þrír flokkar komi að manni í Suðvesturkjördæmi í komandi kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn tjaldar öllu til með formann og varaformann á oddinum, Samfylkingin hefur einnig sterka stöðu en Vinstrigrænir munu vinna sigur og bæta við sig tveimur mönnum.
Í fyrsta sinn síðan í alþingiskosningunum 1987 er formaður Sjálfstæðisflokksins ekki í framboði í Reykjavík. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, leiðir lista sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi, og annað sætið skipar varaformaður flokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Ljóst er að sjálfstæðismenn hafa miklar væntingar um að SV-kjördæmið skili góðri niðurstöðu. Í undanförnum kosningum hefur þetta verið sterkasta vígi flokksins og þegar nú bætist við að forysta flokksins er í fararbroddi í kjördæminu eru væntingar miklar.
Töluverðar breytingar hafa orðið á framboðslistanum frá því tveimur árum; Bjarni og Þorgerður hafa haft sætaskipti, Ragnheiður Ríkharðsdóttir skipar 3. sætið eftir glæsilegan sigur í prófkjöri, fer úr því sjötta. Ármann Kr. Ólafsson, sem skipaði 3. sætið síðasta, tapaði í prófkjörinu og tók ekki sæti á listanum. Jón Gunnarsson skipar 4. sætið en Ragnheiður Elín Árnadóttir leiðir sem kunnugt er lista flokksins í Suðurkjördæmi. Í fimmta sæti er Óli Björn Kárason og Rósa Guðbjartsdóttir skipar fimmta sætið.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk tæplega 43% fylgi í Suðvesturkjördæmi í síðustu kosningum og skilaði það flokknum sex þingmönnum. Kannanir eru misvísandi um fylgi flokkanna í kjördæminu nú en ljóst er að ef Sjálfstæðisflokkurinn á einhvers staðar möguleika á góðri útkomu þá er það í þessu kjördæmi. Baráttusætið er að öllum líkindum 5. sætið og yrðu það mikil vonbrigði fyrir flokkinn tapa tveimur þingmönnum í kjördæmi formanns- og varaformanns sem auk þess hefur verið sterkasta vígi hans í gegnum tíðina.
Litlar breytingar hafa orðið á lista Samfylkingarinnar í kjördæminu en oddviti listans, Gunnar Svavarsson, ákvað að hverfa af vettvangi og gaf þér skýringar að hann „væri ekki í klíkunni“. Árni Páll Árnason sigraði örugglega í prófkjöri og leiðir hann listann í kjördæminu nú. Annað sætið skipar Katrín Júlíusdóttir, eins og síðast, og er Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, í þriðja sæti, eins og síðast. Engin endurnýjun hefur því í raun orðið á listanum ef frá er talið að Árni Páll fer úr 4. sæti í það fyrsta og Magnús Orri Schram, fyrrum fréttamaður tekur 4. sætið, en hann er einn af mörgum fyrrverandi fréttamönnum sem nú eru í framboði fyrir Samfylkinguna. Af öðrum má nefna Sigmund Erni Rúnarsson í NA-kjördæmi og Róbert Marshall í Suðurkjördæmi. Fimmta sætið skipar Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri, en hann náði ekki þeim árangri sem að var stefnt í prófkjöri flokksins.
Samfylkingin fékk rúmlega 28% fylgi í síðustu kosninum í SV-kjördæmi og fjóra menn kjörna. Kannanir benda til þess nú að flokkurinn eigi ágæta möguleika á því að bæta við sig manni. Það veikir hins vegar framboðið að kratar í Hafnarfirði, sem eru sterkasti kjarni flokksins í kjördæminu, fóru hallloka í prófkjöri flokksins. Þá hefur Árni Páll verið nokkuð mistækur í kosningabaráttu og skemmst er að minnast þess að hann neyddist til að biðjast afsökunar á því að hafa kallað keppinauta sína „fífl“ á framboðsfundi.
Vinstrigrænir hafa ekki riðið feitum hesti frá kosningum í Suðvesturkjördæmi á síðustu árum en þeim hefur þó vaxið fiskur um hrygg þar eins og annars staðar á síðustu misserum. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, framkvæmdastýra, leiðir listann þar og á hæla henni kemur Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra. Þriðja sætið skipar Ólafur Þór Gunnarsson, öldrunarlæknir, en kannanir benda til að VG eigi möguleika á þremur mönnum í kjördæminu. Í síðustu kosningum fengu vinstrigrænir 11,6% atkvæða og einn þingmann kjörinn, sjálfan Ögmund Jónasson.
Siv Friðleifsdóttir leiðir lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi eins og í síðustu kosningum en þá fékk flokkurinn 7,2% atkvæða. Ljóst er að Sivjar bíður erfið barátta fyrir þingsætinu miðað við þær kannanir sem birst hafa á síðustu vikum.
Spá Deiglunnar um þingmenn kjördæmisins að loknum kosningum:
D-listi: 5
Bjarni Benediktsson
Þorgerður K. Gunnarsdóttir
Ragnheiður Ríkharðsdóttir
Jón Gunnarsson
Óli Björn Kárason
S-listi: 4
Árni Páll Árnason
Katrín Júlíusdóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Magnús Orri Schram
V-listi: 3
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Ögmundur Jónasson
Ólafur Þór Gunnarsson
- Einyrkjar undir eftirliti - 11. maí 2009
- Hún fyrnir hann… hún fyrnir hann ekki… hún fyrnir hann… - 7. maí 2009
- Frábærar NBA-nætur - 5. maí 2009