Syndir samfélagsins

Hugur manna er frjáls en einstaklingar í nútímasamfélagi þurfa að breyta eftir gildum þess samfélags sem þeir búa í. Hver er vitundin, hvað er að breyta rétt, hvað hefur breyst með auknu upplýsingaflæði. Hvað er synd, hvað er að syndga og eru einhverjar dyggðir sem geta komið í staðinn.

Er íslenskt samfélag rotið? Er samfélagið yfirhöfuð laust við alla skynsemi, allan göfugleika og syndugt upp fyrir haus? Hugur manna er frjáls en einstaklingar í nútímasamfélagi þurfa að breyta eftir gildum þess samfélags sem þeir búa í. Hver er vitundin, hvað er að breyta rétt, hvað hefur breyst með auknu upplýsingaflæði. Hvað er synd, hvað er að syndga og eru einhverjar dyggðir sem geta komið í staðinn. Hugsunin berst að dauðasyndunum sjö.

Dauðasyndirnar sjö eru hroki, öfund, reiði, þunglyndi/leti, ágirnd, ofát og munúðlífi/losti, einnig þekktar sem erfðasyndirnar sjö. Syndirnar eru skilgreining á þeim göllum sem voru upprunalega notaðir í kristnum fræðum til að leiðbeina um tilhneigingu mannsins til að breyta rangt. Þó hvergi sé að finna í Biblíunni lista yfir dauðasyndirnar sjö er hægt sé að finna lista yfir höfuðdyggðirnar sjö, andstæður erfðasyndanna, í sumum bókum Nýja Testamentisins, þó meira sé lagt upp úr höfuðdyggðunum í kaþólskri siðfræði en þeirri lútersku. Kaþólska kirkjan skiptir syndum í tvo flokka. Minniháttar syndir sem fyrirgefast með því að skrifta og dauðasyndir sem eyðileggja líf og virðingu þess.

Nútíma skilgreiningin á dauðasyndunum sjö er tengd verkum 4.aldar munksins Evagrius Ponticus sem skráði niður átta „slæmar hugsanir“. Einhverjum árum síðar eða 590 E.Kr, yfirfór Páfi Gregory I, einnig kallaður Gregory hinn mikli, lista Ponticus í hinar þekktu dauðasyndirnar sjö. Dauðasyndirnar á lista Gregory á 6.öldinni og síðar í ljóði Dante Aligheri „Hinn guðdómlegi gleðileikur“ eru, og í þessari röð:
Luxuria (munúðlífi/losti), gula (ofát), avaratia (ágirnd), ancedia (þunglyndi/leti), ira (reiði), invidia (öfund) og superbia (hroki).

Munúðlífi/losti eru óhóflegar hugsanir eða langanir á kynferðislegan hátt. Að láta undan losta getur þannig leitt af sér kynlífsfíkn, framhjáhald, nauðgun o.s.frv.

Ofát eða á latínu gluttony er tekið frá orðinu gluttire sem þýðir að gleypa í sig eða kyngja. Ofát er því skilgreint sem ofneysla eða að láta of mikið eftir sér. Í kristni er þetta talið sem synd þar sem óhófleg þrá í mat tekur frá þeim þurfandi.

Ágirnd, eins og losti og ofát, er flokkuð sem eftirlátssynd og talin synd gegn Guði þar sem maðurinn gefur eftir hið andlega fyrir veraldlega hluti.

Þunglyndi/leti . Skilgreining þessarar dauðasyndar hefur breyst mest frá upprunalegu merkingu. Upphaflega var hún kölluð synd dapurleika og sorgar en núna er hún skilgreind sem óróleiki hugans eða að nota ekki sína eigin hæfileika og gjafir. Dante skilgreindi syndina sem „Að mistakast að elska Guð af öllu hjarta“.

Reiði er skilgreind sem óviðráðanlegar tilfinningar af hatri og reiði. Þessar tilfinningar geta byggt upp afneitun á sannleikanum, óþolinmæði, þrá að sækja hefnd o.s.frv. Reiði er eina syndin sem þarf ekki endilega að tengjast eigingirni en í kristni er hún talin sem lokahöfnun á gjöfum guðs.

Öfund, eins og ágirnd, flokkast sem óseðjandi löngun, en þessar syndir eru ólíkar á þann hátt að ágirnd er yfirleitt tengd löngun í veraldlega hluti, þegar öfund getur átt við í mun víðari skilningi. Þeir sem öfunda, líkar illa við þá sem hafa það betra og óska þeim alls hins versta. Í hreinsunareldi Dante‘s var refsingin við öfund sú að augnlokin voru saumuð saman með vír, því öfundin var komin frá því að hafa haft syndsamlega ánægju af óförum annarra.

Hroki er talin upprunalega syndin, sú alvarlegasta af dauðasyndunum sjö og ástæða og uppruni hinna dauðasyndanna. Hroki snýst um að sjá ekki góð verk annarra og hafa ofur ást á sjálfum sér. Besta dæmið er sagan af Lúsifer og hans þrá að keppa við guð. Þetta varð til þess að honum var hent út úr himnaríki og þannig varð hann að satan.

Dauðasyndirnar sjö komu upp í huga greinarhöfundar eftir þá endalausu hringavitleysuna sem einkennt hefur stjórn landsins undanfarið og þá afvegaleidda umræðu sem mötuð er ofan í þjóðina um ástand þjóðfélagsins í dag.

Eins hreint og fallegt við vildum óska að samfélagið væri þá verðum við víst að sætta okkur við þá staðreynd að maðurinn er ófullkominn og hver hefur sinn djöful að draga. Alla daga hljóma í eyrum okkar fréttir af ástandinu. Krónan fellur, heimilin brenna, bankarnir eru óstarfhæfir, fyrirtæki berjast í bökkum, atvinnuleysi eykst, matarverð hækkar og vonleysið virðist algjört.

Það er því ekki skrítið í ljósi aðstæðna að þrjár af dauðasyndunum eru allsráðandi, en það eru reiði, þunglyndi og ágirnd. Fólk er reitt út í aðstæður, kreppuna, hækkandi lán, Sjálfstæðisflokkinn, auðmennina, þunglyndi eykst yfir stanslausum kreppufréttum og öfund út í þá sem hafa það betur, öfund út í þá sem ekki hafa misst vinnuna, keyptu sér ekki íbúð og síðast en ekki síst öfund út í þá sem sluppu burt og skildu okkur eftir í skítnum.

Þegar hugsað er til ársins 2007 þá átti ekkert af þessum dauðasyndum við daglegt líf fólks en þegar betur er að gáð eiga hinar fjórar dauðasyndirnar vel við fylleríið sem var í gangi. Við vorum hrokafull því við vorum best í heimi, fólk ágirntist veraldlega hluti svo sem flatskjái, jeppa og geðveikin gat auðveldlega snúist upp í ofát og losta.

Er hreinleikinn einhvern tímann mögulegur? Er ekki ástæða fyrir því að þessar syndir séu kallaðar dauðasyndir og hafa verið viðurkenndar frá 6.öld og maðurinn hefur barist við allt frá upphafi siðmenntaðs þjóðfélags. Er ekki nær á hvaða tímum sem er að forðast dauðasyndirnar sjö og einbeita sér þess í stað að höfuðdyggðunum sjö: Visku, hófstillingu, hugrekki, réttlæti, von, trú og kærleika.

http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=505
http://en.wikipedia.org/wiki/Seven_deadly_sins

Latest posts by Erla Margrét Gunnarsdóttir (see all)