Við fyrstu sýn mætti ætla að spurningunni hvað er Evrópusambandið? væri auðsvarað en svo er ekki. Segja má að Evrópusambandið sé sambræðingur ýmiss konar samstarfs mismunandi Evrópuríkja sem hafa ólíkan bakgrunn. Annars vegar eru ríki, sem stóðu uppi sem sigurvegarar eftir seinni heimsstyrjöld, og hins vegar er um að ræða ríki sem lutu í lægra haldi. Í sambandinu eru hinar fornu fjandþjóðir Frakkland og Bretland svo og hafa Austur-Evrópuþjóðir, sem voru áður hluti af Sovétríkjunum, verið að ganga í sambandið ein af annarri. Af þessu má ljóst vera að löndin, sem í dag standa að Evrópusambandinu, eru mjög fjölbreytt og með mismunandi óskir, þarfir og væntingar. Ekki einungis eru aðildarlöndin fjölbreytt heldur hafa þau líka mismunandi skoðanir á Evrópusambandinu, hlutverki þess og hvernig framkvæmd samvinnunnar skuli háttað. Helzt takast milliríkjasinnar (e. intergovernmetntalism) og sambandssríkjasinnar (e. federalism) á. Annars vegar er um að ræða lönd sem aðhyllast samvinnu á milliríkjagrundvelli og hins vegar lönd sem vilja að Evrópusambandið hafi yfirþjóðlegt vald. Ef þetta er ekki nóg að þá mætti hugsanlega tína Bandaríkin til sem áhrifavald, í það minnsta vald sem vill hafa áhrif á Evrópusambandið og Evrópusamrunann.
Sé reynt að taka tillit til allra þátta sem hafa haft áhrif á þróun Evrópusambandsins mætti lýsa samstarfi þjóðanna með eftirfarandi skilgreiningu:
Evrópusambandið er að hluta yfirþjóðleg- og að hluta milliríkjasamvinna fullvalda ríkja á fjölmörgum sviðum, meðal annars á sviði efnahags og viðskipta, sem í upphafi beindist að því að stuðla að friði í Evrópu en er með sameiningu álfunnar að lokamarkmiði. Sökum margvíslegra óska, þarfa og væntinga þjóðanna sem standa að sambandinu hefur leiðin að lokamarkmiðinu oft verið torveld og virðist nú um stundir í uppnámi.
Sé farið yfir sögu Evrópusambandsins er ljóst að kveikjan að samvinnunni voru hugmyndir Frakka um að koma í veg fyrir frekari stríðsrekstur Þjóðverja auk þess sem þjóðirnar, sem fyrst fóru út í samvinnuna, sáu mikinn efnahagslegan ávinning af henni. Samvinnan þróaðist og þrátt fyrir andstöðu Frakka við að fela Evrópubandalaginu yfirþjóðlegt vald að þá kom allt fyrir ekki. Evrópudómstóllinn greip til sinna ráða og kvað úr um að regluverk bandalaganna væri yfirþjóðlegs eðlis. Jafnframt lét dómstóllinn þá skoðun sína í ljós að með Rómarsáttmálunum hafi verið hafin vinna að frekari samvinnu og sameiningu Evrópuríkja og fyrirbærið Evrópubandalagið væri einstakt sinnar tegundar, sui generis. Evrópusambandið, sem varð til með Maastrichtsáttmálanum, hélt svo áfram að þróast, oft á tíðum óvænt, en er nú í uppnámi eftir að stjórnarskrá Evrópusambandsins og Lissabonnsáttmálanum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Allt bendir þó til þess að Lissabonnsáttmálinn verði samþykktur á Írlandi ef kosið yrði um hann öðru sinni. Gríðarlegur þrýstingur hefur verið á Írsk stjórnvöld að láta kjósa um sáttmálann öðru sinni. Verður það líklega gert fyrir 31. október í ár.
Án vafa verður ekki mikið um stækkanir sambandsins á næstunni enda eru skilaboð stjórnmálamannanna skýr. Nú að að einbeita sér að innri samþættingu og bíða með frekari stækkanir. Kristdemókratar í Þýzkalandi, flokkur Angelu Markel kanslara, samþykkti um daginn að hafna frekari stækkunum Evrópusambandsins á næstunni. Eina undantekningin gæti hugsanlega verið Króatía sökum þess hversu stækkunarviðræður við Króatíu eru komnar langt á veg. Það er því ljóst að gríðarlega erfitt er að spá fyrir um hvernig Evrópusambandið muni líta út í lengd og bráð og enn erfiðara er að spá fyrir um það þar sem ljóst er af sögunni að oft á tíðum eru það ekki stjórnmálamennirnir sem hafa tekið mikilvægustu ákvarðanirnar, nægir þar að benda á mjög frjálsar túlkanir Evrópudómstólsins á grundvallarsáttmálum Evrópusambandsins. Það er því alveg ljóst að stjórnmálamenn dagsins í dag á Íslandi hafa engar forsendur til að segja íslenskum almenningi hvað býður þeirra verði gengið í Evrópusambandið, því verður inngangan að grundvallast á miklum vilja til að tilheyra Evrópusambandinu og viljanum til að halda áfram samrunaþróuninni. Ákvörðun um inngöngu byggð á tímabundnum hagsmunum getur því ekki staðist nánari skoðun, ómögulegt er að reikna út þessa hagsmuni nema þá í hæsta máta nokkra mánuði fram í tímann.
- Evrópulaun - 18. janúar 2010
- Bókadómur: Frá Evróvision til evru – allt um Evrópusambandið - 14. október 2009
- Sannleikurinn um sáttmálann - 22. september 2009