Páskahugleiðing fyrir hrædda þjóð

Í ágætri bíómynd segir faðir við son sinn að hann skuli vara sig á hræddu fólki. Hræddur maður er hættulegur maður, sagði faðirinn. Hræddur og örvæntingafullur maður er oft viti sínu fjær og getur bæði skaðað sjálfan sig og aðra.

Í ágætri bíómynd segir faðir við son sinn að hann skuli vara sig á hræddu fólki. Hræddur maður er hættulegur maður, sagði faðirinn. Hræddur og örvæntingafullur maður er oft viti sínu fjær og getur bæði skaðað sjálfan sig og aðra.

Þannig er það líka með hrædda þjóð – hún getur verið hættuleg. Fyrst og síðast er hún hættuleg sjálfri sér vegna þess að þegar óttinn er ráðandi þá er dómgreindin víðsfjarri. Þjóð og fólk í fjötrum óttans getur gripið til úrræða sem geta reynst afdrifarík og valdið óbætanlegum skaða.

Þegar þrengir að fólki, heimilum og fyrirtækjum eru margir uggandi um framtíðina. Við erum áhyggjufull og jafnvel óttaslegin. Gegn óttanum teflum við æðruleysi. Við viljum hvorki láta reiði né ótta ná tökum á okkur. Við mætum því sem að höndum ber og látum það ekki buga okkur.

Við skulum ekki verða ótta og reiði að bráð.

Boðskapur páskanna á erindi við hrædda þjóð. Það er gagnlegt að gefa gaum að síðustu dögum og stundum í lífi Jesú. Það mikla drama segir svo margt um mannlegt eðli.

Það er meira en hálfraraldar gamall siður að passíusálmarnir eru lesnir í útvarpinu. Ég heyrði viðtal við Silju Aðalsteinsdóttur sem les sálmanna í útvarpinu í ár. Þar talaði hún af mikilli virðingu um sálmana og höfund þeirra og talaði um hvað efnið væri sorglegt.

Silja minnir okkur á að píslarsagan er um ungan mann sem var ekkert annað en gæðin og góðmennskan. Sagan er um ungan mann sem talaði fallega við börn og konur og alla sem voru á jaðri samfélagsins – sagan erum mann sem lagði öllu og öllum gott til þó að hann væri afdráttarlaus í andstöðu við yfirvöld sem vildu leggja byrðar og hlekki á fólk.

Og umfram allt þá gaf hann fólki von. Hann talaði kjark í fólk og sagði við vini sína verið ekki hrædd.

En myrkrið gat ekki tekið á móti ljósinu – og þess vegna fór sem fór. Óttaslegnir menn handtóku og dæmdu Jesú og hann var líflátinn á miskunnarlausan hátt.

Krossferill Jesú er þrautaganga saklaus manns sem hafði það eitt til saka unnið að tala gegn því valdi sem vildi leggja þungar byrðar á fólkið bæði í andlegum og veraldlegum skilningi.

Alveg burt séð frá guðfræðilegri merkingu píslarsögunnar og hjálpræðisverkinu þá getum við horft á söguna um Jesú sem sorglega sögu um ungan mann sem varð fórnarlamb óttans.

Og það gerist enn í dag – það er svo óendanlega sorlegt.

————————

En svo er Guði fyrir að þakka að sagan sem guðspjallið rekur hún endar vel. Kristur reis upp frá dauðum. Það skiptir öllu máli. Myrkrið ( óttinn ) virtist hafa sigur um sinn – en ljósið ( vonin ) hafði sigur. Það er fagnaðarerindið á páskum sem við skulum hlusta á og muna.

Þó að okkur virðist útlitið dökkt og myrkrið umlykja okkur þá eigum við að treysta því að aftur muni birta og sigur vinnast.

Gleðilega páska.

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)