Eina markverða niðurstaða eldhúsdagsumræðna á Alþingi í gærkvöldi er sú að stjórnarflokkarnir, sem að öllu óbreyttu munu mynda meirihlutastjórn í vor, eru ekki sammála um neitt. Nema að hækka skatta.
Skjaldborgin um heimilin hefur reynst innantómt blaður. Öll mál sem lúta að hagsmunum heimilanna og fyrirtækjanna í landinu eru í biðstöðu vegna fráleitra fyrirætlana um stjórnarskrárbreytingar á mestu umrótatímum sem íslenskt samfélag hefur gengið í gegnum áratugum saman.
Stuðningur við stjórnarskrárbreytingar í skoðanakönnunum virðist vera helsta röksemdin fyrir málflutningnum. Allir umsagnaraðilar hafa varað eindregið við því bráðræði sem stjórnarminnihlutinn með fulltingi Framsóknarflokksins sýnir af sér í þessu máli. En rétt og rangt skiptir víst ekki máli, svo lengi sem það er til vinsælda fallið.
Efnahagslegt hrun er kjörlendi fyrir popúlista. Ekki þarf neina sérfræðikunnáttu í sögu 20. aldar til að átta sig á því að öfgastefnur hafa grasserað við slíkar aðstæður. Í stað þess að mynda breiða samstöðu um aðgerðir til hjálpar heimilum og fyrirtækjum í landinu er slegið á útrétta sáttarhönd stjórnarandstöðunnar.
Bankahrunið síðastliðið haust var hörmulegt og mikið áfall fyrir efnahag íslensku þjóðarinnar. En þær breytingar sem eru að verða á íslensku samfélagi, þar sem skipulagðar óeirðir eru notaðar sem pólitískt vopn, þar sem mönnum er ráðlagt að borga engar skuldir, þar sem ráðamenn gefa þau skilaboð að grundvallarreglur réttarríksins séu ekki lengur í gildi og þar sem atvinnulífið er í höndum stjórnmálamanna, eru miklu verri en það efnahagslega áfall sem Íslendingar urðu fyrir á liðnu hausti.
Skömmu eftir bankahrunið birtist stutt viðtal við leikkonuna Eddu Heiðrúnu Backman. Þar komst hún svo að orði að það væri ekki svo slæmt að tapa peningum. Miklu verra væri að tapa heilsunni. En verst af öllu væri að tapa sjálfum sér.
Þessi orð eiga svo sannarlega við um íslensku þjóðina. Grunnstoðir samfélagsins, virðing við réttarríkið og lýðræðið, svigna nú undan álaginu. Íslendingar munu jafna sig af þessu efnahagslega áfalli en þeir munu aldrei ná fyrri styrk ef þeir tapa sjálfum sér og grunngildum sínum í þeirri örvinglan sem nú gegnsýrir samfélagið.
Eldhúsdagsumræðurnar í gærkvöldi sýna svo ekki verður um villst að þessi örvinglan er gróðrarstía fyrir innihaldslausar upphrópanir og slagorð – popúlisma í sínu versta formi. Kannski er annað óhjákvæmilegt þegar kosningar eru framundan og sannast þá varnaðarorð þeirra sem sögðu í haust upplausn í stjórnmálum það versta sem fylgt gæti efnahagslegu áfalli.
Einu lausnirnar sem verðandi ríkisstjórn býður eru hærri skattar. Ekkert annað. Öll þau tækifæri sem Íslendingar hafa til að vinna sig hratt og örugglega útúr erfiðleikunum eru smám saman að fara forgörðum. Áfallið er að breytast í allsherjarhrun.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021