Afar spennandi kosningabarátta er nú framundan í Norðausturkjördæmi og ef marka má nýjustu skoðanakönnun Gallup þá munu Vinstrigrænir undir forystu Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, vinna stórsigur í kjördæminu.
Í síðustu kosningum unnu Sjálfstæðismenn mjög góðan sigur í kjördæminu og fengu 28% atkvæða og þrjá menn kjörna, þau Kristján Þór Júlíusson, Arnbjörgu Sveinsdóttur og Ólöfu Nordal. Þetta var í fyrsta sinn sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk flest atkvæði í NA-kjördæmi frá kjördæmabreytingunni 2003 og þessi sigur var jafnframt sögulegur því hann þýddi að í fyrsta sinn var Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum.
Valgerður Sverrisdóttir, Birkir Jón Jónsson og Höskuldur Þór Þórhallsson náðu kjöri fyrir Framsóknarflokkinn sem þó tapaði miklu fylgi frá kosningunum 2003 og hlaut 24,6% atkvæða. Samfylkingin hlaut 20,8% atkvæða og tvo menn kjörna, Kristján L. Möller og Einar Már Sigurðarson. Vinstrigrænir fengu 19,6% atkvæða og komust þau Steingrímur J. Sigfússon og Þuríður Backman þar með inn á þing.
Ljóst er að talsverðar breytingar verða á þingliði kjördæmisins. Einar Már beið mikið afhroð í prófkjöri Samfylkingarinnar og þar skipar nú 2. sætið fyrrverandi fréttastjóri Stöðvar 2, Sigmundur Ernir Rúnarsson, sem svo skemmtilega vill til að hefur haft veg og vanda að kosningaumfjöllun Stöðvar 2. Þriðja sætið skipar Jónína Rós Guðmundsdóttir, framhaldsskólakennari, en sem fyrr er Kristján L. Möller, samgönguráðherra, í 1. sæti. Samfylkingin á mikla möguleika á að ná þremur þingmönnum inn, ef marka má niðurbrot á könnunum í kjördæminu.
Sjálfstæðismanna býður erfitt verkefni í Norðausturkjördæmi. Eftir mikinn sigur fyrir tveimur árum benda kannanir til þess að flokkurinn sé ekki öruggur með tvo þingmenn. Það þýðir að Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður, á litla möguleika á endurkjöri. Það vinnur hins vegar með sjálfstæðismönnum í kjördæminu að oddviti þeirra, Kristján Þór Júlíusson, er orðinn einn af leiðtogum flokksins á landsvísu eftir að hafa með naumindum beðið lægri hlut í formannskjöri á nýafstöðnum landsfundi. Það yrði í raun ákveðinn varnarsigur fyrir Sjálfstæðisflokkinn að ná tveimur mönnum inná þing í NA-kjördæmi.
Framsóknarflokkurinn er í öllu betra standi ef marka má kannnanir og ætti flokkurinn að vera nokkuð öruggur með tvo þingmenn, þá Birki Jón og Höskuld. Það kann að vinna gegn Framsóknarflokknum að þessir tveir ungu menn hafa að undanförnu eldað grátt silfur saman á flokksvettvangi og eru síður en svo samstíga í afstöðu sinni.
En sigurvegarar kosninganna í Norðausturkjördæmi verða Vinstrigrænir ef eitthvað er marka nýjustu kannanir. Samkvæmt þeim eru Vinstrigrænir nokkuð öruggir inn með þrjá þingmenn og nær því að ná inn fjórum mönnum en sjálfstæðismenn tveimur. Þó ber að hafa í huga að skekkjur í svona könnunum eru verulegar þegar þær eru brotnar niður á einstök kjördæmi. Þær gefa hins vegar ákveðna vísbendingu. Fari svo að úrslit kosninganna verði á þessa leið er það stórsigur fyrir Steingrím J. Sigfússon og hann myndi ná að draga inn á þing með sér þau Þuríði Backman og Björn Val Gíslason, skipstjóra.
Spá Deiglunnar um þingmenn kjördæmisins að loknum kosningum:
B-listi: 2
Birkir Jón Jónsson
Höskuldur Þórhallsson
D-listi: 2
Kristján Þór Júlíusson
Tryggvi Þór Herbertsson
S-listi: 3
Kristján L. Möller
Sigmundur Ernir Rúnarsson
Jónína Rós Guðmundsdóttir
V-listi: 3
Steingrímur J. Sigfússon
Þuríður Backman
Björn Valur Gíslason
- Einyrkjar undir eftirliti - 11. maí 2009
- Hún fyrnir hann… hún fyrnir hann ekki… hún fyrnir hann… - 7. maí 2009
- Frábærar NBA-nætur - 5. maí 2009