Fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni er sennilega ein mesta aðför sem gerð hefur verið að lýðræðinu í seinni tíð. Einn hornsteinn lýðræðis er að leikreglurnar séu stöðugar en ekki á sífelldri breytingu. Aðeins með stöðugum reglum getur þjóðfélagið verið stöðugt, þó fleira þurfi til. Það að breyta stjórnarskránni í verulegum atriðum með örskömmum fyrirvara er ógnun við stöðugleikann, sem þó var ekki mikill fyrir. Sums staðar eru reglur um breytingar á stjórnarskrá þannig að breytingartillögur þarf að leggja fram mörgum mánuðum áður en boðað er til þingkosninga. Tilgangur þess er að koma í veg fyrir pólitískan óstöðugleika t.d. með breytingum á stjórnarskrá í aðdraganda kosninga. Að rjúfa þá hefð að breið sátt sé um stjórnarskrárbreytingar í þeim óstöðugleika sem nú ríkir skapar enn meira óöryggi.
Eigum við nú á hættu að stjórnarskránni verði breytt aftur um leið og ný ríkisstjórn nær völdum? Þetta er óheillaskref sem gæti orðið afdrifaríkt fyrir lýðræðið og framtíðarstöðugleika landsins. Allt tal um samstöðu og sátt er sem hjóm eitt þegar ganga á gegn þeim hefðum sem gilt hafa um lýðræðið hér á landi sem erlendis um áratugaraðir.
Annað alvarlegt mál er að fólk veit almennt ekki hvaða breytingar eru fyrirhugaðar á stjórnarskránni og algjörlega hefur vantað alla umræðu þess efnis. Hvað þýðir til dæmis eftirfarandi ákvæði sem lagt er til að verði bætt við stjórnarskrána:
„Allir eiga rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Réttur almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það, svo og kostur á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið, skal tryggður með lögum.“
Hverju breytir þetta ákvæði frá þeim reglum sem nú gilda samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og Evrópureglum um sama efni? Verður ríkið skaðabótaskylt ef það tryggir ekki þegnum „umhverfi sem stuðlar að heilbrigði“? Væri ekki nær að ákvæðið liti að því að allir ættu rétt til heilbrigðs umhverfis, þ.e. umhverfis sem skaðar það ekki. Er þetta ákvæði hvílíkt lykilatriði í stjórnskipan og lýðræði landsins að ekki má bíða eftir niðurstöðu fyrirhugaðs stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskránni í heild sinni?
Ákvæðið um stjórnlagaþing er annað mál. Vissulega hefur þó nokkuð verið rætt um fyrirhugað stjórnlagaþing og margir talað sem það verði heillaskref fyrir lýðræðið í landinu. Það er oftast sama fólkið og talar um að styrkja þurfi sess alþingis í stjórnskipan landsins. Að koma á fót stjórnlagaþingi sem mun hafa vald til að ákveða nýja stjórnarskrá er stærsta skerðing á valdi alþingis sem hugsast getur. Mesta vald alþingis hefur allan lýðveldistímann verið falið í því að alþingi, í umboði þjóðarinnar, hefur vald til að breyta stjórnarskránni. Af hverju treysta alþingismenn sér ekki til að gera tillögur um breytingar á stjórnarskránni? Af hverju ættu þingmenn stjórnlagaþings að vera betur til þess fallnir en almennir þingmenn? Leiða má að því líkum að við kosningar til stjórnlagaþings muni hagsmunahópar fara á fullt við að koma sínu fólki að þar sem allir verða með það að markmiði að koma sínu „ákvæði“ í stjórnarskrána. Umvherfisverndarsinnar, listamenn, íþróttahreyfingar, trúarhreyfingar, bændur, sjómenn og hverjir aðrir sem nöfnum tjáir að nefna. Verður það lýðræðinu til framdráttar?
Þó vissulega sé einhverra breytinga þörf á stjórnarskránni verður ekki sagt að hún sé það sem hafi brugðist í þeim óförum sem hafa dunið yfir okkur. Þvert á móti mundi ég telja að stjórnarskiptin og fyrirhugaðar kosningar séu til marks um að lýðræðið og þingræðið sem grundvallað er í stjórnarskránni virkar. Og hvers vegna að laga það sem er ekki bilað, þegar svo margt annað þarf á viðgerð að halda?
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020