Ég man eftir ritröð sem afi minn heitinn átti og mér þótti merkileg. Í bókunum var að finna frásagnir af íslenskum sjómönnum sem lent höfðu í sjávarháska. Þegar allar bjargir sýndust bannaðar sýndu menn af sér þrautseigju og æðruleysi og skildi það á milli feigs og ófeigs. Mér þótti titill bókanna alltaf merkilegur og lýsa efni þeirra í hnotskurn – Þrautgóðir á raunarstund.
Þegar áföll dynja yfir bregðast menn við með mismunandi hætti. Það sama gildir um hópa og þar með þjóðir. Andspænis erfiðleikum og háska er stutt í ringulreið, örvæntingu og uppgjöf. Öll þessi merki eru áberandi í íslensku samfélagi í dag. Íslenska þjóðin, sem er afsprengi af harðri og oft tvísýnni lífsbaráttu genginna kynslóða, gengur nú í gegnum mikla þolraun. Því miður eru raddir hinna örvingluðu og örvæntingarfullu hærri en þeirra þrautgóðu – og það sem verra er, þá eru ráðamenn þjóðarinnar í hópi hinna fyrrnefndu.
Íslendingar hafa allt til brunns að bera til að yfirstíga það áfall sem dunið hefur yfir. Við höfum í raun tækifæri til að komast hraðar í gegnum kreppuna en flestar þær þjóðir sem standa í svipuðum sporum. Þegar öllu er á botninn hvolft verðum við miðlungsskuldug þjóð sem býr að einu hæsta menntunarstigi á byggðu bóli og náttúruauðlindum sem eru öfundarefni í augum annarra þjóða. En þessi tækifæri geta auðveldlega farið forgörðum. Afleiðingar þess yrðu miklu verri en sá vandi sem við stöndum frammi fyrir í kjölfar bankahrunsins.
Fyrir fáeinum misserum voru þær raddir háværar að hlutbundin verðmætasköpun og frumframleiðsla tilheyrði fortíðinni. Freistandi er að halda því fram núna að það hafi verið óskhyggja og barnaskapur, bólan um óhlutbundin verðmæti sé sprungin. Það væru hins vegar mikil mistök. Það sem mestu máli skiptir er að sérþekking, hugvit og færni eru samofin hlutbundinni verðmætasköpun og hráefnisframleiðslu. Sérþekking okkar Íslendinga á sviði endurnýjanlegrar orku væri engin ef ekki væri fyrir umfangsmikla nýtingu náttúruauðlinda.
Þegar til kastanna kom reyndust Íslendingar ekki hafa yfirburði á aðrar þjóðir í bankastarfsemi. Við þurfum að byggja upp nýtt bankakerfi á þeim grunni að fjármálakerfið sé stoð fyrir verðmætasköpun einstaklinga og fyrirtækja í landinu. Við höfum yfirburði og forskot á aðrar þjóðir þegar kemur að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og fiskveiðum. Þekking okkar og færni í þessum efnum mun verða snar þáttur í endurreisninni.
Að loknum kosningum í vor skiptir miklu að við taki ríkisstjórn sem hefur skilning á þessu. Sú hætta er raunveruleg að stjórnmálamenn muni verða helsta hindrunin á leið til skjótrar endurreisnar efnahagslífsins. Þeir stjórnmálamenn eru fulltrúar örvinglunar og uppgjafar. Tækifærin eru staðar fyrir þá sem eru þrautgóðir á raunarstund. Ef við höfum dug til að grípa þau mun það skilja milli feigs og ófeigs.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021