Ísland rann á rassinn síðasta haust, og við höfum staðið í erfiðri (en nauðsynlegri) naflaskoðun síðan. Það er ljóst að við spiluðum rassinn úr buxunum, vorum gripin undan landhelgi, og létum draga okkur á asnaeyrunum. Bömmer.
En nú hækkar sól, við erum búin að þreyja þorrann, og bráðum kemur vorið. Það er ákall á endurnýjun í öllum stjórnmálaflokkum og vonandi verða sem flestir við því kalli. Prófkjör Sjálfstæðisflokksins verður nú um helgina, þar sem flokksmenn fá tækifæri til að tjá hug sinn í spennandi kosningum. Þar ættu kjósendur að leggja áherslu á að styðja þá frambjóðendur sem vilja horfa fram á við, í stað þess að líta til baka.
Það sama á við í kosningabaráttunni sem fer í hönd. Íslendingar fá tækifæri til að velja sér nýja ríkisstjórn, og nýtt fólk sem getur hjálpað til við að draga Ísland á fætur. Nú þurfum við að snúa bökum saman og byggja upp nýtt atvinnulíf.
Íslendingar horfast í augu við nýja tíma, og breytt þjóðfélag. En það er gott þjóðfélag, og því má ekki gleyma. Út um allan heim berjast fyrirtæki og launþegar við niðursveifluna, flestir í samfélögum sem standa mun verr við bakið á þeim sem hrasa heldur en Ísland gerir.
En stjórnmálamennirnir geta þetta ekki einir. Það eru Íslendingar sjálfir sem munu rífa sig upp úr lægðinni – það gerir það enginn fyrir okkur. Við gerum það ekki með álverum og skuldsettum yfirtökum, heldur með litlu hlutunum – með dugnaði og með nýsköpum. Tilboð á fiski, endursmíði á notuðum tölvum, húfur sem hlæja, fatamarkaður HR-inga í Morgunblaðshúsinu, að ganga til góðs, henda tyggjóbréfinu í ruslið, og brosa framan í náungann niðri í miðbæ. Og síðast en ekki síst, að bíta á jaxlinn, standa upp og halda áfram. Eins og Jónsi syngur í Sigurrósarlaginu Hoppípolla:
Hoppípolla – Í engum stígvélum
Allur rennvotur (Rennblautur) – Í engum stígvélum
Og ég fæ blóðnasir
En ég stend alltaf upp …
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020