Í komandi Alþingiskosningum er gerð mikil krafa um endurnýjun á Alþingi. Þjóðin bindur vonir að með nýju fólki komi nýjar áherslur og ný gildi í þingstörfum sem muni hjálpa íslensku þjóðinni að komast í gegnum þá erfiðu tíma sem framundan eru. Eftirspurninni fyrir endurnýjun hefur verið svarað með mörgum framboðum frambærilegra einstaklinga í öllum stjórnmálaflokkum.
Þrátt fyrir töluverða endurnýjun þingmanna í Alþingiskosningunum fyrir tveimur árum þá virðist það vera vilji mikils meirihluta þjóðarinnar að hún verði enn meiri í kosningunum í apríl. Ástæður kjósenda fyrir því eru eflaust misjafnar en til þess að endurnýjunin eigi sér stað þá verður almenningur að reyna að hafa áhrif með því að taka þátt í prófkjörum flokkanna. Tækifærin til þess að koma nýju fólki að á framboðslistum flokkanna felast í þátttöku í prófkjörum og í stuðningi við frambjóðendur.
Fyrsta prófkjörið í þeirri prófkjörshrinu sem framundan er nú þegar yfirstaðið en Vinstri hreyfingin, grænt framboð hélt sitt prófkjör í vikunni. Úrslit þess hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir Vinstri-græna og mikinn meirihluta þjóðarinnar sem vilja sjá endurnýjun á Alþingi. Kallinu um endurnýjun á framboðslistum var ekki svarað í þessu prófkjöri. Í fyrsta sæti var kjörinn Steingrímur J. Sigfússon en hann hefur setið á Alþingi í 26 ár eða frá árinu 1983. Í öðru sæti er Þuríður Backman, en hún hefur setið á Alþingi frá 1999 og varaþingmaður með reglulegu millibili frá árinu 1992.
Unga fólkið fékk ekki uppreisna æru í prófkjöri Vinstri-grænna. Yngsti frambjóðandinn á átta manna lista Vinstri-grænna er Hlynur Hallsson, varaþingmaður og listamaður, en hann er fertugur. Af þeim 21 einstaklingum sem gáfu kost á sér í prófkjörinu voru átta undir fertugu og fjórir af þeim undir þrítugu. Það er því leitt að sjá að á þessum átta manna lista sem kjörinn var að engum fulltrúa yngri kynslóðarinnar hafi verið treystandi fyrir sæti á listanum.
Ég vona svo sannarlega að aðrir stjórnmálaflokkar falli ekki í sömu gryfju og Vinstri-grænir. Gríðarlega mikilvægt er fyrir flokkanna að koma ungu fólki ofarlega á framboðslista sína. Með ungu fólki koma aðrar áherslur og ný sjónarmið sem er mjög mikilvægt að komi fram í þeim erfiðu málaflokkum sem Alþingi mun þurfa að fjalla um á næstu vikum og mánuðum.
Ég skora á alla til þess að gefa unga fólkinu tækifæri í komandi prófkjörum. Nægt er framboðið og tækifærin til að koma þeim ofarlega á lista eru til staðar. Því er það þáttakan og stuðningurinn sem mun ráða úrslitum.
- Vanhugsuð friðun - 10. janúar 2012
- Obama náði Osama - 5. maí 2011
- Stjórnlagaþingsklúður - 29. nóvember 2010