Efnahagsmálin eru mál málanna í dag. Tekjur ríkisins hafa dregist verulega saman auk þess sem ábyrgðir hafa fallið á ríkissjóð. Ljóst er því að lítið verður til skiptanna úr ríkiskassanum næstu misserin og við því verður að bregðast. Forystumenn núverandi ríkisstjórnar hafa gefið „hressilegum“ skattahækkunum undir fótinn, líkt og Indriði H. Þorláksson ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis hefur orðað það. Nú er staða íslenskra heimila og fyrirtækja veik sökum hárra vaxta og verðbólgu. Atvinnuleysi vex og fyrirtækin reyna að halda fólki í vinnu með því að lækka starfshlutfall og laun starfsmanna sinna frekar en að grípa til uppsagna. Fjölskyldur berjast við að greiða af lánum sínum og fyrirtæki sligast undan háum fjármagnskostnaði og slæmu aðgengi að lánsfé. Ég met stöðuna svo að fólkið í landinu og fyrirtækin megi ekki við frekari áföllum og tel því að skattahækkanir séu ekki sú leið sem ríkisstjórnin á að grípa til .
En hvernig má þá bregðast við tekjusamdrætti ríkisins? Nær öll heimili landsins glíma nú við þetta sama verkefni. Þau bregðast við á þann hátt að draga saman í rekstri, hagræða í innkaupum og segja upp óþarfa fastakostnaði. Ríkið verður að gera slíkt hið sama, þ.e. skera þarf burt alla fitu, leggja niður og sameina stofnanir, slá verkefnum á frest og leita við hverja ákvörðun hagkvæmustu lausna. Slíkar hagræðingaraðgerðir eru óvinsælar og eflaust óþægilegt fyrir stjórnmálamenn að standa fyrir þeim. En nú þarf íslenska þjóðin einfaldlega á hugrökku fólki að halda í framvarðasveit íslenskra stjórnmála sem hefur kjark til þess að taka erfiðar ákvarðanir. Að öðrum kosti munu komandi kynslóðir fá það hlutskipti að standa skil á okkar rekstrarkostnaði og slíkt er ekki verjandi.
Við niðurskurðinn skiptir rétt forgangsröðun mestu máli og að gætt sé jafnræðis í aðgerðum. Forgangsatriði er að þjónusta sem snýr að öryggi landsmanna verði ekki skert sem og aðgengi að grunnþjónustu.
Íslendingar þurfa nú að snúa bökum saman og leggja á hin úfna sæ sem framundan er næstu mánuði. Ef við leggjumst saman á árarnar munum við komast að settu marki fyrr en ella. Markmiðið er að búa svo um hnútana að Íslendingar framtíðarinnar fái alist upp við bestu mögulegu lífsgæði í frjálsu og opnu landi þar sem tækifæri einstaklingsins til að njóta afraksturs eigin verka eru fyrir hendi.
Unnur Brá sækist gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og sækist eftir 2. sæti.
- Framtíðin sem við skuldum - 30. nóvember 2020
- Alþingi í gíslingu - 11. júlí 2009
- Tækifæri til að efna fögur fyrirheit - 16. júní 2009