Með hruni hins „óraunverulega“ bankahagkerfis ríður yfir samfélagið bylgja mikillrar trúar á allt sem er raunverulegt og konkret. Nú á sko að fara að búa til alvöru efnisleg verðmæti og ekkert rugl. Það er í sjálfu sér eðlileg leiðrétting frá því hugarfari sem ríkti fyrir skömmu en hins vegar má ekki skipta oftrú á skuldsettar yfirtökur út fyrir oftrú á matvælaframleiðslu og álbræðslu. Heimurinn þarf ekki tvöfalt meiri mat og bíla en áður.
Einn helsti lærdómur af kreppum seinustu ára ætti í raun að vera að draga ekki af þeim of mikinn lærdóm. Þegar netbólan sprakk upp úr aldamótum tóku menn eftir að meðan allt hrundi hélt húsnæðisverð þó sínu striki. Af þessu drógu menn þann „lærdóm“ að húsnæðisverð hlyti að vera eitt af þessu sem myndi alltaf hækka. Þessi fíni „lærdómur“ leiddi svo til þess að allir vildu kaupa húsnæði, allir vildu gera upp gamalt húsnæði, allir vildu byggja húsnæði og allir vildu lána öllum til að gera þetta allt saman.
Þessi mikla fjórveggjatrú styrkti sjálfa sig með hverjum mánuði hækkandi íbúðarverðs og dreif að einhverju leyti áfram hinn mikla vöxt bankakerfis um allan heim. En það var ekkert fleira fólk til að búa í öllum þessum nýju húsum sem byggð voru. Og þegar of fáir vilja búa í mörgum húsum getur markaðurinn aðeins gert eitt.
Nú, eftir bankahrunið, líta menn aftur í kringum sig og reyna að draga nýja og betri lærdóma. Á meðan óskiljanlega spilaborgin með skuldabréfavafningum, undirmálslánum og öðrum nýþýddum hugtökum hefur hrunið virðist gamla góða fiskvinnslan enn tóra. Menn hugsa því með sér: „Auðvitað gat engin orðið ríkur á því að reka banka á Íslandi. Banki skapar engin raunveruleg verðmæti. Miklu betra að framleiða bara mat. Það þurfa allir mat!“
Það virðast því ansi margir bitið það í sig að dagar kapitalismans og þar með hinna „óþörfu milliliða“ séu taldir. Nú muni allir þurfa að gera eitthvað konkret; veiða fisk, slátra lömbum, rækta tómata og framleiða ál. Þetta hafa margir stjórnmálamenn tekið óstinnt upp. Nú á að veiða fleiri hvali og reisa fleiri álver. Þær framkvæmdir sem ríkið skal ráðast í eiga svo að vera sem mannaflfrekastar (les: óhagkvæmar). Allir eiga að vinna við eitthvað alvöru, og helst að nota til þess skóflu.
Ekkert af þessu er í sjálfu sér slæmt. Höfum það hins vegar í huga að alls staðar í heiminum eru menn að hugsa nákvæmlega það sama og við. Alls staðar í heiminum eru stjórnmálamenn að fara reisa álver til að rétta við atvinnuástandið, alls staðar eru menn að fara efla „alvöruframleiðslu“ um leið og þeir hæða þær kjánalegu loftkenndu hugmyndir sem einkenndu skeiðið á undan. En þörfin á mat, áli og öðrum konkret hlutum verður ekki margfalt meiri en hún var í gær.
Allar hugmyndir sem mistakast hljóma asnalega eftir á. Þann dag sem Coca-Cola fer á hausinn munu allir banka í ennið á sér og segja: „Hvernig datt einhverjum í hug að hann gæti orðið ríkur af því að menga drykkjarvatn með óþörfum litarefnum, bragðefnum og hitaeiningum?“ Þann dag sem tyggjóframleiðsla hrynur munu allir skyndilega átta sig á hve pointless hlutur tyggjó er. Og þá verða hausar hristir. Líkt og þeir hristast nú yfir þeirri hugmynd okkar Íslendinga að við yrðum dag einn rík út af bankarekstri.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021