Íslenskt efnahagskerfi hrundi þegar hrikti í stoðum alþjóðlegra fjármálamarkaða, ekki vegna þess að það gerðist. Það liggur fyrir að þrír stærstu bankar landsins urðu ógreiðslufærir og þar með gjaldþrota. Þessir þrír bankar voru þrjú stærstu fyrirtæki landsins, greiddu hæst opinber gjöld og hæstu launin að meðaltali. Þegar þetta gerðist varð fullt af öðrum fyrirtækjum gjaldþrota og venjulegt fólk missti stóran hluta af sínum sparnaði. Lífeyrissjóðir landsmanna töpuðu miklu af eignum almennings. Tengsl eins stærsta stéttarfélags landsins við stærsta banka landsins er í besta falli siðferðislega vafasöm og kallar á rannsókn á því hvort uppi séu sambærileg tilvik. Sú rannsóknarvinna er hafin og henni er stýrt af vel völdu fólki.
Í kjölfar þess að fjármálamarkaðir leiðréttu sig fyrir áhættu féll íslenska krónan um tugi prósenta. Þegar stærstu bankar landsins fóru í þrot varð að loka fyrir viðskipti með krónuna og setja reglur sem hamla mjög viðskiptum með gjaldmiðilinn. Í kjölfarið situr fullt af venjulegu fólki uppi með lán sem það á ekki möguleika á að greiða nokkru sinni til baka, þrátt fyrir góðan vilja. Þetta hrun átti sér langan aðdraganda og var aðeins að hluta fyrirséð. Þótt vandinn sem við er að etja sé alvarlegur víða um heim, hefur höggið verið þyngst hér á landi. Ástæður þess eru raktar víða, en þær helstu voru peningastefna ríkisins, rekstur bankanna og lítið aðhald við þá og eigendur þeirra frá öllum hliðum samfélagsins.
Á þessu ber Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgð. Hrunið varð á vakt flokksins, flokksins sem fyrir síðustu kosningar bauð fram undir loforði um efnahagslegan stöðuleika. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn beri mikla ábyrgð er það ekki svo að flokkurinn geri það einn, það gera aðrir flokkar einnig. Ráðherra bankamála var úr röðum framsóknarmanna frá 1995 – 2006, og Samfylkingar í Þingvallarstjórn Geirs Haarde og er núverandi viðskiptaráðherra þar í umboði Samfylkingar. Björgvin G. Sigurðsson fyrrum bankamálaráðherra hefur opinberlega talið sér það til tekna að hafa ekki rætt við Seðlabankastjóra í meira en eitt ár fram að hruni bankanna vegna persónulegs ágreinings milli þeirra tveggja um Evrópusambandið! Enda tók formaður Samfylkingarinnar allar ákvarðanir flokksins þegar á reyndi, t.a.m. við fall Glitnis.
Það er þyngra en tárum taki að sumrinu 2008 eyddu stjórnmálamenn í gerð áætlana og karps um komu ísbjarna til Íslands í stað þess að bregðast við lausafjárkreppu sem var löngu komin út fyrir Bandaríkin. Einhverjir hefðu talið við hæfi að hægja á útibúavæðingu íslenskra banka með ábyrgð skattgreiðenda, en sú ábyrgð var lögfest árið 1999. Vitandi það sem ráðamenn vissu.
Þótt aðrir flokkar og einstaklingar beri einnig ábyrgð á því hvar þjóðin er stödd, verður Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur að axla sína ábyrgð, sama hvað aðrir gera. Hvernig flokkurinn gerir það mun ráða því hvort hann verður áfram leiðandi afl í stjórnmálum á Íslandi eða ekki.
Sjálfstæðismenn verða að segja stopp við vina- og frændavæðingu stjórnmálanna. Það þjónar engum tilgangi að benda á að aðrir flokkar stundi slíkt hið sama. Sjálfstæðismenn eiga heimtingu á því á að fulltrúar flokksins geri grein fyrir þeim hagsmunaárekstrum sem kjörnir fulltrúar kunna að standa frammi fyrir. Sjálfstæðismenn eiga að gera þá kröfu til sinna fulltrúa að þeir virði stefnu flokksins, ekki aðeins á tyllidögum. Þetta geta sjálfstæðismenn t.a.m. gert með því að leita ekki til atvinnu-stjórnmálamanna. Við skulum velja sem mest af fólki sem þarf ekki á þingfarakaupi sínu að halda. Veljum hæfileikafólk sem er eftirsótt víðar en í flokknum. Bjóðum fram fjölbreyttan hóp fulltrúa sem virðir skoðanir almennra flokksmanna.
Í komandi kosningum ber flokknum að gera hreint fyrir sínum dyrum og játa sín mistök. Mögulega refsa kjósendur flokknum, þá það, það er þeirra réttur. Eftir sem áður skal flokkurinn vera skýr valkostur þeirra sem vilja búa við frjálst markaðshagkerfi. Það er nefnilega svo að hugmyndafræði um frelsi einstaklinga til orðs og athafna er ekki til vegna Sjálfstæðisflokksins heldur hann vegna þeirrar hugmyndafræði. Fólk sem aðhyllist þessar hugmyndir mun finna sinn farveg ef Sjálfstæðisflokkurinn bregst. Hugmyndabarátta mun eiga sér stað um framtíðarskipan mála á Íslandi, einhverjir munu vilja loka landinu og hverfa aftur til fortíðar, aðrir munu vilja byggja upp og endurheimta stöðu og virðingu Íslands. Hvert hlutverk Sjálfstæðisflokksins sem heildar verður í þeirri baráttu er undir flokksmönnum sjálfum komið. Göngum hreint til verks.
- Bankaleynd - 24. mars 2009
- Sjálfstæðisflokkurinn þarf að gera upp við valdaskeið sitt - 12. febrúar 2009
- Hver vann? - 31. janúar 2009