Hún var ansi hröð, atburðarás síðustu vikna í íslenskum stjórnmálum. Stöðugar fréttir dundu á landsmönnum, af síharðnandi mótmælum og fundarhöldum og ályktunum ýmissa stjórnmálaflokka og félaga. Á einni viku féll ríkisstjórn og ný tók við, sú fyrsta á Íslandi sem kona er í forsæti fyrir. Það kom hins vegar pistlahöfundi í opna skjöldu þegar hann rak augun í fyrirsögnina: „Samkynhneigðir erlendis fagna Jóhönnu“. Við Íslendingar áttum þá greinilega líka fyrsta opinberlega samkynhneigða einstaklinginn í heimi sem leiðir ríkisstjórn.
Réttindi samkynhneigðra á Íslandi eru með því allra mesta sem gerist í heiminum. Árið 1996 voru sett lög um staðfesta samvist samkynhneigðra sem veittu samkynhneigðum pörum svo til öll réttindi sem gagnkynhneigð hjón hafa. Árið 2006 var svo stoppað í götin og ýmis atriði lagfærð, til dæmis hvað varðar réttindi samkynhneigðra til ættleiðinga og tæknifrjóvgana. Pistlahöfundur þorir næstum því að fullyrða að nú sé staðan sú að lagalega standi samkynhneigðir og gagnkynhneigðir jafnfætis. Víglína réttindabaráttu samkynhneigðra er nú við að fá kirkjuna sem stofnun til að taka giftingar samkynhneigðra alfarið inn fyrir sínar dyr, en það mál er að mörgu leyti líka hluti af stærra máli sem er fyrirkomulag og hlutverk þjóðkirkjunnar.
Þótt fullkomið umburðarlyndi sé auðvitað eitthvað sem næst yfir lengri tíma endurspeglar þetta lagalega réttlæti að sjálfsögðu mikið umburðarlyndi þjóðarinnar gagnvart samkynhneigðum. Stór hluti Íslendinga flykkist niður í bæ til að fagna Hinsegin dögum ár hvert og nú er samkynhneigð kona forsætisráðherra Íslands.
Fæstir sem pistlahöfundur ræddi við höfðu hugmynd um að Jóhanna Sigurðardóttir væri samkynhneigð, þótt það stæði á heimasíðu Alþingis og hún væri ráðherra í ríkisstjórn sem víða teldist fréttnæmt. Í fréttum að undanförnu hefur síðan varla verið minnst á að hún væri fyrsti samkynhneigði forsætisráðherra heims nema helst þegar verið er að segja frá fréttum erlendra fjölmiðla. Íslenskir fjölmiðlar og almenningur sáu minni ástæðu til að fjalla um þetta sérstaklega. Í því felst kannski sterkasta merkið um umburðarlyndi Íslendinga:
Það er öllum sama hvort forsætisráðherra er karl, kona, gagnkynhneigður eða samkynhneigður. Það skiptir bara engu máli.
- Hvernig rekur ríki hausinn í skuldaþak? - 5. ágúst 2011
- Goðaveldi Alþjóðasamfélagsins - 13. apríl 2011
- Vill íslenska þjóðin stjórnlagaþing eða -ráð? - 1. mars 2011