Í vikunni var skipaður nýr dóms- og kirkjumálaráðherra, Ragna Árnadóttir. Þrátt fyrir fyrirfram ákveðinn stuttan líftíma ríkisstjórnarinnar liggur á hennar borði fjöldi mikilvægra mála sem úr þarf að leysa.
Fyrst má nefna að í verkefnaskrá Samfylkingar og VG segir að hafist skuli handa við setningu nýrra reglna um skipan héraðs- og hæstaréttardómara. Skipan dómara fellur, samkvæmt núgildandi lögum, undir verksvið dómsmálaráðherra og verður spennandi að sjá hvaða breytingar nýja ríkisstjórnin hyggst gera á þeirri framkvæmd. Ekki þarf að hafa mörg orð um það hversu mikilvægt er að ekki verði rokið í breytingar nema að vel athuguðu máli. Reglur og öll umgjörð um skipan dómara þarf einfaldlega að vera mjög vönduð. Einnig má nefna fjöldann allan af laga- og reglubreytingum sem fyrrnefnd verkefnaskrá ber með sér að séu burðarliðnum. Má þar nefna stjórnlagaþing, stjórnarskrárbreytingar, breytingu á lögum um ráðherraábyrgð, setningu siðareglna í stjórnarráðinu og breytingu á eftirlaunalögum.
Þessi atriði eru þó e.t.v. ekki þau mikilvægustu sem liggja fyrir dómsmálaráðherra, því ráðherra þarf allt í einu að standa í því að verja réttindi borgaranna gegn áhlaupi VG. Það kemur nefnilega fram í fyrrgreindri verkefnaskrá að kanna eigi hvort styrkja megi lagaheimildir til að unnt verði að kyrrsetja eignir, ef slíks er þörf, til að tryggja hagsmuni þjóðarbúsins, að virtum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Rétt er að taka fram að orðalag þessa verkefnaliðs hefur tekið stakkaskiptum frá því að þessi hugmynd kom fyrst fram. Í fyrstu var talað um kyrrsetningu eigna óafmarkaðs hóps auðmanna og hvergi minnst á neitt tillit til stjórnarskrár.
Að virða ákvæði stjórnarskrár við slíka framkvæmd er í sjálfu sér virðingavert, en erfitt er að sjá fyrir sér hvernig það er framkvæmanlegt. Hér er jú verið að tala um stjórnarskrárvarinn rétt “auðmannanna” á eignum sínum fyrir svo utan þá staðreynd að slík úrræði eru samkvæmt núverandi lögum um meðferð sakamála bundin við eignir sakborninga og þeirra sem sætt hafa ákæru.
Með þessu væri ríkisstjórnin að stytta sér leið og gera ákveðnar “varúðarráðstafanir”. Kyrrsetja eignir, bara til vonar og vara, ef svo skyldi fara að menn sem hugsanlega eru sekir um refsiverða háttsemi reyndu að koma þeim úr landi. Í þessari setningu eru ansi mörg vafaatriði. Hér væri verið að beita þvingunarúrræðum gegn handahófskenndum einstaklingum sem e.t.v. hafa það eitt til saka unnið að vera viðriðnir bankastarfsemi.
Óþarfi er svo að reifa sjónarmið um hversu slæm þessi styttri leið er fyrir réttarvernd þessara manna, þau mannréttindi sem slík meðferð brýtur og sú staðreynd að hér er höggvið nærri grunnstoðum réttarríkisins. Þessi sjónarmið þekkja allir.
Núgildandi lög um meðferð sakamála gera ráð fyrir kyrrsetningu eigna. Henni skal beita gegn sakborningi eða manni sem sætir ákæru ef hætta er talin á að eignum sé skotið undan, þær rýrni eða tapist. Þessi heimild er góð og gild og er því engin ástæða til að bæta við hana frekar. Hröð en jafnframt vandvirk rannsókn á háttsemi þessara auðmanna er lykillinn að því að slíkum úrræðum sé beitt og ættu áherslur nýrrar ríkisstjórnar þvi að liggja á rannsókn mála auðmannanna en ekki þeim úrræðum sem beitt verður í kjölfar þeirra.
- Sæmdarréttur – réttur til höfundaheiðurs - 3. maí 2011
- Sæmdarréttur – nafngreiningarréttur - 2. maí 2011
- Gull og grænir skógar - 5. júlí 2009