Ein sú stétt sem nýtur hvað mest trausts almennings eru læknar. Þegar þeir tala, þá hlustum við og þegar þeir ráðleggja okkur, þá tökum við á þeim mark – enda treystum við þeim fyrir lífi okkar. Það er því háalvarlegt mál þegar þeir misnota það traust sem þeir hafa öðlast á faglegum grunni til að ýta undir fylgi við pólitískar skoðanir sínar.
Í fréttum sjónvarps síðastliðinn þriðjudag var fjallað um aukna áfengisneyslu sem afleiðingu af áföllum og streitu. Viðmælandi fréttamanns var geðlæknirinn Andrés Magnússon. Andrés stóð sig vel framan af og ræddi af þekkingu um reynslu annarra þjóða af svipuðum áföllum og sú íslenska gengur nú í gegn um.
Þegar líða tók að lokum viðtalsins kom hins vegar hálf-furðulegt útspil hjá lækninum; hann lagði mikla áherslu á að brugðist yrði við versnandi geðheilbrigði þjóðarinnar með pólitískum hætti en ekki læknisfræðilegum. Í kjölfarið lýsti hann því svo yfir (í styttu máli undirritaðs) að finna þyrfti sökudólga og refsa þeim, því fólk myndi ekki líða betur og ná sér af streitunni fyrr en því fyndist réttlætinu fullnægt. Andrés vísaði ekki í rannsóknir eða aðra sérfræðinga máli sínu til stuðnings. Hvað þetta kemur fylgni áfengisneyslu og streitu við má svo Guð vita.
Andrés þessi hefur lengi setið við hirð spjallþáttakonungsins Egils Helgasonar og meðal annars komið í þáttinn til hans til að lýsa því sem helst mætti kalla andúð á íslenskum útrásarvíkingum og bankamönnum. Nú fyrir nokkrum dögum birtist í ofanálag pistill eftir Andrés á bloggi Egils þar sem hann kallar eftir blóði auðmannanna og lýsir sjö leiðum almennings til að „ná til baka“ eignum þeirra.
Andrési er að sjálfsögðu frjálst að segja skoðanir sínar með þessum hætti. Andrés ætti hins vegar að muna að það er tvennt ólíkt að tala sem læknir og að tala sem áhugamaður um efnahagsmál og pólitík. Þegar Andrés talar sem læknir, þá ætti hann að láta vera að reyna að vinna pólitískri skoðun fylgis á læknisfræðilegum grundvelli, og öfugt. Það er í besta falli klaufalegt að pranga stjórnmálaskoðunum sínum upp á fólk í dulbúningi faglegrar niðurstöðu – í versta falli siðlaust.
En þessi yfirsjón Andrésar gerir í sjálfu sér lítið til. Því þegar upp er staðið verða þeir seku vonandi dæmdir sektar sinnar vegna – en ekki til að svala hefndarþorsta þjóðarinnar eða draga úr streitu.
- Borg án sýningarstjóra - 7. desember 2015
- Kombakk plötunnar - 25. ágúst 2015
- Hugleiðing um tjáningarfrelsi - 4. maí 2015