Játningar útrásarvíkings

Viðtal við Bjarna Ármannssonar í Kastljósi fyrir stuttu vakti mikla athygli og umræðu, þar sem hann viðurkenndi að hafa líklega gert mistök á ýmsum tímapunktum. Þá vakti endurgreiðsla hans á hluta launa sinna líka athygli. Minni athygli fengu hins vegar miklu skýrari játningar annars útrásarvíkings mun fyrr.

Viðtal við Bjarna Ármannssonar í Kastljósi fyrir stuttu vakti mikla athygli og umræðu, þar sem hann viðurkenndi að hafa líklega gert mistök á ýmsum tímapunktum. Þá vakti endurgreiðsla hans á hluta launa sinna líka athygli. Minni athygli fengu hins vegar miklu skýrari játningar annars útrásarvíkings mun fyrr.

Í viðskiptaþætti Björns Inga Hrafnssonar, Markaðnum, þann 25. október síðastliðinn var Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavarar og annar svokallaðra Bakkabræðra gestur Björns Inga. Þar viðurkennir hann alveg að eigin frumkvæði að hafa misnotað stöðu sína sem stjórnandi Bakkavarar til þess að styðja við annað félag sem hann var einn af aðaleigendum að, þ.e.a.s. Kaupþing.

Hér að neðan er útprentun af hluta samtals þeirra Björns Inga og Lýðs í umræddu viðtali, þar sem Lýður var spurður um stöðu fyrirtækja sem þeir bræður tengjast.


Lýður Guðmundsson: Hvað varðar Bakkavör þá er staðan erfið, og hún er erfið vegna þess að Bakkavör átti miklar innistæður hjá Kaupþingi þegar bankinn féll, en við höfðum sent allt laust fé Bakkavarar á reikning hjá Kaupþingi banka í Reykjavík, rétt áður en þau tíðindi urðu að það var ráðist inn í bankann á Bretlandi.

Björn Ingi Hrafnsson: Hvers vegna var það gert?

LG: Það var gert til þess að standa vörð um bankann. Við fluttum heim 150 milljón pund eða um 30 milljarða inn á reikning.

BIH: Bara örfáum dögum áður en þetta gerðist?

LG: Já þetta er í lok september. Nú, þetta fé er fast og fæst ekki laust, en það að sjálfsögðu mun fást einhverntímann, en á meðan er staðan erfið hjá Bakkavör.

Stjórnendur Bakkavarar, sem eru í sínum stöðum til þess að gæta hagsmuna Bakkavarar, ákváðu sem sagt að setja allt laust fé fyrirtækisins inn á reikning í Kaupþingi, og settu þar með stöðu fyrirtækisins í uppnám. Með því fórnuðu þeir ákveðnum hagsmunum Bakkavarar til þess að verja hagsmuni annars fyrirtækis, Kaupþings, sem þeir áttu stóran eignarhlut í og þeir óttuðust greinilega að kynni að lenda í vandræðum.

Þessi gjörningur er, að mati pistlahöfundar, lýsandi fyrir þá stjórnarhætti sem stórir hluthafar í almenningshlutafélögum á Íslandi hafa leyft sér að viðhafa undanfarin ár. Þetta er sama mynstur og rætt hefur verið um að stór hluthafi notar almenningshlutafélag til að styðja við aðra hagsmuni sína sem koma minni hluthöfum ekki neitt við.

Þá er það enn meira lýsandi að þetta hafi stjórnarformaður Bakkavarar sagt í sjónvarpi án þess að hika. Hann hefur líklega talið sig vera að gera það rétta með því að standa vörð um Kaupþing á ögurstundu en ekki gert sér grein fyrir skyldum sínum gagnvart öðrum hluthöfum Bakkavarar.

Rúsínan í pylsuendanum er svo sú að fyrir utan örlítið hik á Birni Inga í viðtalinu þá hafa fjölmiðlar ekki sýnt þessu máli neina athygli á tímum þar sem slegist er um skúbb um bankahrunið. Pistlahöfundur hefur engar samsæriskenningar um að það sé vegna ítaka eða óeðlilegra afskipta af fjölmiðlum heldur telur hann að það sé einfaldlega vegna skilningsleysis á málinu og eðli þess og þar liggur kannski stærsti vandinn:

Það héldu bara allir að þetta væri allt í lagi.