Hörðustu Evrópusambandshatar hefðu ekki getað gert framsýnu fólki Sjálfstæðisflokknum meira ógagn en hinir meintu Evrópusinnar í Samfylkingunni. Taugaveiklun og óþolinmæði Samfylkingarfólks valda málstað Evrópusinna í öllum flokkum töluverðum skaða. Var viljinn til að koma sjálfum sér og Davíð Oddssyni frá völdum svo mikill að ekki væri hægt að bíða í nokkra daga svo fjölmennasti flokkur landsins gæti endurskoðað stefnu sína í Evrópumálum?
Við skulum hafa eitt á hreinu. Davíð Oddsson átti ekki að sækjast eftir embætti seðlabankastjórara, það embætti hefði ekki átt að bjóða honum, hann hefði ekki átt að taka því, hann hefði átt að hætta þegar ljóst var að persóna hans eitraði fyrir stjórnarsamstarfinu á erfiðum tímum og ef aðrar leiðir hefði þrotið þá hefði átt að láta hann fara. Að mínu leyti hefði sama mátt gilda um marga ráðherra.
Ég skil og tek undir kröfur um mannabreytingar í ríkisstjórn og Seðlabanka. En stundum verður að horfa á stóru myndina. Sjálfstæðisflokkurinn hafði sett í gang svokallaða Evrópunefnd til að reyna að brúa bilið milli þess sem (talið var) helsta ágreiningsefni stjórnarflokkanna. Hér gafst Evrópusinnum innan Sjálfstæðisflokksins einstakt tækifæri til að færa rök fyrir máli sínu. Þetta hefðu átt að vera gleðifréttir fyrir Samfylkingarfólk.
En þá byrjaði fjörið. Rétt eins og það væri ekki nægilega augljóst að vinna Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins væri leið til að koma til móts við stefnu samstarfsflokksins þá hóf forysta Samfylkingarinnar að setja fram hótanir um stjórnarslit ef sjálfstæðismenn færu ekki að hennar óskum. Menn geta svo giskað á hvort þetta hafi gert málefnastarf Evrópusinna innan Sjálfstæðisflokksins auðveldara eða ekki.
Á nokkrum dögum í janúar fór Samfylkingin svo á taugum og sleit því samstarfi sem líklegast var til að leiða ESB-umsókn Íslands til lykta. Út frá sjónarhóli Evrópusambandssinna er staðan nú þessi: Í stað þess að hafa ríkisstjórn Samfylkingarinnar og evrópuhneigðs Sjálfstæðisflokks sjáum við fram á stjórn höfuðlausra krata og hins þjóðlega kommaflokks. Það sem meira við sjáum fram á kosningar með líklegri framrás hinna ESB-tortryggnu vinstri grænna og Sjálfstæðisflokki sem er mun minna opinn gagnvart ESB en ella hefði verið. Ekkert af þessu er ESB-aðild Íslands til framdráttar.
Sjálfstæðisflokkur sem leitt hefði aðildarviðræður væri augljóslega mun opnari í garð aðildar en Sjálfstæðisflokkur sem ekki hefði tekið þátt í þeim. Og sé reynsla annarra Norðurlandaþjóða skoðuð þá þarf jáið á öllum helstu stjórnmálaflokkum að halda til að eiga möguleika á sigri. En því miður hefur Samfylkingin ekki gert sitt til að breikka já-fylkinguna. Þvert á móti. Framkoma hennar seinustu vikur er fullkomið dæmi um hvernig óþolinmótt og örvæntingarfullt fólk getur tekið ágætis stöðu, og fokkað henni upp.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021