Það kemur væntanlega engum á óvart að sjá hversu vel Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti lands og lýðs, naut sín í embættisverkum sínum í gær við úthlutun ríkisstjórnarumboðs. Það er augljóst að maðurinn er fæddur til að gegna embættinu. Þvílík og endæmis fagmennska sem draup af forseta vor á sér vart fordæmi. Flestir fylltust lotningu þegar þeir sáu bíl forsætisráðherra nálgast Bessastaði. Fyrir mörgum var margra mánaða barátta mótmælenda að ná hámarki, þegar fráfarandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, tilkynnti forseta vorum, að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefði verið slitið.
Forsetinn tók að sjálfsögðu vel á móti Geir, enda hafði hann látið sig dreyma um þessa stund í nákvæmlega sautján og hálft ár. Einhverjir ómálefnalegir myndu halda því fram að hann hefði einvörðungu boðið sig fram til þess að fá að upplifa þann dag að Sjálfstæðisflokkurinn myndi renna á hlað Bessastaða og gefa frá sér stjórnarmyndunarumboðið, þingrofsréttinn og afhenda vorum forseta valdið til stjórnarmyndunar.
Það hefur sýnt sig að með þrautsegju má ýmsa sigra vinna. Einhverjir hafa lagt það á sig að flakka milli flokka til að ná árangri. Ef það hefur ekki dugað þá hefur það gefið sér vel að skoða ný embætti, en forseti vor er hlutlaus talsmaður þjóðarinnar og fyrir það erum við þakklát – því ekki vildum við að pólitík myndi blandast inn í embættið.
Nú er landslagið hins vegar breytt í íslenskum stjórnmálum og væntanlega verður mynduð vinstri stjórn til að stýra landinu næstu mánuði, en hún situr ekki á friðarstóli líkt og ætla mætti.
Forseti vor setti fram fjögur skilyrði um hvernig næsta ríkisstjórn ætti að starfa, ásamt því að tilkynna fjölmiðlum að nú hefði þingrofsvaldið flust yfir til hans – þar sem að starfsstjórn undir forystu Geirs H. Haarde forsætisráðherra hefði gefið frá sér öll völd í þeim efnum. Þessi túlkun forsetans á lögum hins háa Alþingis er áhugaverð í ljósi þess að þar hefur hann setið og starfað sem þingmaður. Undirliggjandi hótun forsetans um utanþingsstjórn fór ekki framhjá neinum sem fylgdist með áhugaverðri atburðarráðs á Bessastöðum í gær.
Forsetinn hefur ofmetið völd sín – það er ljóst, hann misbýður þingheimi og sýnir lýðræðislega kjörnum þingmönnum og stjórnmálaflokkum þeirra vanvirðingu. Með því að gera það sýnir hann jafnframt almenningi og kjósendum sem kusu fráfarandi stjórnvöld og þeim sem mótmælt hafa að undanförnu og fagna nýrri ríkisstjórn, fullkomna vanvirðingu. Það er ekki forsetans að setja þinginu afarkosti. Forsetinn á að vera hlutlaus tákngervingur þjóðarinnar – okkar allra, en ekki ákveðinna pólitískra hreyfinga í samfélaginu. Hlutverk hans í stjórnarmyndun á ekki að vera pólitískt. Pólitísk afskipti hans eru vinsamlega afþökkuð. Í ljósi framkomu forseta Íslands gagnvart lýðræðislega kjörnum fulltrúum hef ég hugleitt hvort ekki sé orðið tímabært að heimsækja Bessastaði?
- Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka - 30. mars 2021
- Má ég faðma þig? - 13. janúar 2021
- Til hamingju Frú Vigdís - 15. apríl 2020