Formaður vinstri grænna var loksins spurður af forsætisráðherra í Kastljóssviðtali í vikunni um það hvað hann vildi gera í þeirri stöðu sem komin er upp. Það stóð á svari hjá formanninum enda vanur að gagnrýna allt frekar en að þurfa að koma með lausnir á vandanum. En fréttamaður lét formanninum það ekki eftir að komast hjá spurningunni og þá kom svarið – slíta ber samstarfinu við AGS og skila láninu!
Að slíta samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og skila láninu væri glapræði og heimskuleg skilaboð til umheimsins, eins og Gylfi Zoega hagfræðingur komst að orði í hádegisfréttum ríkisútvarpsins í dag. Lánið frá alþjóðagjaldeyrissjóðnum er ekki tekið til þess að veita því út í þjóðfélagið eða til þess að borga erlendar skuldir þjóðarinnar. Það er tekið til þess að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð, til þess að verja krónuna mögulegum árásum sem gætu gert stöðu þjóðarinnar enn verri en nú er og til þess að eiga varasjóð til að kaupa erlendar nauðþyrftir ef í harðbakkann slær. Menn skulu átta sig á því að AGS er okkar lánaveitandi til þrautavara, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og enginn annar banki eða ríkisstjórn í heiminum vill lána okkur peninga.
Ef svo óheppilega vildi til að formaður vinstri grænna fengi sínu fram og sliti samstarfinu við alþjóðagjaldeyrissjóðinn hvernig ætlar hann þá að bregðast við ef erlendir vogunarsjóðir gerðu árás á krónuna? Hvernig myndi hann bregðast við ef að það vantaði gjaldeyri til þess að kaupa olíu og nauðþurftir inn í landið? Hann myndi kannski fara í gönguferð um hálendið og passa sig á því að láta ekki ná í sig, eins og þegar eftirlaunafrumvarpið var samþykkt á alþingi?
Orð formannsins sýna að þegar vinstri grænir eru krafðir um lausnir verður fátt um ábyrg svör. En því miður gerist það alltof sjaldan að þeir séu inntir eftir svörum og fjölmiðlar virðast láta sér nægja endalausar gagnrýnisræður sem svör við mikilvægum spurningum. Það vakti athygli undirritaðs að eftir kastljósviðtalið í vikunni, þar sem forsætisráðherra og formaður vinstri grænna sátu fyrir svörum og formaður vinstri grænna var beðinn um að koma með hugmyndir (NB. eftir áeggjan forsætisráðherra frekar en fréttamanns), að engum fjölmiðli fannst þessi vitleysa formannsins fréttnæm. Eftir viðtalið birtu flestir vefmiðlar fregnir af orðum forsætisráðherra um tímasetningu kosninga en enginn birti fréttir af hugmyndum eða hugmyndaleysi formanns vinstri grænna. Orð formannsins hafa hins vegar vakið mikla athygli í þjóðfélaginu og verið á allra vörum – nema fjölmiðla. Meira að segja fréttin með viðtalinu við Gylfa Zoega í hádegisfréttum ríkisútvarps í dag, laugardag, sem næst hefur komið að því að fjalla um málið, tengdi ekki orð Gylfa við orð formannsins. Heldur þykir undirrituðum fjölmiðlar nú orðnir slappir og meðvirkir.
Formaður vinstri grænna, sem stór hluti kjósenda virðist nú líta á sem einhvern lausnara, verður seint talinn hugmyndaríkur maður. Hann er mælskur mjög, öflugur stjórnmálamaður sem veitir nauðsynlegt aðhald og gagnrýni við mörg umdeild mál, það má hann eiga. En forði okkar allar vættir frá því að hann verði nokkurn tíma forsætisráðherra.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009