Það skiptir mestu máli í núverandi efnahagsþrengingum að ríkisstjórnin eyði óvissu, skapi trúverðugleika, vinni að rannsókn bankahrunsins og endurreisi fjármálakerfi landsins. Ríkissjóður er kominn með bankakerfið í hendurnar og þar af leiðandi örlög og rekstur helstu atvinnuvega landsins. Líklega má nærri láta að flest þekkt flutningafyrirtæki (í lofti og á láði), byggingaverktakar, framleiðslufyrirtæki og þjónustufyrirtæki séu komin í ríkiseigu að meirihluta eða að öllu leiti. Það er því á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að halda utan um 4500 milljarða eignasafn landsmanna og standa vörð um þá endurskipulagningu sem nú fer í hönd. Það er gríðarlegt verkefni sem verður að takast vel og án allrar mögulegrar spillingar eða sóunnar. Það er verkefni sem verður að vinna hratt og af ábyrgð því slíkar eignir skemmast hraðar en opinberar byggingar.
Undirritaður er reiður yfir ástandinu eins og flestir aðrir. Reiður yfir því að þurfa að punga út fyrir græðgi annarra, reiður yfir meintum svikum og prettum í bankakerfinu og reiður yfir seinagangi og tregðu ríkisstjórnarinnar til að skapa trúverðugleika í mikilvægum fjármálastofnunum landsins. En undirritaður er ekki reiður út í lögregluna fyrir að verja opinberar byggingar og lýðræðið í landinu eða reiður út í óeigingjarna viðleitni forsætisráðherra til að takast á við vandann, dag og nótt. Miklu frekar er hann reiður út í tækifærissinnaða stjórnmálamenn sem engar hugmyndir hafa borið fram um lausn vandans eða ekkert hafa til málanna að leggja nema gagnrýni og hégóma.
Þeir mótmælendur, eða óeirðarseggir, sem safnast hafa saman niður í bæ undanfarin tvö kvöld og veist hafa að lögreglu við skyldastörf eru langt í frá þversnið af þjóðinni eða málsvarar hennar. Af myndefni fjölmiðla að dæma mætti álykta að þar hafi að megninu til verið um að ræða unglinga að „skemmta sér“, ógæfumenn að mótmæla eigin örlögum í bland við einstaka þenkjandi mótmælendur með málstað. En þrátt fyrir þessa lýsingu væri óréttlátt að afgreiða mótmælendur sem skríl. Fjöldi fólks með raunverulegan málstað hefur tekið þátt í friðsamlegum mótmælum allt frá bankahruninu í október. Þar hefur réttlát reiði og gagnrýni fundið skynsaman farveg þó svo að ályktanir um tafarlaus stjórnarslit séu vanhugsuð að mati undirritaðs.
Óráðlegt er að senda stjórnmálamenn út í sjálfhverfa kosningabaráttu fyrr en um hægist og tryggt er annars vegar að atvinnulífið geti haldið áfram uppbyggingu sinni og hins vegar að þeim sem brotið hafa lög gefist ekki tóm til að afmá spor sín. Það er skylda hvers samfélagsþegns um þessar mundir að standa vörð um réttlætið og skynsemina því annars verður okkur ókleift að byggja upp réttlátt samfélag. Varðstaðan felst ekki í því að veitast að lögreglu eða skemma opinberar byggingar heldur vega og meta þá valkosti sem eru til staðar af yfirvegun. Vilji fólk kosningar eru friðsamleg mótmæli, greinarskrif og undirskriftasöfnun farsælasti farvegurinn.
Forsætisráðherra og ríkisstjórnin hefur unnið dag og nótt frá því í október að vinna úr vandanum og einföldun væri að segja að ekkert hafi verið að gert. Það tókst að halda greiðslukerfi landsins gangandi og setja á laggirnar nýja banka til að þjóna landinu. Það tókst einnig að koma upp varasjóði til styðja við gengi krónunnar þar til framtíðarlausn finnst í gengismálum. En ríkisstjórnin hefur brugðist í upplýsingagjöf til almennings og jafnframt brugðist því kalli að skapa trúverðugleika í mikilvægum fjármálastofnunum landsins. Ef skipt hefði verið strax um yfirstjórn í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu eins og ályktað var skynsamlega um úr öllum áttum og ef nákvæmari upplýsingagjöf um aðgerðir og spár hefði verið veitt, þá má fullyrða að ríkisstjórnin stæði ekki frammi fyrir brjáluðum mótmælendum og mögulegum stjórnarslitum. Þá stæði þjóðin heldur ekki frammi fyrir þeim skaða sem tafarlaus stjórnarslit gætu haft í för með sér.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009