Hagsmunasamtök á Íslandi hafa í gegnum tíðina verið mjög sterk og oft haft mikil áhrif á ákvarðanir stjórnvalda. Stjórnvöld á Íslandi hafa borið mikla virðingu fyrir hagsmunasamtökum og skoðunum þeirra. Til þeirra er oft leitað til ráðlegginga í pólitískum málum og þá til þess að stjórnvöld fái önnur sjónarmið og aðrar áherlsur á þeim málefnum sem verið er að vinna að. Þetta á ekki síður við í stórum pólitískum málum og má þar meðal annars nefna dæmi um þátt hagsmunasamtaka í þjóðarsáttinni árið 1990.
Á næstu vikum og mánuðum mun mikið mæða á hagsmunasamtökum á Íslandi. Íslendingar munu ganga í gegnum mjög erfiða tíma, þar sem niðurskurður verður mikill og aðrar kjaraskerðingar tíðar. Mikilvægt er því að hagsmunasamtök leggi fram skýr og raunhæf markmið um þau réttindi sem þau telja að mikilvægt verði að halda í. Ljóst er að það mun verða skorið niður á flestum sviðum samfélagsins og því mikilvægt að hagsmunasamtök forgangsraði þeim málefnum sem þau vilja berjast fyrir.
Svo að hagsmunasamtök geti rekið trúverðuga hagsmunabaráttu þá er mjög mikilvægt að þau gæti hlutleysis gagnvart stjórnvöldum. Í gegnum tíðina hafa hagsmunasamtök á Íslandi oft þótt heldur nátengd stjórnmálaflokkunum. Algengt var, og enn er dæmi um, að sitjandi þingmenn eða aðrir fulltrúar stjórnmálaflokkanna sitji í stjórnum hagsmunasamtaka. Að mati höfundar dregur þetta úr trúverðugleika hagsmunasamtaka og getur komið í veg fyrir að þau geti unnið samviskulega og vel að málefnum skjólstæðinga sinna.
Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur verið öflugt hagmsunaafl stúdenta við HÍ frá stofnun þess árið 1920. Stúdentaráð hefur oft á tíðum náð merkum árangri og staðið vörð um hagsmuni stúdenta. Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta við Háskóla Íslands leggur mikið upp úr því að Stúdentaráð sé trúverðugur málsvari stúdenta. Vaka er þverpólitísk fylking stúdenta sem er óháð stjórnmálaflokkum og vinnur fyrir hag stúdenta. Vaka lætur önnur pólitísk þreytumál sem varða stúdenta ekki beint vera og einbeita sér því einvörðungu að hagsmunum og málefnum stúdenta.
Aldrei hafa fleiri stundað nám við Háskóla Íslands og er útlit fyrir að hann spili stórt hlutverk í uppbyggingu þjóðarinnar. Með fjölgun nemenda og takmarkaðara fjármagni verður hagsmunabarátta stúdenta enn mikilvægari. Það er því mikilvægt að hagsmunabaráttan sé leidd af þeim sem þjóna ekki tveimur herrum enda þjóna þeir alltaf öðrum þeirra verr en ella, stúdentar hafa ekki efni á því.
- Hið pólitíska hlutleysi íþrótta - 11. júlí 2021
- Umræðan innan stafbila - 14. júní 2021
- Uppgjörið sem bíður enn… - 13. maí 2021