„Gjaldþrot“ þykir ljótt orð á Íslandi, svo ljótt að jafnvel er hægt að ímynda sér það sem uppnefni á borð við það sem fram kemur í hér að ofan. Vissulega er sárt að eiga ekki fyrir skuldum sínum, og úr slíkri stöðu verður að leysa fyrr eða síðar. En fordómarnir gagnvart gjaldþrotalausninni eru miklir, og til skaða fyrir íslenskt efnahagslíf. Lagfæra þarf lög um gjaldþrotaskipti, endurskoða lánareglur á heildstæðan hátt, og vinna á órökstuddum fordómum gegn gjaldþrotum.
En það er ekki sama hvernig það er gert. Þótt margir hafi orðið til þess að gagnrýna gjaldþrotalögin, hefur meirihluti þeirra sem það hefur gert því miður ekki haft sérstaklega raunhæfar væntingar um hvað gæti komið í staðinn.
Markmið laga um greiðsluþrot á í meginatriðum að vera tvíþætt. Í fyrsta lagi skiptir máli að skýrt sé kveðið á um það í lögum hvernig lánadrottnar skipti með sér kröfum ef til þess kemur að skuldari geti ekki staðið skil á þeim öllum. Ef svo væri ekki yrði erfitt að semja um lán, þar sem ógjörningur væri að meta hverjar líkurnar væru á að tiltekin skuld yrði greidd. Í öðru lagi skiptir máli að lögin feli í sér hvata fyrir þá sem lenda í greiðsluerfiðleikum til að leggja hart að sér og reyna að afla tekna, frekar en að leggja árar í bát.
Í endurskoðun á úrlausnum fyrir skuldara skipta skammtímahagsmunir og lífsgæði skuldaranna sjálfra auðvitað máli, en það er þó varasamt að ætla slíkum úrræðum of stórt hlutverk í þeim efnum. Á Íslandi er ágætt samhjálparkerfi, sem tryggir ákveðna lágmarksafkomu fyrir þá sem ekki geta aflað hennar sjálfir. Þetta samhjálparkerfi mun nú þurfa að virkja til aðstoðar þeim sem hafa reist sér hurðarás um öxl. Ef reynt er að breyta lögum um greiðsluerfiðleika í samhjálparkerfi mun það óhjákvæmilega koma niður á þeim þáttum sem þeim er í raun og veru ætlað.
Því miður er ljóst að Íslensku lögin uppfylla ekki hlutverk sitt sérstaklega vel. Sá þáttur sem snýr að úrlausnum á ágreiningi milli einstakra lánadrottna virkar reyndar ekki svo illa, en þar sem lögin bregðast er í hvata einstaklinga til að byrja aftur að byggja upp eignir í kjölfar gjaldþrots.
Sá möguleiki lánadrottna til að rjúfa fyrningu skuldar eftir að skuldari hefur gengið í gegnum gjaldþrotaskipti er stærsti gallinn á lögunum. Jafnvel þótt ekki sé algengt að slíkt gerist þá skapar þetta ríkan hvata fyrir skuldarann að láta líta svo út að hann eigi sér ekki viðreisnar von þessi fjögur ár, því jákvæðar fréttir af fjárhag skuldarans eru líklegar til að valda því að fyrningin verði rofin. Þetta er sérstaklega líklegt í árferði á borð við það sem ríkir núna, því ýmsir gætu farið í þrot sem engu að síður eru líklegir til að hafa góðar tekjur í framtíðinni.
Að þessum breytingum gerðum mætti hugsa sér þríþætta útfærslu á greiðsluvandræðum einstaklinga, sem eru að hluta til afleiðing af ófyrirsjáanlegu gengishruni og verðbólgu, og að hluta til afleiðing af yfirdrifinni og gíraðri neyslu.
1: Greiðslujöfnun
Nú þegar hafa verið sett lög um greiðslujöfnun á verðtryggðum fasteignaveðlánum í krónum. Lögin voru þannig útfærð að sérstök greiðslujöfnunarvísitala, sem tekur mið af verðbólgu, en einnig af launaþróun, er notuð til að setja „þak“ á mánaðarlegar greiðslur. Ef greiðslujöfnunarvísitalan hækkar minna en verðlagsvísitala er mánaðarleg greiðsla reiknuð út frá greiðslujöfnunarvísitölu í staðin. Mismunurinn er þó ekki gjöf til skuldarans, því hann leggst við upprunalega lánið á greiðslujöfnunarreikning og vaxtareiknast með sömu vaxtakjörum.
Svipuð lög ætti nú þegar að setja um fasteignaveðlán í erlendum gjaldeyri. Í stað greiðslujöfnunarvísitölu væri eðlilegt að nýta raungengi krónunnar til að setja þak á mánaðarlegar greiðslur slíkra lána. Útfærslan gæti því verið þannig að svo lengi sem raungengi krónu er undir ákveðnu viðmiði þá sé greiðslan af láninu reiknuð út samkvæmt því gildi á gengisvísitölu sem hefði á greiðsludegi leitt til þess að raungengið hefði orðið jafnt viðmiðinu. Mismunurinn myndi leggjast við höfuðstólinn, í upprunalegri mynt lánsins, og á sömu vöxtum.
Þeir sem voru hófsamir í neyslu og fjárfestingum en lentu í vandræðum vegna gengisfalls og verðbólgu ættu ekki að eiga í vandræðum með að greiða af lánum eftir að greiðslujöfnun hefur verið beitt. Greiðslujafnaðar afborganir yrðu ekki til muna hærri en það sem rétt og eðlilegt var að gera ráð fyrir þegar lánið var tekið. Á sama tíma er ekki um eiginlega afskrift að ræða, og lánið fæst á endanum greitt. Reyndar er líklegt að greiðslujöfnun gjaldeyrislána myndi valda kostnaði hjá lánastofnunum, þar sem þeim bjóðast í flestum tilfellum ekki sömu kjör á erlendu lánsfé og áður. Til að gæta jafnræðis á milli ríkisrekinna og einkarekinna lánastofnana væri eðlilegt að ríkissjóður byði lánastofnunum að fjármagna þau lán sem yrði að veita inn á greiðslujöfnunarreikninga.
En sumir munu ekki geta greitt af lánum sínum, þrátt fyrir greiðslujöfnun. Í þeim tilfellum væri skynsamlegt að bjóða upp á nýtt úrræði, greiðsluaðlögun.
2: Greiðsluaðlögun
Víða tíðkast að lög um greiðsluerfiðleika bjóði upp á leið til að gangast undir skipti á eignum undir eftirliti dómara eða dómskvaddra matsmanna, án þess að til fullkomins gjaldþrots komi, svokölluð greiðsluaðlögun einstaklinga (e. individual debt adjustment). Í slíku ferli er kröfum skipt upp í forgangskröfur, veðkröfur og almennar kröfur með sjálfskuldarábyrgð. Skuldari á síðan fund með lánadrottnum, þar sem hann lýsir eiðsvarinn öllum eignum sínum. Óveðsettum eignum er ráðstafað til fullnaðargreiðslu á forgangskröfum og hlutagreiðslu á almennum kröfum, og sett er upp greiðsluáætlun fyrir greiðslu á eftirstöðum almennra krafna. Greiðsluáætlunin tekur mið af tekjum skuldara fyrir greiðsluaðlögun, og gert er ráð fyrir að meginþorri ráðstöfunartekna sé nýttur til greiðslu á almennum kröfum í fimm ár, en það sem eftir stendur að þeim tíma loknum er afskrifað.
Skuldari getur í sumum tilfellum haldið eignum sem á hvíla veð, oftast eigin húsnæði og bifreið, en skilyrði fyrir því er að veðlán séu greidd að fullu, og tekið er tillit til höfuðstóls eigna við ákvörðun greiðsluáætlunar almennra krafna. Hafi skuldari ekki bolmagn til að greiða af öllum veðlánum er gengið að þeim eignum sem ekki á að greiða af. Matsmaður hefur þó heimild til að takmarka möguleika veðhafa til að krefja skuldara um viðbótargreiðslur umfram eignina sjálfa. Slíkar takmarkanir eru nokkuð sem eðlilegt væri að skoða í tengslum við bílalán sem virðast í sumum tilfellum vera gerð upp á afar óhagstæðan hátt fyrir skuldarann.
Greiðsluaðlögun með þessu formi er að mörgu leyti svipuð nauðasamningum eins og þeir eru útfærðir á Íslandi. Helsti munurinn er að dómskvaddir matsmenn koma fyrr að málum og hafa meiri völd til að ákvarða kjör aðlögunarinnar en í nauðasamningum. Þótt samningar á milli lánadrottna og skuldara séu í mörgum tilfellum ágæt leið er þó sá galli á að íslenskt gjaldþrot er svo hagfellt lánadrottnum og óhagfellt skuldara að samningsaðstaða skuldarans er afskaplega slæm. En hvort sem um samninga eða ákvörðun matsmanns er að ræða getur komið til þess að ekki sé hægt að smíða greiðsluáætlun sem skynsemi er í. Þá er ekki um annað að ræða en að ganga til gjaldþrotaskipta.
3: Gjaldþrot
Ef um allt þrýtur er nauðsynlegt að skipta upp búi skuldara og selja upp í kröfur. Skuldarinn missir allflestar eigur sínar og reynir svo að byggja sig upp á ný. En hann er ekki stikkfrír, því í 2. mgr. 165. gr. laga 21/1991 um gjaldþrotaskipti kemur fram að „þrotamaðurinn ber ábyrgð á skuldum sínum sem fást ekki greiddar við gjaldþrotaskiptin. Ef kröfu hefur verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau er fyrningu hennar slitið gagnvart þrotamanninum og byrjar nýr fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið, ef krafan var viðurkennd, en ella á þeim degi sem kröfunni var lýst.“
Hugsanlega er eðlilegt að skuldari haldi áfram að greiða upp í skuldir sínar í einhvern tíma, þrátt fyrir að allar eigur hans hafi verið gerðar upptækar. En sá möguleiki að rjúfa fyrningu þýðir í raun að einstaklingurinn getur séð fram á að losna aldrei við skuldaklafann. Hvatinn til að afla sér tekna við slíkar aðstæður er enginn og framlag skuldarans til þjóðarbúsins líklegt til að markast af því. Eðlilegt væri að setja hámark á þá upphæð sem fengist innheimt á meðan fyrningarfrestur rennur út (sem yfirleitt tekur um 4 ár), og afnema heimild til að rjúfa fyrningu vegna skulda sem þegar hafa verið teknar fyrir við gjaldþrotaskipti.
Hér hefur verið farið yfir hugmynd að heildstæðri og endanlegri lausn á skuldavandræðum heimilanna í landinu, enda mikil þörf á umræðu og hugmyndir. Fjölmargir hafa haft uppi þá skoðun að gjaldþrotalögin virki ekki, en því miður er viðkvæðið gjarna „hættum bara að borga,“ og þá oft nátengt óskhyggju um að fólk geti haldið áfram að búa í íbúðum, og aka um á bílum, sem það er hætt að borga af. Slíkt gengur auðvitað ekki upp.
Sú óvissa sem ríkir á Íslandi í dag veldur því að skuldarar vita illa hvað skal gera, og jafnvel þeir sem starfa við ráðgjafarþjónustu fyrir heimilisfjármál eru ráðþrota. Það er afar mikilvægt að úr þessari óvissu verði leyst sem fyrst og vonandi að tóm gefist til þess hjá stjórnmálamönnum fyrir naflaskoðun, Evrópusambandsdeilum og draumum um kosningar og ráðherrastóla.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020