Stundum hafa menn nefnt með fallegu myndmáli að Ísland gæti virkað sem „brú“ milli Evrópu og Bandaríkjanna. En ESB og Bandaríkin þurfa ekki sáttasemjara til að miðla málum eða liðka fyrir viðskiptum sín á milli. Brú eru því óheppileg myndlíking. Titill þessa pistils væri öllu nær lagi sem lýsing á stöðu landsins.
Hvað gerir ríki voldug? Ísland hefur ekki her til að ráðast inn í önnur ríki, sem er ágætt. Það hefur heldur ekki her til stoppa önnur ríki við að ráðast inn í það. Vald Íslands felst augljóslega ekki í herstyrk. Ísland hefur heldur ekki auðlindir sem það beitt í sína þágu. Það er vart trúverðug hótun að ætla hætta selja fisk til Evrópu eða loka á álútflutning. Eðli málsins samkvæmt erum við alltaf meira háð útlöndum, en þau okkur.
Svo erum við víst svolítið fá, eins og sumir þreytast ekki að núa okkur um fámennu nasirnar okkar. Nei, við erum víst ekkert allt of mörg. „Já, kæri íbúi fjölmenns ríkis, endilega förum í leikinn þar sem þú finnur skítabæ í þínu heimalandi sem er samt fjölmennari en Ísland, og hristir svo hausinn hlæjandi. Vei, ég get ekki beðið.“
En eitt höfum við þó sem til dæmis íbúar borgarinnar Bielefeld hafa ekki og það er sjálfstæðið. Bielfeldingar geta til dæmis ekki viðurkennt sjálfstæði ríkja, tekið upp stjórnmálasamband við þau og hótað að þykjast ætla slíta því. Þetta getum við gert þrátt fyrir að vera (orðin aftur) færri en íbúar Bielefeld. Og Bielefeld er það fámenn að sumir halda að hún sé ekki til. (Gúglið það)
Stærsta uppspretta valds Íslands er því líklegast bara sú skoðun sem við höfum, sem sjálfstætt ríki. En sú skoðun er lítils auðvitað lítils virði ef við getum ekki beitt henni. Þannig styrkir vera okkar í alþjóðastofnunum, eins og NATO og Sameiðu þjóðunum, vald okkar sem þjóðar. Alls staðar þar sem við getum greitt atkvæði þar höfum við vald. Í raun ótrúlega mikið vald miðað við hve massafá við erum.
Gangi Ísland í Evrópusambandið mun þeim skiptum fjölga töluvert sem skoðun Íslands skiptir máli, enda mun fjölga þeim skiptum sem Ísland sem ríki mun kjósa um eitthvað. Þau ríki sem mun vilja ná sínu fram innan ESB munu þurfa lobbýja fyrir því að Ísland verði þeim sammála. Sömuleiðis hafa heilmörg ríki hagsmuni af því sem Evrópusambandið gerir. Þau ríki munu m.a. leita eftir liðsinni Íslands í hagsmunagæslu sinni. Ekkert af þessu á sér stað nú.
Í ár fengum við að finna hve sterkt Ísland er þegar það spilar einliðaleik á Alþjóðavettvangi. Töpuð kosning í Öryggisráðið og deilan við Breta sýndu okkur hve veik staða okkar í raun er. Eitt er víst að við munum lenda í alþjóðadeilum aftur. Viljum við ekki vera með einhverjum í liði þá, svona til tilbreytingar?
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021